Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 87
halldór ármann sigurðsson
Af núllfrumlögum í íslensku
1. Inngangur
Í þessari grein segi ég frá vísandi núllfrumlögum í íslensku, aðallega
könn un sem ég hef gert á tíðni þeirra í nútímaritmáli en einnig tveim
litlum málhafakönnunum.1 Í ljós kom að það er talsvert slangur af slíkum
núllfrumlögum í ritmálinu, þótt þau séu afar fátíð í heildina. Það sem
helst vekur athygli mína í ritmálsniðurstöðunum er að yfirgnæfandi meiri -
hluti (86%) dæmanna sem ég fann var í 1.p.flt. Allir málfræðingar sem
hafa tjáð sig um núllfrumlög í íslensku, þar á meðal ég, hafa hingað til
talið að vísandi núllfrumlög séu hæpin eða jafnvel ótæk í nútímamálinu,
andstætt ópersónulegum núllfrumlögum. Það kom mér því verulega á
óvart að í annarri málhafakönnuninni sem ég gerði, netkönnun, reyndust
margir þátttakenda, allt að tæplega 40%, telja þær núllfrumlagssetningar
sem ég setti fyrir þá vera eðlilegar setningar. Það eru tíðindi.
Í þessum inngangi eru núllfrumlög kynnt til sögunnar og síðan er rætt
um núllfrumlög í eldra máli í lauslegum samanburði við núllfrumlög í
nútímamálinu og elfdælsku í Svíþjóð. Í 2. kafla eru eiginleg vísandi núll-
frumlög aðgreind frá öðrum tegundum ósagðra frumlaga. Í 3. þætti greini
ég frá athugun minni á eiginlegum núllfrumlögum í Risamálheildinni (og
að litlu leyti á Tímarit.is). Í 4. kafla velti ég upp þeim möguleika að núll-
frumlögin stafi e.t.v. af „skynvillu“, sem sé að málnotendur „sjái“ frumlög-
in fyrir hugskotssjónum þótt þau vanti. Í 5. þætti greini ég frá niður -
stöðunum úr þeim tveim málhafakönnunum sem ég gerði; önnur þeirra
bendir til að „skynvillukenningin“ eigi ekki við rök að styðjast. Í 6. kafla
geri ég greinarmun á hugtökunum (ó)málfræðilegt og (ó)tækt og bendi á að
ómálfræðilegar setningar geti verið sumum málhöfum tækar og jafnframt
að málfræðilega rétt byggðar setningar geti verið ótækar. Í 7. kafla er
örstutt niðurlag þar sem ég held því fram að þótt vísandi núllfrumlög séu
afar sjaldgæf í nútímaíslensku sé ekki unnt að fullyrða að þau séu í raun-
inni ómálfræðileg.
Íslenskt mál 44 (2022), 87–112. © 2022 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Ég þakka tveim ritrýnum, Einari Frey Sigurðssyni ritstjóra og Jóhönnu Barðdal fyrir
góðar ábendingar.