Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 21
(19)a. Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er
hann tekur við störfum. (10. gr. núgildandi stjórnarskrár)
b. Forseti Íslands undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann
tekur við störfum. (samsvarandi grein í tillögum Stjórnlagaráðs að
nýrri stjórnarskrá, sjá t.d. <http://www.thjodaratkvaedi.is/2012/
stjornarskrain_og_tillogur/iv_kafli_forseti_islands.html>)
Hér sýnir karlkynið hann samræmi við hið málfræðilega kyn nafnorðsins
forseti. Vegna þess að hér er ekki verið að ræða um neinn tiltekinn forseta
kemur vísandi kyn ekki til greina. Ef hins vegar væri verið að ræða um
einhvern ákveðinn forseta væri hægt að nota vísandi kyn sem gæti þá
verið annað en samræmiskynið. Þetta má sjá í eftirfarandi dæmum (sjá
líka umræðu í kringum dæmin í (4), (5) og (6) hér framar):
(20)a. eftir að núv. forseti Íslands lýsti því yfir að hún mundi ekki gefa
kost á sér til endurkjörs (Svavar Gestsson í þingræðu 11. desember
1995; fundið í Risamálheildinni)
b. Forsetinn undirstrikaði í ávarpinu að hún væri forseti allra lands-
manna (RÚV.is 22. júní 2013, sjá
<https://www.ruv.is/frett/lofar-bot-og-betrun-i-brasiliu>)
Í fyrra dæminu er verið að ræða um Vigdísi Finnbogadóttur, sem þá var
forseti Íslands, en í því síðara um Dilmu Rousseff, sem á þeim tíma var
forseti Brasilíu. Í báðum tilvikum er því verið að vísa til tiltekinna kvenna
og þá er alveg eðlilegt að nota vísandi kyn, sem hér er annað en samræmis -
kynið. Sá munur á samræmiskyni og vísandi kyni sem hér er skýrður
kemur líka fram í eftirfarandi dæmum frá Höskuldi Þráinssyni (2021b):
(21)a. Forsætisráðherra stýrir fundum ríkisstjórnar, enda er hann sá
ráðherra sem …
b. Forsætisráðherra kom á fundinn, enda hefur hún mikinn áhuga á …
Ef um er að ræða almenna staðhæfingu um hlutverk forsætisráðherra og
ekki verið að vísa í neina tiltekna persónu er ekki um annað að ræða en
nota samræmiskyn, þ.e. láta fornafnið samræmast nafnorðinu forsæt-
isráðherra í kyni. Það er eðlilegt að skilja a-dæmið þannig. En ef verið er
að ræða um tiltekinn forsætisráðherra er hægt að nota vísandi kyn líkt og
gert er í b-dæminu. Þar er augljóslega ekki samræmi í kyni milli kven-
kynsfornafnsins hún og karlkynsnafnorðsins forsætisráðherra.17 Sams konar
Þrjú kyn 21
17 Hér er líka vert að benda á þann mun í notkun tíða sem kemur fram í þessum