Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Side 198
Í beinu framhaldi af þessu vil ég leggja fram tvær samtengdar spurningar. Þá fyrri
mætti leggja fram svona:
iv) Veitir sú aðferð við gagnaöflun sem hér er beitt einhverja innsýn í
það sem við getum kannski kallað „raunverulegan“ eða í það minnsta
hversdagslegan framburð? Björn Guðfinnsson studdist aðallega við
upplestur á texta, sem ætlað var að fanga ýmis svæðisbundin til-
brigði, og sú aðferð kom einnig við sögu í seinni rannsóknunum
tveimur, ásamt viðtölum og myndalistum. Margrét nefnir vissulega
að kannað hafi verið hvort fólk breytti framburði sínum eftir þessum
aðstæðum, en að öðru leyti vitum við, á grunni þeirra gagna sem
unnið er með, lítið um hvernig framburður litast af mismunandi
aðstæðum og viðmælendum, en vera má að t.d. harðmæli geti verið,
eða hafi getað verið, næmt fyrir málaðstæðum á borð við upplestur,
sbr. að sums staðar í ritgerðinni er m.a. ýjað að sambandi skýrmælis
og stafsetningarframburðar við harðmæli.
Seinni spurning mín í þessu samhengi er svo þessi:
v) Kom aldrei til greina að safna nýjum gögnum, þar sem m.a. væri
bætt við efni sem tekið væri upp við hversdagslegar aðstæður? Hefðu
gögn af þeim toga ekki getað hjálpað til við að meta notagildi eldri
gagna og þann aðstöðubundna mun sem þó mátti greina þar?
Margrét nefnir auk þess nokkrar „gloppur“ sem finna má í gagna-
safninu, t.d. varðandi félagsleg tengslanet. Hefðu upplýsingar um
þau og hugsanleg áhrif þeirra í nútímasamhengi ekki getað nýst til
einhvers konar samanburðar við þau gögn sem Margrét hafði undir
höndum?
3. Niðurstöður
Þá víkur sögunni að niðurstöðum verksins. Í upphafi umfjöllunar Margrétar um
hvert tilbrigðapar í 4. kafla gerir hún grein fyrir útbreiðslu og þróun hvers þeirra
á þeim svæðum þar sem þau er helst að finna. Í fyrstu nær þessi umfjöllun bæði
til kjarnasvæða og jaðarsvæða hvers tilbrigðis um sig en síðan hverfa jaðarsvæðin
þegjandi og hljóðalaust úr umræðunni án frekari skýringa. Það er vel skiljanlegt
að efnisafmörkun hafi kallað á að einkum væri horft til kjarnasvæða en í ljósi þess
að allnokkur gögn virðast hafa verið aðgengileg um jaðarsvæðin líka, sérstaklega
norðlensku tilbrigðanna, vaknar ákveðin spurning:
vi) Hvers vegna voru jaðarsvæði ekki tekin til nánari skoðunar en hér er
gert? Má ekki telja líklegt að greining á þróun mála þar hefði gefið
dýrmætar upplýsingar um þá krafta, bæði málkerfislega og félags-
lega, sem ýmist stuðla að eða halda aftur af þeim málbreytingum sem
Finnur Friðriksson198