Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 113
þóra másdóttir, gyða elín bergs,
anna lísa benediktsdóttir og
sigríður sigurjónsdóttir
Hljóðferli barna með frávik í framburði
1. Inngangur
Á örfáum árum tileinka börn sér öll málhljóð móðurmálsins og við fimm
eða sex ára aldur hafa þau yfirleitt náð fullu valdi á framburði þeirra, óháð
því hvert móðurmál þeirra er (McLeod og Crowe 2018; Þóra Másdóttir
2019).1 Á fyrstu stigum máltökunnar er algengt að börn skipti hljóðum út
fyrir önnur sem þau eiga auðveldara með að mynda eða felli brott hljóð úr
orði (Vihman 1996; Þóra Másdóttir 2008). Stampe (1979) taldi að á mál-
tökuskeiði tæki framburður barna mið af því hversu auðvelt væri að
mynda hljóðin. Hann áleit að hljóðkerfi þeirra byggðist í raun á samsafni
hljóðferla sem væru börnum meðfædd. Hljóðferlin væru þannig kerfis-
bundnar breytingar á málhljóðum eða hljóðönum sem áhrif hefðu á til-
tekna flokka hljóða eftir myndunarstað, myndunarhætti, röddun og at -
kvæða gerð þeirra. Segja má að hljóðferli séu í raun lýsing á því sem á sér
stað þegar börn skipta hljóðum út fyrir önnur, víxla þeim eða fella á brott.
Í flestum tilvikum eru ferlin reglubundin og hverfa smám saman úr tali
barna eftir því sem þau þroskast og hljóðkerfi þeirra líkist meira hljóð -
kerfi fullorðinna (Stampe 1979; Þóra Másdóttir 2008). Í rannsókn Önnu
Lísu Benediktsdóttur, Þóru Másdóttur og Gunnars Ólafs Hanssonar (2019–
2020) var hljóðferlanotkun tveggja til átta ára barna með dæmigerða hljóð -
þróun til athugunar. Markmið þeirrar rannsóknar var að stíga fyrstu
skrefin í átt að þróun aldursbundinna viðmiða um notkun hljóð ferla í tali
íslenskumælandi barna, því ekki er hægt að greina frávik í framburði
barna nema fyrir liggi rannsóknir á dæmigerðri hljóð- og hljóðkerfis þróun.
Íslenskt mál 44 (2022), 113–149. © 2022 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Grein þessi byggir á rannsókn sem unnin var sem meistaraverkefni í talmeinafræði
við Háskóla Íslands vorið 2021 (sjá Gyðu Elínu Bergs 2021). Íslenska gagnasafnið sem nýtt
var við rannsóknina má rekja til alþjóðlegs rannsóknarverkefnis á framburðarfrávikum
barna í mörgum löndum sem Þóra Másdóttir tók þátt í fyrir Íslands hönd. Um var að ræða
yfirgripsmikla rannsókn sem Barbara May Bernhardt og Joseph P. Stemberger (við háskól-
ann í British Columbia í Kanada) áttu frumkvæði að og stýrðu á árunum 2009–2013. Þau
fá sérstakar þakkir sem og íslensku börnin sem þátt tóku í rannsókninni.