Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 16
(11)a. Einhverjir urðu ástfangnir af stúlkunum úr Kvennaskólanum.
b. Einhverjar urðu óléttar í sjötta bekk.
c. Eitthvað olli reiði skólastjórans.
d. Allir vita að jörðin er hnöttótt.
Ef átt er við karla er eðlilegt að nota karlkyn af fornafninu eins og í a-
dæminu, en sé átt við konur er notað kvenkyn eins og í b-dæminu. Í c-
dæminu eru persónur ekki lengur sérstaklega á dagskrá heldur ‘hvað sem
er’ og þá er notað hvorugkynsformið eitthvað.10 Um d-dæmið segir Krist -
ján að í því felist engin staðhæfing um það að aðeins karlmenn viti að
jörðin er hnöttótt þótt þar sé notuð karlkynsmyndin allir.
Kannski hefur Kristján (1980) verið fyrstur íslenskra málfræðinga til
að benda á hina almennu eða kynhlutlausu merkingu málfræðilegs karl-
kyns í dæmum eins og (10) og (11d). Mörg dæmi svipuð (11d) má hins
vegar finna í öðrum íslenskum málfræðibókum. Hér eru nokkur þeirra:11
(12)a. Enginn má yfirgefa húsið. (Eiríkur Rögnvaldsson 2013:149)
b. Allir tapa á verðbólgunni. (sama stað)12
c. Enginn/Engin/*Ekkert má fara illa með dýr.
(Guðrún Kvaran 2005:202)
d. Fatlaðir njóta ekki alltaf fullra réttinda.
(Höskuldur Þráinsson 2005:53)
e. Í þessu húsi eru þjónustuíbúðir fyrir aldraða. (sama stað)
f. Hvað ungur nemur gamall temur. (sama stað)
g. Sá sem tók lyklana mína er beðinn að skila þeim strax.
(sama riti, bls. 83)
h. Staðan hjá hvítum er betri en hjá svörtum. (sama riti, bls. 53)
i. einn, tveir, þrír, fjórir, fimm … (sama riti, bls. 104)
Höskuldur Þráinsson16
10 Í málfræðibókum stendur yfirleitt að hvorugkynsmyndin eitthvað sé notuð þegar
fornafnið er sérstætt en eitthvert þegar það er hliðstætt, t.d. eitthvert vandamál. Þótt ýmsir
geti notað eitthvað sem hliðstætt fornafn (sbr. eitthvað vandamál) kemur yfirleitt ekki til
greina að nota eitthvert sem sérstætt fornafn (sbr. *Eitthvert olli reiði skólastjórans).
11 Hér eru aðeins tekin dæmi úr málfræðibókum. Eins og áður er vikið að og nánar
kemur fram síðar í greininni hafa dæmi af þessu tagi líka verið rædd í ýmsum tímarits-
greinum og fyrirlestrum, einkum í skrifum Guðrúnar Þórhallsdóttur (sjá heimildaskrá).
12 Yfirlesari benti á að í endurskoðaðri útgáfu þessa rits gerir Eiríkur eftirfarandi
athugasemd við þessi dæmi (2017:149, leturbr. mín): „Á seinustu árum hefur þó komið
fram sterk krafa frá mörgum um að reyna að breyta þessu og nota hvorugkyn í staðinn –
segja Engin mega yfirgefa húsið (hér er eintalan ekkert ónothæf og nota verður fleirtölu í
staðinn) og Öll tapa á verðbólgunni.“ Við komum aðeins að þessari kröfu í eftirmála.