Borgfirðingabók - 01.12.2016, Page 65
65
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
aldrei falur eftir að eitt ár leið frá þessu æfintýri. Þá var Brúnn orðinn
svo mikill gæðingur að mér fannst ég ekki geta án hans verið og ekki
geta vitað af honum í eigu annars manns. Átti ég nú þessa bræður og
gæðinga báða um skeið og má með sanni segja að þeir voru hvor öðrum
betri. Það óvanalega og einkennilega skeði að jafnan þótti mér sá betri
sem ég sat á, hvor þeirra sem það var. Gráni var meiri fjörhestur og fínni
ganghestur en Brúnn var meiri skörungur og hafði eitthvað sérstakt
við sig sem gerði hann svo óvenjulegan persónuleika. Alla tíð var hann
samur við sig með það að skapið var stórbrotnara en almennt gerist og
jafnvel meira en dæmi eru til, hann beit og sló þegar tækifæri gafst og
hann hélt jafnan hryssunum sér í haga og flæmdi alla hesta frá þeim og
skyldi þá enginn sjá annað en þarna væri gamall graðhestur þegar hann
var í þessu aðgreiningarstarfi sínu og vissi ég aldrei til að neinn hestur
stæðist það.
Í viðkynningu við mig var hann hinsvegar eftirlátssemin ein og elsku-
legheitin. Hann gekk aleinn í hús ef ég vildi, jafnvel þó að aðrir hestar
hlypu frá honum til beggja hliða, hann hreyfði sig ekki meðan ég setti
á hann beisli og hann stóð alkyrr meðan ég lagði á hann hnakkinn og
ekki hreyfði hann sig fremur en tréhestur meðan ég steig í hnakkinn og
ekki fyrr en ég gaf merki en þá stóð ekki á honum, því viljinn var mjög
góður, en alveg öfgalaus. Viljinn var sannarlega mátulega skemmtilegur.
Hann hafði allan gang sem íslenskur hestur hefir yfirleitt yfir að ráða en
mjög víxlaður bæði á tölti sem er óvanalegt og sérstaklega á skeiðinu.
Svo fimur var hann í þessu þó ótrúlegt sé og ef til vill enginn trúi því
að alveg var jafngott að sitja á honum þó að ekkert spor væri rétt og
hef ég ekki þekkt það hvorki fyrr né síðar. Töltið var ekki óhreint nema
fyrst af stað en óhreinindin á skeiði héldust við hann alla tíð. Var bæði
lítið reynt að ríða það af honum og svo var líka að ég kenndi mig aldrei
mann til þess og hafði lítinn áhuga fyrir því, þar sem það skerti ekki
ágæti hans sem reiðhests. Í kappreiðum gat hann auðvitað ekki tekið
þátt með þessum ágalla, það kom aldrei til greina og einnig af öðrum
ástæðum, svo að það rakst heldur ekki á þannig. Þessi hestur var fyrir
mig og jafnvel var ég fyrir hestinn, það var aðalatriðið. Ég gerði hann
að orðlögðum gæðingi, hann gerði mig að þekktum hestamanni. Hann
átti óvenjumikið af gæðum, hann átti líka galla og ókosti í ríkari mæli en
flestir aðrir hestar og þetta meðal annars gerði hann svo óviðjafnanlega
spennandi.