Borgfirðingabók - 01.12.2016, Qupperneq 214
214
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
skýrast. Jafnvel mikilvæg ummerki, sem verið höfðu ,fyrir allra augum‘
nær frá upphafi án þess að eftir þeim væri tekið, gátu fengið lykilstöður
þegar á leið. Í norðurátt upp frá Snorralaug liggur forskáli frá laugu sem
oft er nefndur í Sturlungu, en hann virðist tengjast M10 og M11 og
skammt þar norðar var hellulagður gólfflötur, M12.
M12 — HELLULAGÐUR HÚSGRUNNUR
1.2.1. Á milli greinilegra leifa af langveggjum, sem eru með 3,5 m milli-
bili, er 6,8 m löng hellulögn en í skýrslum segir: „Þetta eru fremur smáar
hell ur og margar úr hverasteini (geyserite) og vel lagðar niður í möl. Þær
ná alveg upp að hliðarveggjum hússins.“14 Ennfremur segir um M12:
Aldur hússins verður á þessu stigi aðeins áætlaður út frá afstöðu þess til
annarra mannvistarleifa. Af því má ráða að það sé samtíma niðurgrafna
húsinu sem liggur eins en sunnar, mannvirki 10/11, og gæti því verið frá
13. eða 14. öld eins og það.15
M12 er um margt sérkennilegt hús. Við rannsókn komu í ljós stöplar
eða stólpar hlaðnir úr grjóti um 0,6 m á hvora hlið og um 0,65 m háir.
Tal ið er að þeir hafi upphaflega verið þrír við hvorn langvegg með um
eins metra millibili. Þeir eru að mestu gerðir úr hveragrjóti, geyserite,
og hvíla á hellulögðu gólfinu, liggja að útveggjum og eru því augljóslega
hlaðnir síðar.16 Einnig segir í skýrslum: „Líklegast þykir að stólparnir
hafi þjónað hlutverki sem tengist þakgerð hússins.“17 Stórar hellur, sem
voru efst á stólpunum í M12, virðast hafa átt að jafna út þunga þaksins
yfir á smærri steina neðar í stólpunum. Á þeirri í miðið við suðurvegginn
var manngert gat um 7,5 cm í þvermál og síðar fannst önnur stór hella
með gati. Hún var í stétt annars staðar og talin endurnýtt þar. Álitið
er að hún hafi áður verið efst á einum stólpanna en efnið í þeim er að
mestu hveragrjót sömu gerðar og hellulögnin í gólfinu.18 Götin á stóru
hell unum efst á stöplunum gætu hafa verið ætluð til að koma fyrir ljós-
færum.
14 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2001, bls. 12, sbr. 2012, bls. 76-78, mynd 27, 28.
15 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2001, bls.15, sbr. 2012, bls. 64, 76-82.
16 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2001, bls. 12-14, sbr. 2012, bls. 77.
17 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2002, bls. 8, sbr. 2012, bls. 77 og 85–86.
18 Guðrún Sveinbjarnardóttir 2001, bls. 13, sbr. 2012, bls. 76–77.