Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Side 106
Það er því ekki unnt að kanna fylgni við aldur með neinni nákvæmni, en
ég nefni hér þó að af þessum 23 „ungu“ málhöfum settu sjö „já“ við f-setn-
inguna (30,4%), níu settu spurningarmerki við hana og sjö settu „nei“.
Þátttakendur sem náð höfðu sjötugsaldri voru 48 talsins. Af þeim töldu
17 f-setninguna vera eðlilega (35,4%), 13 settu spurningarmerki við hana en
18 sögðu „nei“. Þessi litla stikkprufa sýnir því að a.m.k. þessi setning hlýtur
samþykki yfir 30% í öllum aldurshópum (undir þrítugu, 30–69 ára, 70 ára
og eldri). Þótt útbreiðsla vísandi núllfrumlaga hafi farið vaxandi á síðustu
áratugum í ritmálinu verður þess ekki vart í þessari málhafakönnun að
yngra fólk sé líklegra en þeir eldri til að samþykkja núllfrumlögin.
Spurningin sem á mér brann þegar ég lagði upp með þessa könnun var
þessi: Samþykkja alls engir málhafar einhverjar setningar með vísandi
núllfrumlögum? Hefði sú verið raunin hefði það rennt allstyrkum stoðum
undir skynvillukenninguna sem rædd var í þætti 4. Svo er greinilega ekki.
Skynvillukenningin virðist ekki eiga við rök að styðjast, það er „að marka“
núllfrumlagssetningarnar.
Það má finna ýmislegt að þessari litlu könnun. Það hefði verið skemmti -
legt að vera með fleiri setningar, en þar sem spurningin sem á mér brann
var svo einföld taldi ég setningarnar níu vera nægilega margar til þess að
svar fengist við henni og sú var líka raunin. En vissulega væri forvitnilegt
að kanna undirtektir við núllfrumlögum í 1.p.et., 2.p.flt. og 3. persónu. Í
könnuninni var aðeins c-setningin með núllfrumlagi í 2.p.et. og hún fékk
talsvert lakari dóma en setningarnar fjórar í 1.p.flt., jafnvel þótt sagnend-
ingin -st í varst sé tvímælalaus. Það bendir til þess að það sé engin tilviljun
að langflest núllfrumlögin sem ég fann í ritmálinu eru í 1.p.flt.
Halldór Ármann Sigurðsson106
Já ? Nei
a. Hver heldurðu að geti gert þetta fyrir þig? 91,1 7,3 1,7
b. … þrátt fyrir að værum þá ein fátækasta þjóð í Evrópu. 24,8 38,0 37,3
c. Við vissum að varst óvenjulega næm kona. 9,6 13,5 76,9
d. Pétur held ég að sé besti leikmaðurinn okkar. 54,8 34,3 10,9
e. Hún sagði að við þyrftum að fara strax. 97,7 2,3 0,0
f. … Venjulegur dagur byrjaði á því að vorum vakin … 39,1 32,1 28,8
g. Jón Þuríði sagði að María Ólaf elskaði. 5,3 17,5 77,2
h. Hún sagði að værum svo líkir að hlytum að vera skyldir. 32,0 17,0 51,0
i. Við vissum að höfðum aðeins gert rétt. 13,5 21,1 65,3
Tafla 5: Dómar 304 málhafa um setningarnar í (19). Allar tölur eru hlutfallstölur.