Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Síða 90
Þetta er sérlegt, að ekki sé sagt einkennilegt. Yfirleitt er talið að vís-
andi frumlög séu gjarnan ósögð eða „þögul“ í tungumálum eins og ítölsku,
sem hafa ríkulega sagnbeygingu, af því að persóna og tala frumlagsins
komi fram í persónubeygðum sögnum og vísi því þar með á túlkun hins
ósagða frumlags.2 Ítalska hefur vissulega ríkulegri sagnbeygingu en ís lenska
en þó ekki svo mjög. Sögnin essere hefur t.d. sex ólík form í framsögu-
hætti nútíðar í ítölsku en samsvarandi sögn í íslensku, vera, hefur fimm
ólík form. Þetta virðist vera bitamunur en ekki fjár. Og það er reyndar
ekki svo í sagnbeygingarmálum að vísandi núllfrumlög sé aðeins að finna
í þeim þessara mála sem hafa nánast „fullkomna“ sagnbeygingu, eins og
ítalska. Elfdælska, sem töluð er í Dölunum í Svíþjóð, hefur t.d. engar per-
sónuendingar í eintölu sagna en þrjár skýrt aðgreindar endingar í fleir-
tölu: -um í 1. persónu, -ið í 2. persónu og -a í 3. persónu, rétt eins og nánast
allar sagnir í íslensku (sjá Rosenkvist 2006). 3.p.flt er samkvæð nafnhætt-
inum, eins og langoftast í íslensku, svo að -a-ið þar er kannski ekki eiginleg
persónu- og töluending (sjá umræðu hjá Koeneman og Zeijlstra 2019).
Elfdælska leyfir vísandi frumlög einmitt eingöngu í 1. og 2.p.flt, þ.e.a.s. í
setningum með sögn sem hefur ótvíræða persónu- og töluendingu.
Elfdælsku dæmin í (5) eru hér tekin eftir Rosenkvist (2006:148).
(5) a. … um __ irum iema.
… ef (við) erum.1.flt heima
b. … um __ irið iema.
… ef (þið) eruð.2.flt heima
Það vekur því nokkra furðu að sambærileg dæmi eru venjulega talin vera
útilokuð í íslensku; Halldór Ármann Sigurðsson (2011:277) gefur þeim
eftirfarandi dóma:
(6) a. * … ef __ erum heima.
b. * … ef __ eruð heima.
Halldór Ármann Sigurðsson90
2 Það eru reyndar til annars konar núllfrumlagsmál en þau sem leyfa núllfrumlög á
grundvelli sagnbeygingar, þ.e. mál sem hlíta öðrum skilyrðum fyrir núllfrumlögum en
sagnbeygingunni eða sagnbeygingunni einni saman. Þar á meðal eru ýmis mál, t.d. kín-
verska og japanska, sem ekki hafa neina sagnbeygingu en leyfa svokölluð umræðunúllfrum-
lög (e. discourse pro drop). Enn fremur eru til „hlutanúllfrumlagsmál“ (e. partial null subject
languages) eins og t.d. finnska, sem hafa sagnbeygingu sem nægir þó ekki ein og sér til að
„helga“ (e. license) núllfrumlög. Um þetta hafa fjölmargir málfræðingar ritað og rætt, þ. á
m. Anders Holmberg (sjá t.d. kafla hans í Biberauer o.fl. 2010). Um þessi annars konar
núllfrumlagsmál verður ekki frekar rætt hér.