Borgfirðingabók - 01.12.2016, Síða 190
190
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Árið 1811 settist Halldór í Bessastaðaskóla og útskrifaðist 1818, varð
skrifari hjá Stefáni Stephensen amtmanni, en sigldi 1823 til Kaup-
manna hafnar og lærði lögfræði, lauk bóklegu prófi með besta vitnis-
burði 1828, en verklegu 1831. Hann var fyrstu árin eftir útskrift ritari
í Leynd ar skjalasafni og um skeið styrkþegi Árnasafns. Þann 11. apríl
1835 fékk hann Borgarfjarðarsýslu og hélt til æviloka.
Halldór var utanlands veturinn 1837 til 1838 og hugðist safna efni í
ís lenskt lagasafn. Trúlega hefur hann haft veðurathuganirnar með sér til
Kaup manna hafnar og þær þar komist í safn Vísindafélagsins.
Sumar og framan af hausti 1835 dvaldi hann á Ytra-Hólmi, en flutti síðan
að Krossholti. Krossholt28 nefndist stofa29 í Krosslandi innan Akraness
sem Stefán Gunnlaugsson, næsti Borgarfjarðarsýslumaður á undan
Halldóri, hafði byggt 1833. Halldór bjó í Krossholti á árunum 1835
til 1839 og þar voru mælingar hans gerðar og ræktaði hann einhvern
fyrsta blóma- og trjágarð þar um slóðir. Hann fluttist 1839 að Höfn í
Melasveit. Halldór var ókvæntur og barnlaus, en Borgfirzkar æviskrár30
geta þess að Helga Bjarnadóttir frá Guðrúnarstöðum í Eyjafirði hafi
verið bústýra hans öll sýslumannsárin.
Sýslumannaævir segja um Halldór:
„Forstandsmaður reyndist hann mikill, svo að við hans dauða varð
sterfbú31 hans svo mikið, að meir en borguðust allar hans skuldir.“
Og ennfremur:
„Hann var fullkominn meðalmaður á vöxt, en varð snemma ellilegur
í andlitsfalli, þó annars ekki ófríður, nokkuð ljósleitur með jarpt hár.“
28 Nafnið Krossholt fer eitthvað á milli mála, það er notað í bæði Borgfirzkum æviskrám
og Sýslumannaævum, en í Sögu Akraness (Jón Böðvarsson (1992) I, s. 39) er staðurinn
nefndur Krosshóll. Það heiti er einnig notað í: Adolf Friðriksson (2002), Fornleifar í Innri
Akraneshreppi, FS169-00031 og vitað beint í örnefnaskrá Ara Gíslasonar, þess sama og
tók saman upplýsingar um Halldór í æviskránum. Höfundur fornleifaskýrslunnar telur
einhvern efa á að tóft á staðnum sé af stofu Stefáns og Halldórs. Þess má geta að 8. hola
Garðavallar á Akranesi nefnist Krossholt.
29 Nú á tímum væri „stofa“ sennilega nefnd einbýlishús, varla þó stærra en 30 til 40
fermetrar að grunnfleti. Lítið virðist nú vera um upplýsingar um Krossholtsstofu, hvenær
hún féll eða var rifin. Greinarhöfundar hafa ekkert fleira handfast um hana fundið.
30 IV. bindi, s. 133. Þar er blómaræktar Halldórs getið.
31 Dánarbú.