Borgfirðingabók - 01.12.2016, Page 159
159
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Aðeins við norður enda vatnsins var skóglaust svæði. Nú á síðustu árum
er það farið að klæðast skógi eftir að hafa verið friðað fyrir búfjárbeit
í um þrjá áratugi. Í Hreðavatni eru tveir hólmar: Hrísey, (stundum
kallaður Stafholtshólmi) allstór hólmi, sem er eign Stafholtskirkju og
Álftahólmi, lítill hólmi við norðausturenda vatnsins. Á öðrum og þriðja
áratug síðustu aldar, var mikið um að fólk sem kom í skemmtiferðir að
Hreðavatni færi út í Hrísey. Stutt sund skilur Hrísey frá landi, ferjað
var frá Hundsvíkurtanga, litlu nesi sem gengur út í vatnið norðan við
eyjuna. Ferjumaðurinn hét Jakob Þorsteinsson frá Húsafelli, hann var
bóndi á Hreðavatni á árunum 1887 til 1902. Jakob var afar tengdur
þessum stað og dvaldi löngum á bænum Hreðavatni til æviloka. Hans
heitasta ósk var að fá að hvíla í Álftahólmanum, að lokinni sinni jarðvist
en biskupsleyfi fyrir þeirri ósk hans var hafnað.
Þrjár jarðir eiga land að Hreðavatni: Laxfoss, Jafnaskarð og Hreðavatn.
Ríkið kaupir Jafnaskarð árið 1939 en við sölu jarðarinnar 4 árum seinna
var 150 hektara svæði tekið undan jörðinni og er það eign Skógræktar
ríkisins. Þetta svæði tekur yfir allt land er jörðin átti að vatninu. Stærsta
eignarhlutann í vatninu á jörðin Hreðavatn. Landareign Laxfoss að
vatninu nær frá Leiðaskarði í norðaustri og allan suðurhluta vatnsins,
allt að ósi Kiðár í vestri, þar sem landareign Skógræktarinnar tekur við.
Miðlína réði merkjum á vatninu. Innrennsli vatns í Hreðavatn er ekki
mikið. Kiðáin sem á upptök sín í Selvatni er þar vatnsmest. Tvö gil,
Bæjargil og Húsadalsgil sem upptök sín eiga í Hreðavatnsfjalli renna í
vatnið og síðan nokkrir smálækir. Úr vatninu rennur Hrauná, sem fellur
í Norðurá.
Frá Laxfossi hafði silungsveiði í net verið stunduð um langan aldur í
Hreðavatni. Það fylgdi því alltaf nokkur tilhlökkun þegar leið að vori,
og vænta mátti að vetrarísinn færi að leysa af vatninu. Jafnan leysti
ís fyrst frá ósi Kiðár, síðan stækkaði vökin í báðar áttir en síðast varð
íslaust á norðurhluta vatnsins. Aldrei voru net lögð í vatnið fyrr en
allur ís var leystur því ef vind gerði gat ísinn rekið yfir veiðisvæðið og
valdið tjóni á netunum. Með því var fylgst, þegar ísinn var að leysa og
margar ferðir fór ég norður á hálsinn þar sem sá yfir vatnið þessu til
athugunar. Undirbúningur veiðitímans hófst þó mun fyrr. Faðir minn,
Jón Snorrason hafði það fyrir sið að taka netin til yfirlits á sumardaginn
fyrsta, gera við göt (setja ,,kríulöpp‘‘ hér og þar) og einnig voru teinar
endurnýjaðir. Verkfærin sem notuð voru við þetta voru netanál og