Borgfirðingabók - 01.12.2016, Page 199
199
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Fagra Akrafjallið kæra,
flest sem geymir sporin mín,
kýs ég nú í litlu ljóði
leiða hugann upp til þín.
Fyrst í dalsins faðmi blíðum
fyllist sálin guðaró,
þá var tíðum tæpa gatan
tifuð, þó að væri mjó.
Selbrekkurnar seiddu hjallar,
sveinninn ungi værðar naut.
Kindajarmur, kvak í lóu,
krunk í hrafni, blómalaut.
Klettagljúfrið, krummahreiðrið,
kliður vorsins nær og fjær.
Bugðast niður Berjadalinn
bergvatnsáin silfurtær.
Skeiðflatir og Skellibrekkur,
skarfakálið, mosi, lyng,
ær á beit, sem unglömbunum
óspart veittu lífsnæring.
Frelsi ríkir, fuglasöngur
fyllir dalinn ljúfum hreim.
Öllu gleymt, en aðeins lifað
inni í þessum töfraheim.
Lambatungur lengst í austur,
litfríð Jókubungan nær,
háir tindar, hvassar brúnir,
huldusteinn og dvergabær.
Hérna drengsins hugarheimur
helgidómi lífsins í
óskaði að eiga dalinn,
aldrei fékk þó svar við því.
Hjartans þökk um ævi alla
áttu, kæra fjallið mitt,
fyrir okkar fornu kynni
fel ég drottni nafnið þitt.
Hinstu hvíld þar helst ég vildi
hljóta eftir liðinn dag,
svo ég aftur á þeim slóðum
ætti fagurt sólarlag.
10. maí 1970.
Akrafjall
GUÐNI EGGERTSSON