Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 102
því og snúa því við upp garðstíginn til að finna annan og réttan stíg. En
hér er um að ræða eðlilega mistúlkun fremur en skynvillu. Í röngum skiln -
ingi eru garðstígasetningar ómálfræðilegar en í réttum skilningi eru þær
málfræðilegar, þ.e. í samræmi við reglur „innra máls“ fólks (e. internal
language eða I-language, sjá Chomsky 1986), þ.e. þær málfræðireglur sem
eiga stærstan þátt í að stýra málnotkuninni („ytra málinu“).
Til þess að komast einhverju nær um það hvort „skynvillukenningin“
eigi hugsanlega við rök að styðjast ákvað ég að gera tvær litlar málhafa -
kannanir, aðra í tölvupósti og hina á netinu. Tölvupóstkönnunin sker
ekki úr um þetta en netkönnunin bendir sterklega til að skynvillukenn-
ingin standist ekki. Ég segi frá þessum könnunum í næsta þætti.
5. Tvær málhafakannanir
Eiginleg núllfrumlög eru ekki hluti af mínu eigin málfari, ég nota þau
mér vitanlega aldrei. Það vakti þó athygli mína að núllfrumlagssetning-
arnar sem ég rakst á stinga mig ekki sem augljóslega ómálfræðilegar, a.m.k.
ekki þær þeirra sem eru í 1.p.flt. En þær eru engu að síður afar sjaldgæfar
þegar á heildina er litið. Þegar hér var komið sögu í athugunum mínum
var ég því farinn að efast um að unnt væri að finna einhverja Íslendinga
sem finnast núllfrumlagssetningarnar eðlilegar. Til þess að átta mig betur
á þessu leitaði ég til níu málfræðinga og bað þá um að leggja dóm á eftir-
farandi setningar:
(18) a. María hitti Jón í gær.
b. Okkur sem til þekktum var ljóst að varst mjög næm kona, …
c. Frá þrír góðu þessir mínir allir Lundi vinir heimstóttu mig í gær.10
d. ([Lögin] sýna að menningarlegan metnað skorti ekki hjá heima-
stjórnarmönnum og verðandi háskólarektor,) þrátt fyrir að værum
þá ein fátækasta þjóð í Evrópu.
e. Jón Þuríði sagði María Ólaf elskaði að.
f. (Jæja, ... ætlunin er að segja ykkur eitthvað frá dvölinni í Brasilíu.)
Venjulegur dagur byrjaði á því að vorum vakin kl. 6.30 og …
Mælikvarðinn sem ég bað þessa bréfavini mína að nota hafði fimm gildi:
1 útilokuð, óskiljanleg, 2 slæm, 3 hæpin en skiljanleg, 4 þokkaleg en kannski ekki
alveg fullkomin, 5 fullkomin. Niðurstöðurnar eru sýndar í töflu 4.
Halldór Ármann Sigurðsson102
10 Heimstóttu í stað heimsóttu var reyndar innsláttarvilla, en ég held ekki að það hafi
haft nein aukaáhrif á niðurstöðurnar.