Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 152
kunn áttufræðin greinir þó á milli málkunnáttu, þ.e. þess málkerfis sem
býr innra með einstaklingnum, og málbeitingar, sem er birtingarmynd
mál kerfisins, og í ljósi þessarar aðgreiningar má ætla að ólík lögmál gildi
um hvort um sig. Því er mikilvægt að efla skilning á því hvað getur breyst
í máli einstaklinga eftir að máltökuskeiði er lokið og hvert eðli slíkra
breytinga er.
Flestar fyrri rannsóknir á lífsleiðarbreytingum hafa heldur takmark -
aða tímaupplausn eins og nánar verður rakið hér á eftir. Með tímaupp-
lausn er átt við fjölda aflestra sem rannsóknin byggir á en tíðkast hefur að
rannsóknir byggi á aðeins tveimur til þremur tímabilum í lífi einstaklings-
ins. Með aflestri er hér átt við að gögn frá stuttu tímabili, t.d. einu viðtali
eða máldæmum frá einu almanaksári, eru notuð til að meta líkindi á notk-
un tilbrigða í máli á þeim tímapunkti. Í þessari grein verða færð rök fyrir
því að há tímaupplausn sé mikilvæg í rannsóknum á lífsleiðarbreytingum
vegna sveiflukennds eðlis slíkra breytinga. Til að sýna fram á þetta verður
greint frá rannsókn á notkun stílfærslu í þingræðum Steingríms J. Sigfús -
sonar í gegnum mestallan stjórnmálaferil hans, frá árinu 1983 til ársins
2019.2 Niðurstöður rannsóknarinnar sýna skýra mynd af breyttri málbeit-
ingu frá ári til árs og þessar breytingar verða settar í samhengi við stjórn-
málaferil Steingríms.
Stílfærsla (e. Stylistic Fronting) er valfrjáls færsla orðs eða setningar -
liðar fremst í setningu með frumlagseyðu, þ.e. setningu með ekkert sýni-
legt frumlag (Maling 1980; Höskuldur Þráinsson 2005:579–582, 2007:
352–357; sjá einnig umfjöllun í kafla 3).
(1) a. Allar ákvarðanir sem ___ voru teknar eru réttlætanlegar.
b. Allar ákvarðanir sem teknar voru ___ eru réttlætanlegar.
Dæmi (1a) sýnir setningu án stílfærslu og í (1b) er samsvarandi setning
sýnd með stílfærslu. Þarna er um að ræða tilvísunarsetningu með frum-
lagseyðu, þ.e. allar ákvarðanir samsvara ósögðu frumlagi í aukasetning-
unni. Eins og nafnið gefur til kynna hefur stílfærsla ákveðinn stílblæ á sér
og því er notkun stílfærslu tengd formlegu málsniði í íslensku. Formlegt
málsnið er m.a. tengt aðstæðum þar sem fólk er sérstaklega meðvitað um
málnotkun sína (Labov 1972) og er þá líklegra til að nota máltilbrigði sem
njóta virðingar en ella. Sökum þessarar tengingar stílfærslu við formlegt
málsnið má telja notkun hennar til eins konar viðleitni málhafa til að gera
Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason152
2 Steingrímur flutti færri ræður í blálok þingferilsins að því marki að erfiðara er að
draga megindlegar ályktanir um rannsóknarefni greinarinnar þá eins og komið verður inn á.