Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Side 9
höskuldur þráinsson
Þrjú kyn
1. Inngangur
Í íslenskum málfræðibókum kemur hugtakið kyn yfirleitt við sögu á
tvennan hátt.1 Annars vegar er bent á að kyn íslenskra nafnorða sé fast,
þ.e. að þau hafi kyn, og hins vegar er talað um að lýsingarorð, flest for-
nöfn og töluorðin einn, tveir, þrír og fjórir (og samsetningar með þeim)
kynbeygist.2 Þá er yfirleitt gengið út frá því að í íslensku máli séu þrjú
kyn, karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn.3 Til að sýna þetta eru svo tekin
dæmi eins og þessi:
(1) a. nafnorð: diskur (kk.), skeið (kvk.), borð (hk.)
b. lýsingarorð: gulur (kk.), gul (kvk.), gult (hk.)
c. fornafn: minn (kk.), mín (kvk.), mitt (hk.)
d. töluorð: tveir (kk.), tvær (kvk.), tvö (hk.)
Síðan er kannski sagt að kynbeyging þeirra orða sem taka henni ráðist í
hverju tilviki af samhenginu — kynbeygjanlegu orðin verði að vera í sama
kyni og orðin sem þau „standa með“, „eiga við“, „standa fyrir“ eða „vísa
til“. Þetta er þá sýnt með dæmum á borð við þessi:
Íslenskt mál 44 (2022), 9–51. © 2022 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Ég þakka tveim ónafngreindum yfirlesurum og ritstjóra Íslensks máls fyrir margar
góðar ábendingar við fyrri gerð þessarar greinar. Ýmsir aðrir hafa lesið frumdrög þessarar
greinar eða hliðstæð skrif eftir mig og gefið góðar ábendingar sem hafa nýst mér vel, svo
sem Anton Karl Ingason, Eiríkur Rögnvaldsson, Finnur Ágúst Ingimundarson, Guðrún
Þórhallsdóttir, Halldór Ármann Sigurðsson, Helgi Bernódusson, Katrín Axelsdóttir,
Sigríður Magnúsdóttir og fleiri. Þeim er hér með þakkað fyrir ábendingarnar en þau bera
auðvitað enga ábyrgð á því hvernig ég fór með þær.
2 Hér mætti telja fleiri flokka kynbeygjanlegra orða, svo sem ákveðna greininn, lýs -
ingar hátt þátíðar og e.t.v. fleira, eftir því hvers konar orðflokkaskiptingu er gert ráð fyrir,
en það skiptir ekki máli hér.
3 Kynin eru jafnan talin í þessari röð og þeim raðað samkvæmt henni í beygingar -
lýsingum. Það er að sumu leyti hentugt. Til dæmis er karlkyn þeirra orða sem kynbeygjast
jafnan uppflettimyndin í orðabókum og í ýmsum fornöfnum er nf.et. eins í karlkyni og
kvenkyni en hvorugkynið er þá sér á báti (sbr. hvor kk. eða kvk., hvort hk.).