Borgfirðingabók - 01.12.2016, Síða 77
77
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
hesthúsdyrnar, eða í haganum, þínum eigin haga. Ég ætla að gera
þá játningu að margoft grét ég og hló í einu, ómótstæðilega, þetta
eru sælustu stundir sem ég hefi lifað. Það þori ég að fullyrða að sá
hestamaður sem aldrei verður þessa var veit ekki hvað góður hestur er.
Þetta eru guðdómleg augnablik, þetta kom ekki alveg eftir pöntun,
og þó, til þess þurfti viss skilyrði. Það var aldrei á vegum gerðum af
manna höndum, heldur aðeins á melum og moldargötum, á grænum
grundum og gráum eyrum og sjaldan þegar aðrir voru viðstaddir.
Sjálf sagt þekkja þetta fleiri en ég, þó þeir vilji ekki láta það uppi,
þyki minnkun að því en svo á það ekki að vera, eftir þessu ber að
keppa og þar má kosta miklu til. Í þáttum Ásgeirs frá Gottorp, um
góða hesta minnist ég ekki að hafa séð þessa getið nema um Jón
Ás geirsson, unglinginn á Kollafjarðarnesi, þegar hann kom fyrst á
bak á Blakk sinn fyrsta reiðhest. Það er táknrænt að einmitt þessi
mað ur skyldi verða, þótt síðar væri, einn allra þjóðkunnasti hesta-
og tamn ingamaður á landinu og hans nafn og hestamennska verður
þjóð kunn meðan hnakkur er lagður á íslenskan hest.
Í íslenskum málsháttum felst oft mikið vit og ekki lifa þeir til lengdar,
nema að í þeim felist meiri eða minni sannindi. Máltækið: „Oft verður
góður hestur úr göldum fola“ heyrði ég fyrst um leið og ég fór að
skilja mál manna og enn er það á vörum þjóðarinnar. Hvað skyldi það
vera gamalt og hver skyldi fyrstur hafa mælt þessi spaklegu orð? Það
verður sennilega aldrei upplýst en þau styðjast áreiðanlega við reynslu
kynslóðanna og eru ekki sögð út í bláinn. Hafi þetta verið sannindi á
þeim tíma, þá eru það sannindi enn og svo mun lengi verða. Baldinn foli
er líf og yndi ungra og upprennandi hestamanna en Grýla fyrir þá gömlu
og þó að ekki búi gæðingseðli í öllum böldnum folanum, þá hafa þó
komið flestir mestu afburðagæðingarnir úr þeirra hópi og má styðja það
með óteljandi rökum, sem er of langt mál að fara út í hér. Þetta sanna
gæðingaannálar Ásgeirs Jónssonar og fjölmargar sagnir bæði skráðar og
óskráðar, að einmitt þeir folar sem höfðu kjark og þrótt, andlegan og
líkamlegan til að verja frelsi sitt í æsku eins og lífið í brjósti sér reyndust
síðar vel. Oft hafa þeir ekki notið sín af því að þeir hafa verið rangmetnir
og jafnvel misbrúkaðir og misskildir. Nú til dags mun það algengt, að
þeir hestar sem ekki umyrðalaust lúta mesta og eina andstæðingi sínum
og höfuð bölvaldi, þegar við fyrstu snertingu, fá kúlu í hausinn með