Fréttablaðið - 01.02.2023, Blaðsíða 26

Fréttablaðið - 01.02.2023, Blaðsíða 26
Megnið af Covid- faraldr- inum sat ég og las um alnæmis- faraldur- inn. Þetta voru rosalega skrýtnir tímar. Góða ferð inn í gömul sár er heimilda- og þátttökuverk sem Eva Rún Snorradóttir vann um HIV-faraldurinn á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Eva Rún segir lítið hafa verið fjallað um þetta átakanlega tímabil í sögu hinsegin fólks. Eva Rún Snorradóttir vann Góða ferð inn í gömul sár þegar hún var eitt af leikskáldum Borgarleik- hússins og segir hún hugmyndina hafa kviknað þegar hún sá þátt í sjónvarpsseríunni Svona fólk sem tileinkaður var HIV-faraldrinum. „Ég held að ég hafi ekki verið ein um það að fyllast af einhverjum eldmóði. Ég held að allir hafi bara fengið marglaga sjokk. Þetta var svo magnaður þáttur og ég fékk bara rosalegt sjokk af því að hafa vitað svona lítið um þetta. Þó að ég hafi verið of lítil til að upplifa þetta, ég var bara eins árs þegar fyrsta HIV-smitið greindist á Íslandi, og þó að ég sé ekki hommi þá er þetta bara svo mikil hinsegin saga, saga okkar réttinda og okkar fólks,“ segir hún. Fórstu í mikla rannsóknarvinnu á HIV-faraldrinum og þessu tíma- bili? „Já, megnið af Covid-faraldrinum sat ég og las um alnæmisfaraldur- inn. Þetta voru rosalega skrýtnir tímar. Að fara í fyrsta skipti í heim- sókn til HIV Ísland í þeirra húsnæði með grímu á hápunkti Covid var rosalega einkennilegt.“ Þaggað niður Eva Rún segir margt hafa komið sér á óvart þegar hún kynnti sér HIV- faraldurinn á Íslandi og þá einna helst hversu mikil áhrif hann hafði á allt samfélagið. „Maður vissi að það hefðu verið fordómar, maður vissi að þessir menn hefðu staðið einir en stærðin á því öllu kom mér svo ótrúlega mikið á óvart. Hvernig var að vera heilbrigðisstarfsmaður á þessum tímum, ég hafði ekki sett mig inn í þá sögu og afleiðingarnar af far- aldrinum. Það var bara í raun mjög skammarlegt hvað ég vissi lítið en það er ekki bara mitt heldur hefur bara ótrúlega lítið verið talað um þetta. Það er bæði líklega vegna þess að sárin eru enn þá svo stór og hafa enn ekki gróið en það helst náttúr- lega í hendur við að það hefur ekk- ert verið fjallað um þetta, það hefur aldrei komið nein afsökunarbeiðni frá yfirvöldum og það er bara pínu þaggað niður,“ segir hún. Eva Rún segir umfjöllunarefn- ið vera átakan- legt en mikil- vægt enda hefur HIV-faraldurinn lítið sem ekkert verið gerður upp í listheim- inum hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/ ANTON BRINK Eva Rún bætir því við að HIV- faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir samfélagið, en hafi þó ekki verið meðhöndlaður sem slíkt auk þess sem HIV er enn til staðar og for- dómarnir sömuleiðis. Flókið og margradda verk Á ferli sínum sem sviðslistakona hefur Eva Rún sérhæft sig í þátt- tökuverkum, meðal annars með sviðslistahópunum Kviss Búmm Bang og 16 elskendum. Að sögn Evu sver Góða ferð inn í gömul sár sig í ætt við verk þessara hópa en það er tvískipt og samanstendur annars vegar af hljóðverki sem áhorfendur hlusta á í einrúmi og hins vegar af samverustund sem áhorfendur mæta á í Borgarleikhúsinu. „Þetta er svo gígantískt efni að það er ekki hægt að afgreiða það með einhverju einföldu, einróma verki. Þetta er svolítið f lókið, krefjandi og margradda. Fólk fær fyrsta hlutann sendan heim til sín með tölvupósti og mjög skýrar leið- beiningar og hlustar í öruggu rými á heimildapartinn af þessu, sem er klukkutíma langt hljóðverk. Það eiga allir áhorfendur að hlusta á sama tíma og svo á fólk að mæta niður í Borgarleikhús klukkan 8. Þar verður stund þar sem fólk úr hinseginsenunni er búið að taka yfir Nýja sviðið,“ segir hún. Eva Rún bætir því við að þátttaka áhorfanda sé ekki krefjandi, heldur sé þetta upplifunarverk. Góða ferð inn í gömul sár sameinar þannig margar ólíkar tilfinningar og upp- lifanir um sögu HIV-faraldursins og sögu hinsegin fólks á Íslandi. „Þetta er samvera og það er mikil gleði og partí en frá því að ég fór að vinna verkið hefur komið bakslag í réttindum samkynhneigða. Þann- ig að við erum ekki bara að fagna heldur er margt sem þarf að skoða. Þetta er ekki bara gleðipartí en er það samt líka. Við fögnum þeim sem koma á verkið, áhorfendur eru okkar fólk þannig að við erum þarna saman að heiðra lífið,“ segir Eva Rún. Ekki hrifin af léttmeti Tók það á þig tilfinningalega að vinna verkið? „Já, það tók á mig. Að sökkva sér niður í þetta efni er bara mjög átakanlegt. Það þarf að fara mjög varfærnislega að því og það tekur á alla sem upplifðu þessa tíma að tala um þá. Það er alveg sama hversu náinn aðstandandi, hversu mikið viðkomandi var í baráttunni eða hvort hann var hjúkrunarfræðing- ur, það eiga allir erfitt með að tala um þessa tíma.“ Eva ræddi meðal annars við ein- staklinga með HIV sem lifðu af faraldurinn. Hún segir umfjöllunar- efnið vera átakanlegt en mikilvægt enda hefur HIV-faraldurinn lítið sem ekkert verið gerður upp í listheim- inum hér á landi og þörfin sé mikil. „Það dóu margir hlutfallslega á þessum tíma. Þetta var rosa högg fyrir alla og allt í kringum þetta var mjög átakanlegt. Viðbragðsleysið og einangrunin. Þetta er ekki beint léttmeti en ég er heldur ekki hrifin af léttmeti. Það sem var áhugavert er að það var svo mikil tenging, svo mikil fegurð og svo mikill styrkur í þessum sögum. Þannig að þetta er ekki bara sorg,“ segir Eva Rún og bætir því við að hún sé þakklát öllu fólkinu sem kom að verkinu, viðmælendum og þátttakendum í Borgarleikhúsinu. Góða ferð inn í gömul sár er frum- sýnt í Borgarleikhúsinu 4. febrúar og verður verkið aðeins sýnt fjórum sinnum.  n Sárin hafa enn ekki gróið Þorvaldur S. Helgason tsh @frettabladid.is Þýska fiðlustjarnan Anne-Sophie Mutter kom fram á tónleikum ásamt hljóm- sveitinni Mutter Virtuosi í Eldborg í Hörpu síðasta föstudag. MYND/MUMMI TÓNLIST Anne-Sophie Mutter ásamt Mutter Virtuosi Verk eftir Vivaldi, Bologne og Chin Eldborg í Hörpu föstudaginn 27. janúar Jónas Sen Gamli Niccolo Paganini var svo snjall fiðluleikari að fólk hélt að hann væri í slagtogi við djöfulinn. Auðvelt væri að trúa því sama upp á Anne-Sophie Mutter. Hún er stund- um kölluð drottning fiðlunnar. Og ekki að undra; á tónleikunum í Eld- borg á föstudagskvöldið hafði hún fiðluna fullkomlega á valdi sínu. Hún lék sér að erfiðustu heljar- stökkum eftir strengjunum eins og ekkert væri. Prestur og skylmingameistari voru meðal tónskáldanna á efnis- skránni. Auk þess að vera fiðlu- snillingur og tónskáld hlaut Ant- onio Vivaldi prestsvígslu þegar hann var tuttugu og fimm ára, og Joseph Bologne var líka afar fær skylmingamaður og starfaði um tíma sem konunglegur lífvörður. Sá síðarnefndi er sérstaklega áhuga- verður, því í dag vita fæstir hver hann var. Það breytist væntanlega í vor, því þá kemur út kvikmynd um ævi hans. Undraverðir hæfileikar Bologne, einnig kallaður Chevalier (riddari) de Saint-Georges, var sam- tímamaður Mozarts. Hann fæddist á eyjunni Guadeloupe, sonur hvíts plantekrueiganda og afrísks þræls. Hann sýndi f ljótlega undraverða hæfileika, og er hann óx úr grasi sló hann í gegn í tónlistarheiminum í Evrópu, ekki síst fyrir framandi útlitið og leikni hans í skylming- um. Á endanum var hann sæmdur riddaratign. Á tónleikunum lék Mutter eftir hann fiðlukonsert í A-dúr op. 5 nr. 2 og með henni spilaði hljómsveitin Mutter Virtuosi. Flutningurinn var frábær. Tónlistin sjálf var skemmti- leg, ekki ósvipuð Mozart, en með talsvert tilþrifameiri einleiksrödd. Túlkunin var sannfærandi, f læðið í leiknum var óheft og grípandi, stígandin spennuþrungin. Sjarm- erandi heiðríkja sveif yfir verkinu, það var fullt af bjartsýni og dirfsku. Vonandi fær maður að heyra miklu meira eftir Bologne er fram líða stundir. Kadensan ein eftir Allt öðru vísi var Gran Cadenza eftir suður-kóreska tónskáldið Unsuk Chin (f. 1961). Kadensa er einleiks- þáttur í lok fyrsta og stundum síðasta kafla í konsert, upphaflega hugsaður fyrir einleikara svo hann geti virkilega sýnt snilli sína. Manni dettur í hug píanóleikarinn Liber- ace, sem spilaði fyrsta píanókons- ertinn eftir Tsjajkovskí á fimm mín- útum (hann tekur um 40 mínútur) með því „að sníða burt þetta leiðin- lega“. Svipað var uppi á teningnum hér, það var búið að „hreinsa“ allt annað, og bara kadensan, með alls konar f lugeldasýningum, var ein eftir. Og hvílíkar f lugeldasýningar! Tónmálið var ómstrítt og áleitið, manísk þráhyggja; eins og örvænt- ingarfull leit að einhverju sem ómögulegt var að skilgreina. Mutter lék verkið ásamt Samuel Nebyu og gerði það afskaplega vel. Samspilið var hárnákvæmt og allar brjálæðis- legu tónahendingarnar og stefin voru fullkomlega af hendi leyst. Þetta var frábært. Öfgafull túlkun Vivaldi átti restina af efnisskránni, annars vegar konsert fyrir fjórar fiðlur í h-moll op. 3 nr. 10 og hins vegar Árstíðirnar, þar sem Mutter lék einleikinn. Fyrri tónsmíðin var glæsilega f lutt, en það var hin síðarnefnda sem gerði allt vitlaust í salnum. Túlkunin var óvanalega öfga- full. Hraðinn var ofsalegur, en var f leygaður með innhverfum hug- leiðingum þar sem tíminn stóð kyrr. Árstíðirnar eru gjarnan spilaðar af meiri formfestu, en hér var túlkunin gríðarlega ástríðuþrungin, nánast eins og um rómantískt verk væri að ræða. Tónlistin sjálf er þó mjög til- þrifamikil og segja má því að hún bjóði upp á svona meðhöndlun. Hún líka svínvirkaði og fagnaðar- lætin í lokin, þar sem allt ætlaði um koll að keyra, voru fyllilega verð- skulduð. n NIÐURSTAÐA: Stórkostlegir tón- leikar. Drottning fiðlunnar og skylmingameistarinn 22 MENNING FRÉTTABLAÐIÐ 1. FEBRÚAR 2023 MIÐVIKUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.