Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2022, Page 229
og málfræðistagli sem sé oftar en ekki beint gegn langt gengnum málbreytingum
sem feli í sér litla eða enga ógn við íslenskt málkerfi. Að lokum bendir Eiríkur
svo á að þótt vissulega megi líta á ensku sem ógnvald í ákveðnum skilningi sé ekki
þar með sagt að hún sé sérstakur óvinur íslensku. Þvert á móti sé enska og notkun
hennar orðin óhjákvæmilegur og nauðsynlegur hluti af daglegu lífi flestra Ís -
lendinga en marka þurfi skýrari stefnu um hvar og hvenær sé rétt að nota hana
og hvar tryggja þurfi að íslenska haldi sínum hlut. Eiríkur leggur ekki fram nein
svör í þessum efnum en telur rétt að umræðan fari af stað hið snarasta.
Sem fyrr segir er síðasti partur þessa fyrsta meginhluta, „Kynjamál“, heldur sér-
tækari en hinir fyrri tveir en hér tekur Eiríkur fyrir eitt helsta hitamál málfarslegrar
umræðu síðustu ára, þ.e. kynjamál og kynhlutleysi í máli. Rekur hann hér t.a.m.
ýmis vandkvæði sem fylgja því að karlkyn sé notað sem ómarkað eða hlutlaust kyn
í íslensku, en orðalag eins og „allir ætla að mæta“ sé í augum margra kvenna og kyn-
segin fólks útilokandi og til marks um karllægni í málinu sem standist ekki skoðun
í nútíma samfélagi. Eiríkur ræðir ýmsar leiðir sem reynt hefur verið að fara til að
mæta þessum vanda, svo sem notkun fornafnsins hán, mögulega notkun kynhlut-
lausra starfsheita og aukna notkun menni í stað maður í samsetningum eins og for-
menni og blaðamenni. Afstaða Eiríks í þessum efnum er á heildina litið sú að mál -
samfélagið hljóti að stjórna því með tíð og tíma hvað verður samþykkt og hverju
hafnað, án þess að þar þurfi að koma til einhver miðstýring, en um leið sé þó sjálf-
sagt að sýna því fólki virðingu sem vill láta vísa til sín með fornafninu hán eða hafnar
karlkyninu sem hlutlausu kyni, rétt eins og það fólk þurfi að sýna því virðingu að
flestum Íslendingum er tamt að nota karlkynið í hlutlausu hlutverki. Hér þurfi því
að sýna því einhvers konar gagnkvæma tillitssemi að mismunandi málvenjur geti
verið í gangi samtímis enda þoli málið það vel.
Á heildina litið er umræðan í þessum fyrsta meginhluta bókarinnar skýr og
skorinorð og afstaða Eiríks kemur berlega í ljós um leið og hún er víðast góðum
rökum studd. Hugsanlega má rekja hina skýru framsetningu til hins nokkuð
knappa þáttaforms bókarinnar sem krefur höfundinn um að koma sér hratt og
örugglega að kjarna máls. Um leið má segja að hið knappa form sé á köflum helsti
galli þessara þátta þar sem umræðan hefði hér og þar þolað heldur meiri dýpt.
Eins og getið hefur verið nefnir Eiríkur til að mynda að málbreyting geti talist
óæskileg torveldi hún skilning á milli kynslóða eða ógni málkerfinu en ekki gefst
mikið svigrúm til að ræða nánar hvernig breyting getur torveldað skilning eða
ógnað málkerfinu. Með svipuðum hætti er minnst á nauðsyn góðs lestrarefnis og
skapandi vinnu með málið en síðan er ekki rætt mikið nánar hvað gerir lestrarefni
gott eða hvað á að felast í þeirri skapandi vinnu sem Eiríkur auglýsir eftir. Að
sama skapi má færa rök fyrir því að óskandi hefði verið að Eiríkur hefði gert
atlögu að því að skilgreina hvernig hann sér endurskoðaðan málstaðal fyrir sér eða
hvernig hann telur rétt að afmarka notkun ensku í íslensku málsamfélagi. Hann
kallar eftir umræðu um bæði þessi atriði og þá hefði kannski ekki verið úr vegi að
leggja inn enn beinna framlag til þeirrar umræðu en hér er gert. Um leið er vert
að hafa í huga upphafsorð Eiríks í inngangi um að bókin sé ætluð þeim sem hafa
áhuga á íslensku máli og eigi ekki að krefjast mikillar málfræðikunnáttu. Hætt er
Ritdómar 229