Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 212
okkur málfræðingum mörgum hverjum töm sú hugsun að breytileiki sé í eðli sínu
óstöðugt ástand. Í íslenskri málsöguumfjöllun er t.d. algengt orðalagið málbreyt-
ing gengur yfir (sbr. afkringingu á [y] o.s.frv.) sem felur í sér að um sé að ræða
þróun eða hreyfingu sem endi í einum endapunkti.
Mig langar að bera undir Margréti eftirfarandi spurningar í ljósi þekkingar
hennar á fræðilegum forsendum breytileika og málbreytinga, og áralangra rann-
sókna hennar á íslenskum framburðartilbrigðum:
i) Erum við endilega á leiðinni í einhverja átt? Hefur Margrét komið
auga á eitthvað sem bendir til stöðugleika í þeim skilningi að tvö eða
fleiri tilbrigði sömu framburðarbreytu verði til framtíðar í „farsælu
langtímasambandi“?
4. Hugur, heili, hæfni
Lýsing á formlegri málkunnáttu fólks í blönduðu málumhverfi hlýtur að þurfa að
rúma breytileika og ómeðvitaða kunnáttu um ólík tæk tilbrigði sem sýnilega ráð -
ast af málfræðilegum og orðfræðilegum þáttum. Slíkt tvöfalt eða blandað kerfi er
ákveðin ráðgáta í málkunnáttunni en er augljóslega meðal lykilatriða í breytileika
og í málbreytingum. Um er að ræða áhugavert rannsóknarefni og er tæpt á nýleg-
um hugmyndum um þetta fyrirbæri í ritgerðinni.
Hér er því við að bæta að einnig hafa komið fram hugmyndir um að víkka
málkunnáttuhugtakið og gera ráð fyrir því að okkur sé ekki aðeins áskapað að
innbyrða málkerfi, eftir atvikum með ákveðnum innbyggðum breytileika, heldur
einnig að geta innbyrt frá unga aldri, og a.m.k. fram eftir ævinni, reglur eða venjur
samfélagsins um heppilega notkun tilbrigðanna sem við kunnum. Þeirra hug-
mynda sér ekki beinlínis stað í ritgerðinni. Hér hef ég í huga það sem fyrrum var
oft kallað communicative competence og síðar sociolinguistic competence (t.a.m. hjá
Chambers 2002; sjá sömuleiðis algengar inngangsbækur um félagsmálvísindi,
t.a.m. Meyerhoff 2006:96). Hugmyndir um að hér geti verið á ferð raunverulegur
hluti málkunnáttunnar, hliðstæður málfræðihæfninni, eru engin nýbóla. Þær hafa
verið ræddar og rökstuddar í meira en hálfa öld. Fljótlega eftir að Chomsky gaf
út Aspects tók Dell Hymes að gera atrennur að lýsingu á communicative competence
(sjá Hymes 1972 [1971]) sem hann taldi mega fella að hugmyndinni um með -
fædda málfræðihæfni:
Within the developmental matrix in which knowledge of the sentences of a
language is acquired, children also acquire knowledge of a set of ways in
which sentences are used. […]
[…] an adequate approach to the relation between sentences and situa-
tions must be ‘mentalistic’, entailing a tacit knowledge, and, hence, compe-
tence (in the usage of both Chomsky and this paper).
(Hymes 1972 [1971]:279; 286)
Ari Páll Kristinsson212