Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Blaðsíða 61
þ.e. eintölu og fleirtölu, en á gildum beygingarþáttarins falls, þ.e.
nefnifalli, þolfalli, þágufalli og eignarfalli. Með öðrum orðum
er meiri merkingarmunur á myndunum fær. nf.et. fuglur og nf./þf.ft.
fuglar en á myndunum fær. nf.et. fuglur og þf.et. fugl.
Í sögulegu samhengi má nefna beygingarþróun fe. fōt til glöggvunar,
sbr. síðfornensku andstæðuna et. fōt- ‘fótur’ : ft. fēt-, en í snemmforn-
ensku komu hins vegar báðar stofnmyndirnar fyrir í eintölu og fleirtölu.
Síðfornensku útkomuna telur Lahiri (2000:7) sýna að munurinn á eintölu
og fleirtölu skipti meira máli fyrir merkingu en munur á falli innan sömu
tölu, til samræmis við fimmta „lögmál“ Kuryłowicz (1945–1949).11
Samband forms og merkingar felst því í tilhneigingu til að eigna tilteknu
formi ákveðna merkingu, þ.e. fe. fōt- = eintala, en fe. fēt- = fleirtala (sjá
Katrínu Axelsdóttur 2014:145 o. áfr.).
4. Merking orðanna vøllur og fjørður
4.1 Merking orðsins vøllur
Føroysk orðabók (1998) gefur eftirfarandi þrjár skilgreiningar á orðinu vøllur.
(4) a. Grasgrógvin slætti, vallað fløta;
b. (bjarg.) vallrók, torva;
c. (ítr.) leikvøllur, ítróttavøllur.
Orðið vøllur vísar þá í a.m.k. þrennt: grasi gróinn flöt í (4a); grasi gróna
syllu í bjargi í (4b); leik- og/eða íþróttavöll eins og í (4c). En auk þessara
merkinga er vøllur einnig notað sem stytting á fær. flogvøllur ‘flugvöllur’,
oftast með vísun til flugvallarins í Vogum, sem er eini flugvöllur landsins.
Leit að orðinu vøllur sem örnefni á vefnum Føroyakort skilar aðeins
einni niðurstöðu, þ.e. Harðavøllur.12 Einnig er örnefnið Tinghúsvøllur til,
en vefurinn skilaði engu dæmi um þetta orð. Leit í færeyska textasafninu
Teldutøka tekstasavn Føroyamálsdeildarinnar (TTF) skilaði einni niður -
stöðu fyrir leitarorðið Harðavøllur en engri fyrir Tinghúsvøllur.13 Áhuga -
Um áhrif tíðni á stefnu útjöfnunar 61
11 Hér má einnig nefna að Eiríkur Rögnvaldsson (2013:143) gerir greinarmun á form-
deildum eftir eðli þeirra og telur tölu vera grunnþátt í nafnorðum en fall aðlögunarþátt.
12 Á vefnum <https://kort.foroyakort.fo/kort/> er hægt að sjá staðsetningu á Færeyja -
korti með því að fletta upp staðarheitinu í leitarreitnum. Einnig gefur leitin upp öll staðar-
heiti með viðkomandi leitarorði.
13 Textasafnið er að finna hér: <http://www.teldni.fo/tekstasavn/index>. Við leit á
vefnum er gefin upp staktíðni viðkomandi orðmyndar samkvæmt notkun hennar í ýmsum
miðlum, þ.á m. vefsíðum og bókum.