Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 17
Skýringar málfræðinganna á þessari notkun karlkynsins eru mjög líkar.
Þannig bendir Eiríkur Rögnvaldsson (2013:149) á að karlkynið sé notað á
þennan hátt „í ýmsum almennum staðhæfingum eða fyrirskipunum“.
Guðrún Kvaran (2005:202) hefur svipað orðalag og bendir á að karlkynið
í dæmum eins og (12c) „nær til allra“, kvenkynið aðeins til kvenna og
hvorugkynið „er óhugsandi“ þar. Ég lýsti notkun karlkynsins í (12d,e) á
samsvarandi hátt í setningafræðihandbókinni (Höskuldur Þráinsson 2005:
53), en dæmi (12f) er málsháttur og þar er karlkynið jafnan notað í kyn-
hlutlausri merkingu. Um dæmi (12g) sagði ég að þar kæmi aðeins til greina
að nota karlkyn ábendingarfornafnsins sá ef ekkert er vitað um kyn söku-
dólgsins vegna þess að karlkynið er „hlutlaust eða sjálfgefið (e. default)“
(Höskuldur 2005:83), ólíkt kvenkyninu. Kvenkynið sú myndi þess vegna
fela í sér að verið væri að ásaka konu um verknaðinn og hvorugkynið það
kemur augljóslega ekki til greina. Dæmi (12h) er úr skákmáli og þar er
notað karlkyn í þessu samhengi og kvenkyn væri ótækt þótt konur væru
að tefla. Loks átti dæmi (12i) að sýna hvaða form við notum af töluorðun-
um þegar við teljum og erum ekki að telja neitt sérstakt, t.d. þegar talið er
upp í tíu í leikjum. Þar notum við karlkynið og hlutleysi þess tengist
kannski því að það er líka uppflettimynd kynbeygjanlegra orða í orðabók-
um.13
Flest dæmin sem hér hafa verið tekin um almennt eða kynhlutlaust
hlutverk málfræðilegs karlkyns eiga við fólk (sjá þó dæmi (12h,i)). Í slíku
samhengi gengur hvorugkyn eintölu ekki (sbr. (12c)). Það er aftur á móti
notað þegar átt er við ‘hvað sem er’ eins og Kristján Árnason benti á í tengsl -
um við dæmi (11c). Þessi munur karlkynsins og hvorugkynsins kemur
skýrt fram í eftirfarandi dæmi:
(13) Sástu einhvern/eitthvað?
Án samhengis væri karlkynið hér túlkað sem ‘einhverja persónu’ án tillits
til kyns. Hvorugkynið hefur hins vegar merkinguna ‘eitthvað yfirleitt’.
Hvorugkyn eintölu kemur líka fram á sagnfyllingum þegar frumlagið
er setning eða er í aukafalli. Eiríkur Rögnvaldsson (2013:148) bendir á
þetta og sýnir með dæmum sem mætti setja upp á þennan hátt:
Þrjú kyn 17
13 Hér er vert að leggja áherslu á að sjálfgefna málfræðilega kynið kemur bara fram
þegar talið er „án samhengis“, eins og bent er á í textanum. Um leið og við hugsum okkur
að við séum að telja eitthvað sérstakt, t.d. bolta (kk.), dósir (kvk.) eða spil (hk.), stjórnar
kyn þess sem talið er kyninu á töluorðunum, jafnvel þótt við nefnum ekki viðkomandi
nafn orð.