Fréttablaðið - 10.03.2023, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 10.03.2023, Blaðsíða 14
Allt er kynningarblað sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana. Í blaðinu er einnig hefðbundið rit- stjórnarefni. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega. Umsjónarmenn efnis: Elín Albertsdóttir, elin@frettabladid.is, s. 550 5761 | Guðmundur Hilmarsson, gummih@frettabladid.is s. 550 5766 | Sandra Guðrún Guðmundsdóttir, sandragudrun@frettabladid.is, s. 550 5762 | Starri Freyr Jónsson starri@frettabladid.is, s. 550 5767 | Þórdís Lilja Gunnarsdóttir, thordisg@frettabladid.is, s. 550 5768 Útgefandi: Torg ehf Ábyrgðarmaður: Jón Þórisson Sölumenn: Arnar Magnússon, arnarm@frettabladid.is, s. 550 5652, Jón Ívar Vilhelmsson, jonivar@frettabladid.is, s. 550 5654, Ruth Bergsdóttir, ruth@frettabladid.is, s. 694 4103. sandragudrun@frettabladid.is Skólinn, sem heitir Little Bees, er í Madoya-hverfinu sem er hluti af Mathare, öðru stærsta fátækra- hverfi Naíróbí. Þar opnaði níu barna móðirin Lucy Amolo Odipo heimili sitt fyrir börnum sem tekin voru af heimilum sínum vegna ofbeldis eða áttu ekki í nein hús að venda. Börnin fengu að vera hjá henni á meðan fundin voru önnur heimili fyrir þau. Lögregla og yfir- völd komu með börnin til hennar og í hverfinu urðu út frá þessu starfi til íbúasamtök sem voru formlega skráð árið 2001. Sam- tökin kallast Little Bees Children Self Help Project. „Hugmyndin var að byggja saman upp hverfið, hjálpa við- kvæmustu íbúum þess, börnunum, og gera þeim kleift að ganga í skóla. Skólinn var í upphafi í litlum kofa með moldargólfi, nemendur örfáir og kennslan óformleg. Lucy Odipo, sem kölluð er Mama Lucy, rak skól- ann og gerir enn þann dag í dag en nú eru þar nokkrar byggingar, rafmagn, internettenging og fjöl- margir nemendur,“ segir Brynhild- ur Jónsdóttir, ein þeirra sem reka stuðningsfélagið Vini Little Bees. Hún tekur fram að Vinir Little Bees reki ekki skólann, heldur er starfið hjálp til sjálfshjálpar. Vinir Little Bees eru íslenskir stuðningsaðilar sem styðja börn í skólanum með mánaðarlegum greiðslum og gjöfum. Undan- farin ár hafa íslenskir aðilar stutt við bakið á um 130 börnum frá upphafi sem stundað hafa nám við skólann. Forsagan að því er að í upphafi fékk Kjartan Jónsson hjá samtökunum Vinir Kenía og Tansaníu beiðni um að aðstoða skólann þegar hann var á ferð í Kenía. Hafist var handa við að leita að styrktaraðilum og Brynhildur var ein af fyrstu styrktaraðil- unum. Hún tók fljótlega að sér að halda alveg utan um aðstoðina við skólann og kallaði starfið Vini Little Bees. Of fátæk til að ganga í grunnskóla „Börnin í skólanum eru öll úr hverfinu, bláfátæk, búa flest í litlum bárujárnskofum og aðstæð- ur þeirra allra erfiðar. Börnin sem njóta stuðnings Vina Little Bees eru yfirleitt þau sem hafa það allra verst, eiga ekki báða foreldra á lífi eða eiga veika foreldra og oft mörg systkini á heimilinu,“ segir Dóra Kristín Briem sem rekur Vini Little Bees ásamt Brynhildi, en báðar eru þær einnig stuðningsforeldrar. „Á mörgum heimilum í hverf- inu er enginn í fastri vinnu og dagurinn snýst víða um að ná í mat fyrir fjölskylduna með einhverjum ráðum. Það er því ekki mikil regla í lífi barnanna og ekki til peningur fyrir skólabókum, nesti í skólann eða skólabúningum. Þau eru því mörg of fátæk til að ganga í grunn- skóla þó að þeir séu ríkisreknir og skólagjöldin lág.“ Börnin í Little Bees-skólanum eru á aldrinum 4-14 ára en nú er verið að breyta grunnskólakerfinu í Kenía svo að elstu börnin flytjast í aðra skóla. Eftir 14 ára aldur tekur framhaldsskóli við hjá sumum barnanna. Í skólanum læra þau kiswahili, ensku, stærðfræði, samfélagsfræði, vísindi og trúar- bragðafræði. Skólinn og börnin sem þar stunda nám fá litla sem enga aðstoð nema frá Vinum Little Bees. Þau fá einhvern stuðning frá íbúum í hverfinu og foreldrum sem hafa efni á því greiða skólagjöld. „Okkur skilst að um 300 börn séu skráð í skólann en sennilega eru færri börn sem mæta reglulega þangað. Þau fá eitthvað af náms- gögnum í skólanum, bókum og ritföngum og við höfum getað fært þeim tölvur og spjaldtölvur þegar við heimsækjum skólann,“ segir Brynhildur. „Við skólann starfa nokkrir kennarar, þar af þrjár dætur Lycy. Sonur hennar er vörður í skólanum og passar yngstu börnin eftir skóla og þangað til þau eru sótt. Kennar- arnir eru á einhverjum launum en þau eru víst mismikil eftir aðstæðum.“ Morgunverðarklúbbur Ef börnin væru ekki í Little Bees- skólanum, hvar væru þau þá? „Sum barnanna gætu kannski gengið í ríkisreknu grunnskólana en það er betur haldið utan um þau í Little Bees-skólanum og skólagjöld lág og sveigjanleg. Mörg barnanna væru hins vegar ekki í skóla heldur heima að passa systkini eða úti á götu að reyna að ná sér í mat. Stúlkurnar yrðu margar mæður alltof ungar og lítil von hjá þeim um auðveldari framtíð. Í skólanum fá þau bæði menntun og hvatningu til að komast út úr þessum aðstæðum,“ svarar Dóra Kristín en í Kenía eru um 2,5 milljónir barna á aldrinum 4-7 ára ekki skráðar í skóla. Fá börnin einhvern mat í skól- anum? „Áður fékk skólinn eins og aðrir skólar í fátækrahverfum Kenía matargjafir frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, World Food Programme, og gat með þeim gefið öllum nemendunum einfaldan hádegisverð, sem ýtti á foreldra að senda börnin í skólann. Því miður lauk því verkefni fyrir um fjórum árum og til stóð að yfirvöld í Kenía tækju sjálf við þeim matargjöfum. Sú aðstoð kom þó ekki. Mörg barnanna fengu því engan mat frá því þau vöknuðu og til kvölds og voru því of svöng til að læra eða einbeita sér,“ segir Dóra Kristín. „Lucy og skólanefndin báðu okkur um aðstoð og við stofnuð- um fyrir rúmu ári síðan morgun- verðarklúbb. Nokkrir góðir stuðnings aðilar borga reglulega í hann og svo höfum við fengið stærri styrki líka og við sendum mánaðarlega út upphæð sem ætluð er til að kaupa hráefni í graut sem börnin fá í upphafi skóladags. Fyrir 2.500 krónur er hægt að kaupa efni í graut fyrir tíu börn í heilan mánuð. Þó að máltíðin sé ekki sérlega næringarrík eða fjöl- breytt eru kennararnir og skóla- nefndin alsæl með þetta og segja þetta breyta öllu fyrir börnin. Stundum hafa þau getað keypt eitthvað meira og gefið börnum hádegisverð líka. Auðvitað væri gott að geta sent meiri pening fyrir mat í skólann og okkur hefur stundum dottið í hug hvort hægt væri að leita til fyrirtækja til að styðja slíkar matargjafir.“ Sum halda áfram í háskóla Í upphafi var ætlunin að Vinir Little Bees veittu börnunum bara stuðning á grunnskólastiginu, eða til 14 ára aldurs, en Dóra Kristín og Brynhildur segja að þegar kom að því að þau elstu fóru að útskrifast hafi þeim fundist ómögulegt að sleppa af þeim hendinni þar sem þeirra beið í raun ekkert og erfitt var fyrir þau að finna sér vinnu. „Við biðjum því gjarnan stuðn- ingsaðila að hækka framlagið sitt svo við getum sent viðkomandi barn áfram í framhaldsskóla og flestir í hópi okkar dásamlegu stuðningsforeldra hafa tekið því afar vel. Núverandi stefna er því að styðja þau þar til þau ljúka fram- haldsskólanámi. Eftir framhaldsskóla er svo möguleiki á að stuðningsaðilar og börnin tengist beint og hafa að minnsta kosti sjö stuðningsaðilar haldið áfram að styðja sín börn í háskólanám. Fyrsta stuðnings- barnið okkar útskrifaðist einmitt úr viðskiptafræði á síðasta ári og tvær stelpur úr bráðaliðanámi, nokkuð sem hefði aldrei gerst nema með stöðugum stuðningi frá Íslandi. Annað stuðningsbarn útskrifast úr lyfjafræði í haust og tvær stúlkur munu útskrifast úr háskóla á næsta ári, önnur úr hagfræði og hin afbrotafræði. Af fimm fyrstu stuðningsbörnunum sem við tókum að okkur eru fjögur í háskóla. Börnin tala næstum öll um að þegar þau hafa komið undir sig fótunum sé draumur þeirra að hjálpa börnum í viðkvæmri stöðu í fátækrahverfunum.“ segir Dóra glöð. Calvine Sarey heitir stúlkan sem er fyrsta stuðningsbarnið til að ljúka háskólanámi. Hún vinnur nú fyrir Vini Little Bees og sér um greiðslur í framhaldsskólana. Brynhildur hefur starfað fyrir Vini Little Bees frá árinu 2006 og Dóra frá árinu 2013, en þá hafði hún styrkt börn í skólanum í nokkur ár. Þær hafa báðar farið tvisvar sinnum út til Kenía að heimsækja skólann. Lucy Odipo stofnandi skólans hefur líka heim- sótt Ísland en árið 2014 fór hún í sína fyrstu utanlandsferð, alla leið frá Kenía til Íslands. Í fyrra fór svo tuttugu manna hópur frá Íslandi að heimsækja skólann. Brynhildur segir eiginlega ekki hægt að lýsa upplifuninni af að heimsækja skólann og hverfið þar sem hann er. „Í fyrsta lagi að keyra inn í fátækrahverfi, þarna býr fólk við ólýsanlegar aðstæður sem maður getur ekki einu sinni mátað sig inn í. Fátæktin gríðarleg og húsakynn- in kofar með ryðguðu bárujárni og moldargólfum oft á tíðum. Þarna er ekki óhætt að fara einn síns liðs og fylgdi lögreglumaður okkur allan daginn,“ segir hún. „Okkur fannst við engu að síður mjög örugg inni í skólanum. Þar fengum við konunglegar mót- tökur, rosalega góðan mat og hver bekkur f lutti fyrir okkur skemmtiatriði, ýmist ljóðalestur eða dans og söng. Allir tóku svo þátt í tískusýningu. Það sem er huggun harmi gegn, í allri þessari fátækt og erfiðleikum, að börnin eru bara eins og börnin á Íslandi, f lest glöð og bjarteyg og opin. Það var dásamleg reynsla að hitta þau loksins augliti til auglitis, eftir að hafa fylgst með sumum þeirra árum saman í gegnum myndir og skýrslur.“ Ef lesendur hafa áhuga á að styrkja skólann má finna allar upplýsingar um hvernig það er gert á síðunni littlebeesvinir.wor- dpress.com. n Skólinn er í einu fátækasta hverfi Naíróbí. MYNDIR/AÐSENDAR Gleðin skein af andlitunum þegar íslenskir stuðnings- foreldrar, þar með taldar Brynhildur og Dóra Kristín, hittu börnin í skólanum. Lucy óskar nemendunum í Little Bees-skólanum góðs gengis. Börnin inni í skólastofu með ís- lenska og keníska fánann. Calvine Sarey er fyrsta stuðnings- barnið til að útskrifast úr háskóla. Hér eru sömu börn og á efstu myndinni fimmtán árum fyrr. Fyrir aftan þau standa Kjartan Jónsson og Ragnar Sverrisson. Fyrstu Little Bees-börnin sem fengu íslenska stuðningsforeldra. Þau Calvine, Sylwance, Nicole og Marion hafa öll farið í háskóla og Calvine er útskrifuð. Hér stendur Kjartan Jónsson stuðningsmaður stoltur fyrir aftan þau. 2 kynningarblað A L LT 10. mars 2023 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.