Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 210
ari páll kristinsson
Andmæli við doktorsvörn
Margrétar Guðmundsdóttur
1. Inngangur
Forseti Hugvísindasviðs, forseti Íslensku- og menningardeildar, doktorsefni,
ágæta samkoma.
Ég óska Margréti Guðmundsdóttur til hamingju með þessa efnismiklu og
vönduðu doktorsritgerð — mér liggur við að segja ritgerðir, í fleirtölu, slíkt er um -
fang gagnanna sem tekin eru saman og unnið úr, sjónarhornin við mat og túlkun
gagnanna fleiri en eitt og fleiri en tvö, og hinar undirliggjandi stóru rannsóknar-
spurningar um eðli breytileika og málbreytinga eru enginn hégómi. Ég ítreka það
sem kom fram í sameiginlegu áliti okkar Finns Friðrikssonar að Margrét hafi
með ritgerðinni skilað dýrmætu framlagi til íslenskrar málfræði með skipulegri
og vandaðri úrvinnslu frumgagna, og með fræðilegri umræðu, túlkun og mati á
þeim.
Þau atriði sem ég hef einkum áhuga á að taka upp í þessum andmælum eru af
þrennum toga:
(1) Það sem Margrét rekur og útskýrir í ritgerðinni.
(2) Það sem Margrét tæpir lauslega á í ritgerðinni en hefði e.t.v. verið tilefni
til að ræða nánar.
(3) Það sem Margrét nefnir ekki í ritgerðinni en hefði e.t.v. mátt koma fram
ekki síður en ýmislegt annað sem þar er rætt.
2. Um eðli gagnanna og svörin sem þar mætti finna
Gögnin um íslenskan framburð, sem tekin eru saman og greind í ritgerðinni, eru
ekki aðeins afskaplega mikil að umfangi heldur á margan hátt merkileg. Hér hef
ég einkum í huga rauntímagögnin. Slík gögn eru enn í dag visst fágæti; ekki að -
eins í rannsóknum á málbreytingum í íslensku, heldur almennt á fræðasviðinu.
Sýndartímagagna er sem kunnugt er aflað með því að kanna, á sama tíma,
mál far fólks á mismunandi aldri, og ef eitthvert fyrirbæri er marktækt öðruvísi
hjá hinum yngri en hinum eldri er ályktað að málbreyting hafi orðið eða sé yfir-
standandi. Sú ályktun verður þá óhjákvæmilega byggð á þeirri forsendu að eldri
hópurinn hafi verið stöðugur í málnotkun sinni (tali nokkurn veginn eins í dag
og áður fyrr) en sú forsenda getur reynst býsna hæpin af ýmsum ástæðum.