Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 88
Ópersónuleg núllfrumlög, þ.e.a.s. ósögð frumlög sem ekki vísa til
ákveð inna nafnliða, eru firnaalgeng í íslensku og af margvíslegu tagi. Í (1)
eru sýnd nokkur dæmi um þetta, þar sem eyðan táknar núllfrumlagið.
(1) a. Líklega rignir __ á morgun.
b. Ég reiknaði með að __ yrði kosið aftur.
c. Fer __ að hvessa í kvöld?
d. Hér verður __ að laga til.
e. Hún segir að __ megi ekki dansa hér.
f. Þarf __ ekki að kaupa mjólk?
Í sumum dæmum af þessu tagi má fylla frumlagseyðuna með leppnum
það, t.d. í (1b) og (1e), í sumum öðrum er unnt að fylla eyðuna með óper-
sónulega fornafninu maður, t.d. í (1d) og (1f), og í enn öðrum má ýmist
setja inn það eða maður í stað eyðunnar, t.d. í (1e). Oft fer betur á því en
ekki að skjóta leppnum inn þar sem það er unnt, t.d. í (1b), en leppurinn
hefur þó lítil áhrif á merkingu setningarinnar. Fornafnið maður hefur
skýrari merkingaráhrif og það er vegna þess að það vísar ekki aðeins til
ótiltekins fólks almennt (eins og samsvarandi núllfrumlög gera yfirleitt)
heldur líka til talandans, eins og Þórhallur Eyþórsson bendir á (2008:89–
90) og nánar er fjallað um hjá Halldóri Ármanni Sigurðssyni og Verner
Egerland (2009); sjá enn fremur t.d. Jóhannes Gísla Jónsson (1992). Um
ópersónuleg núllfrumlög í íslensku verður ekki frekar fjallað hér, enda
hafa málfræðingar þegar rætt ítarlega um þau (sjá t.d. Höskuld Þráinsson
1979, Halldór Ármann Sigurðsson 1989:161–167 og grein Halldórs og
Egerlands).
Það morar sem sagt af ópersónulegum núllfrumlögum í íslensku. Svo -
kölluð eiginleg núllfrumlög eru annars eðlis. Þau eru vísandi, vísa til ákveð -
innar persónu eða a.m.k. nafnliðar (sjá m.a. Rizzi 1982, Cole 2009,
Bi berauer o.fl. 2010), og koma fyrir hvort heldur er í aðalsetningum eða
aukasetningum. Slík núllfrumlög virðast vera mun útbreiddari í tungu-
málum heimsins en skyldubundin sögð frumlög (sjá Dryer 2013). Dæmin
í (2) eru ítölsk.
(2) a. __ Ho detto che __ sarei venuto.
(ég) hef.1.ET sagt að (ég) yrði.1.ET kominn
ʻÉg sagði að ég yrði kominn.’
b. __ Abbiamo detto che __ saremmo venuti.
(við) höfum.1.FLT sagt að (við) yrðum.1.FLT komnir
ʻVið sögðum að við yrðum komnir.’
Halldór Ármann Sigurðsson88