Borgfirðingabók - 01.12.2016, Side 53
53
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Kvöldið sem næsta sýning átti að vera var hvassviðri, rigning og hálka.
Pálína mætti tímanlega, með fangið fullt af ýmsu dóti. En þegar hún
ætlaði að fara í pilsið, var það horfið.
Meðan klukkan nálgaðist óðum auglýstan sýningartíma, gekk mað ur
undir manns hönd í að leita að pilsinu á öllum mögulegum og ómögu-
legum stöðum.
Ekki þótti ólíklegt að pilsið hefði fokið út í buskann um leið og Pálína
steig út úr bílnum, svo það var leitað og leitað úti á hlaði og þaðan undan
vindi eftir því sem til sást, sem var reyndar takmarkað vegna myrkurs.
En ekki fannst pilsið. Þá var einhver sendur niður að Hofsstöðum á
fljúgandi ferð til að leita að pilsinu þar, og til vara, að koma með svart
pils, sem Pálína átti heima, ef það rétta fyndist ekki.
Mig minnir að eftir talsverðar tilraunir hafi náðst í einhvern á
Hofsstöðum, sem var beðinn að bregðast skjótt við og vera búinn að
finna pilsið þegar sendiboðinn kæmi, því nú var tíminn sannarlega
orðinn naumur. Á meðan var leitað í öllum fatnaði á staðnum að pilsi
handa Pálínu. En ekkert mátulegt pils fannst sem passaði við hin fötin.
Þetta var orðið hið versta mál, en þó kastaði fyrst tólfunum þegar
vitnaðist, að á Hofsstöðum fyndist hvorki græna pilsið né það svarta.
Nú voru leikhússgestir farnir að þyrpast að, en þetta kvöld var upp-
selt, eða því sem næst. Munaði þar mest um hóp úr Félagi eldri borgara
í Borgarnesi, sem kom uppeftir með rútu.
Þegar bíllinn frá Sæmundi renndi í hlað með gamla fólkið, var Grétar
á Höll staddur úti við, að leita að pilsinu eina ferðina enn. Og viti menn!
Í ljósunum frá rútunni sýndist honum glitta í eitthvað grænt bak við
framhjól á einum bílnum á hlaðinu.
Hann rauk þangað, og hvað haldið þið?!
Þar var þá pilsið.
Þegar Grétar kom hlaupandi inn með pilsið, sigri hrósandi, átti sýn-
ingin alveg að fara að hefjast. Pálína þurfti reyndar ekki að fara inn á
svið í fyrstu atriðunum sem kom sér betur, því þótt pilsið væri loksins
fundið, var það rennblautt og illa útleikið.
En nú tóku þær snarráðu konur, Vala og Gróa, til sinna ráða. Þetta
var nokkuð þykkt pils og þar að auki fóðrað. En þegar þær voru búnar
að verka það upp, reyndi Gróa að þurrka það með volgu straujárni á
meðan Vala hamaðist á því með hárþurrku.
Gamla fólkið úr Borgarnesi var nokkuð lengi í gegnum miðasöluna,
svo það var ekki nema sjálfsagt að bíða í smástund með að byrja leik inn.