Bændablaðið - 20.10.2022, Blaðsíða 54
54 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. október 2022
Að þessu sinni tekur Bændablaðið
fyrir dráttarvélina New Holland
T5.140 Dynamic Command. Þetta
myndi flokkast undir meðalstóra
dráttarvél eins og Claas Arion
470, John Deere 6R 130 og Valtra
G135.
Samkvæmt sölumanni Kraftvéla
var vélin sem blaðamaður prufaði
af einfaldri útgáfu, eða hugsuð
fyrir þá sem vilja ekki of mikið af
flóknum tölvubúnaði.
Uppskrift New Holland að
traktor hefur fallið vel í kramið
hjá íslenskum bændum og hefur
þetta verið eitt mest selda merkið
um árabil.
Hér er komin ný lína frá fram-
leiðandanum og fellur á milli T5
Electro Command og T6.
Ferskt húdd – gamalt hús
Hönnuðum dráttarvéla standa ekki
til boða margar leiðir til að láta sína
traktora skera sig úr fjöldanum. Þessi
vél er fallega blá, en það sama má
segja um nær allar New Holland vélar
og Ford traktora þar áður. Húddið er
með rennilegum línum og nútímaleg
ljós sem glöggir dráttarvélanördar
geta líklega þekkt frá eldri vélum
frá þessum framleiðanda. Allt annað
í útliti vélarinnar er runnið undan
rifjum notagildis þar sem þetta er
vinnuvél, ekki sportbíll.
Skýrt dæmi um slíka praktík er
hönnun ökumannshússins. Í næstum
tvo áratugi hefur New Holland sett
fjögurra-pósta ökumannshús á
vélarnar sínar þar sem breytingar
á íhlutum (og varahlutum þegar að
því kemur) hafa verið nær engar.
Á þessum húsum ná hurðirnar frá
framrúðu að afturhlera og gefa gott
útsýni, en á móti er aukin hætta á að
þær taki á sig vind.
Útsýni til fyrirmyndar
Ein breyting hefur þó orðið á öku-
mannshúsinu á síðustu misserum.
Nú tengist framrúðan nær sam-
skeytalaust við þakglugga fremst á
þaki hússins. Þar með er útsýnið upp
nær óhindrað og auðvelt að stafla
rúllum í fjórar hæðir án þess að þurfa
að beygja sig fram.
Önnur breyting til batnaðar felst
í pústinu. Á fyrri gerðum New
Holland af þessari stærð var stór
mengunarvarnarbúnaður staðsettur
neðst á pústinu. Nú hefur þessum
búnaði verið komið haganlega fyrir
undir vélahlífinni þar sem hann
skyggir ekki á útsýnið.
Einangrun frá umhverfi
Vinnuumhverfið inni í vélinni er
prýðilegt. Við almenna vinnu er
hljóðvistin engu verri en þegar
nýlegum smábíl er ekið á þjóðvegi.
Þar sem traktorinn er útbúinn
loftkælingu er engin þörf á að hafa
glugga opinn sem hleypir inn hávaða
og ryki. Sjálft ökumannshúsið
fjaðrar og einangrar notandann frá
verstu höggunum.
Sætið er útbúið loftpúðafjöðrun
sem hreyfist annars vegar upp og
niður, og hins vegar fram og aftur.
Þessi góða dempun í sætinu ásamt
fjaðrandi húsi gerir það að verkum
að akstur vélarinnar er nokkuð
þægilegur. Þessi tiltekna vél var
ekki útbúin fjaðrandi framhásingu,
en ekki hægt að sjá að það kæmi
að neinni sök.
Rafstýrð ámoksturstæki
Við notandanum blasa fjölmargir
takkar, stangir og pinnar sem stjórna
hinum ýmsu eiginleikum vélarinnar
bæði á stjórnborðinu hægra megin
og fyrir ofan hraðamælinn. Allt
virðist vera vel skrúfað saman og
úr efnum sem munu endast.
Tveir stjórnpinnar eru fremst
á armhvílunni hægra megin á
ökumannssætinu. Pinninn sem
er nær ökumanninum hreyfist
ekkert, heldur er hann hugsaður
sem handfang með aðgengilegum
hnöppum. Þar er m.a. hægt að
stjórna vendigírnum, vökvadælum
og velja á milli 24 akstursþrepa. Við
endurtekningarvinnu eins og slátt
eða plægingu þarf notandinn ekki að
hreyfa höndina oft frá þessari stöng.
Lengra til hægri er lítill pinni
sem fellur vel í hendi og stjórnar
ámoksturstækjunum rafrænt. Á
þeim pinna eru nokkrir hnappar
sem m.a. virkja þriðja sviðið og
velja á milli akstursþrepa. Ekki er
hnappur fyrir vendigírinn á þessum
stjórnpinna og því þarf notandinn
að velja akstursstefnuna með sveif
vinstra megin við stýrið. Notkun
ámoksturstækjanna er áreynslulaus
samanborið við notkun vökvastanga.
Lengst til hægri eru svo stangir
af gamla skólanum sem stjórna
vökvaventlum fyrir aukahluti.
Kúplíng óþörf
Sá eiginleiki vélarinnar sem sölumenn
Kraftvéla stæra sig mest af er
Dynamic Command gírkassinn.
Ökumaðurinn getur sjálfur valið
á milli 24 akstursþrepa eða
látið traktorinn skipta sjálfur.
Kúplingsfetillinn kemur við sögu
þegar vélin er ræst til að byrja með,
en annars er hann óþarfur.
Nóg er að ýta á bremsuna þegar
vélin er stöðvuð. Hægt er að stilla
hversu harkalega gírkassinn skiptir
milli akstursþrepa. Í hörðustu
stillingunni er mest þol fyrir
álagi, á meðan mýkstu stillinguna
er hægt að nota við létta vinnu
og þjóðvegaakstur. Samkvæmt
markaðsefni New Holland á
þessi skipting að skila af sér
mikilli sparneytni samanborið
við aðrar fjögurra strokka vélar.
Þar af leiðandi er ekki þörf fyrir
aflauka, heldur getur hún verið
með allan kraftinn aðgengilegan
á augabragði.
Vendigírnum er hægt að beita
hvenær sem er, jafnvel á fullri ferð
með hlass í eftirdragi. Þegar tekið
er í áðurnefnda sveif eða hnapp
breytir vélin um akstursstefnuna
afar ljúflega, jafnvel þótt bremsan
komi ekki við sögu.
Góð tækjavél
Í fínvinnu sést hversu vel útfærður
gírkassinn er, því notandinn verður
ekkert var við hann. Til eru sjálf-
skiptingar af þessu tagi þar sem
vélin rykkist í fínvinnu, en það er
alls ekki tilfellið hér.
Þessi silkimjúki gírkassi,
óhindrað útsýni, nákvæmur
stjórnpinni ásamt þröngum beygju-
radíus gerir þessa dráttarvél að
afbragðs tækjavél.
Tölur
Vélin í þessum prufuakstri kostar
16.790.000 krónur án vsk. með
ámoksturstækjum. Mótorinn skilar
140 hestöflum og 630 Nm við 1.300
snúninga. Lengd án tækja er 4.397
mm, hæð frá miðju afturöxuls er
2.100 mm og breidd 2.288 mm.
Húsið fjaðrar og er vel hljóðeinangrað. Ökumannssætið fjaðrar annars vegar
upp og niður, og hins vegar fram og aftur. Rúmgott farþegasæti.Vendigír er stjórnað með sveif vinstra megin við stýri eða með hnappi
á handfangi fremst á stjórnborðinu. Ekki þarf að kúpla þegar vélin er
stöðvuð eða skipt um akstursstefnu. Lítill egglaga rafmagnspinni stjórnar
ámoksturstækjunum.
New Holland T5.140 Dynamic Command er ný dráttarvél frá þessum vinsæla framleiðanda. Hún býður upp á 140 hestöfl og 630 Nm tog. Þar sem Dynamic
Command gírkassinn er afar sparneytinn er hægt að hafa allt aflið aðgengilegt án sérstaks aflauka. Myndir / ÁL
Ástvaldur Lárusson
astvaldur@bondi.is
Gott útsýni til allra átta. Fremst á húsinu er þakgluggi sem tengist framrúðunni
með þunnum samskeytum. Ámoksturstæki í efstu stöðu.
VÉLABÁSINN