Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.02.2022, Blaðsíða 9

Skinfaxi - 01.02.2022, Blaðsíða 9
 S K I N FA X I 9 Bjarni Ingimarsson: Hvet alla til að prófa! „Ég byrjaði i íþróttastarfinu sem unglingur í Ungmennafélagi Skeiða- manna. Ætli það séu ekki í kringum þrjátíu ár síðan. Ég var í stjórn félagsins og við tókum þátt í íþróttamótum og skemmtunum innan sveitarinnar. Ég hef búið á Selfossi síðan 1999. Tveir af drengjunum mínum þremur hafa verið í íþróttum, fótbolta, handbolta og golfi. Ég tengist þannig inn í íþróttirnar hér á Selfossi. Núna eru strákarnir mínir ekki lengur að taka þátt, en maður er að leggja sín lóð á vogarskálarn- ar til að þetta íþróttastarf gangi upp. Ef allir taka aðeins þátt er þetta ekkert mál. Þetta er alltaf gaman, maður kynnist fólki og þegar veðrið er gott er þetta virkilega skemmtilegt. Mér finnst sjálfboðaliðastarfið alltaf verða erfiðara og erfiðara. Það eru fáir tilbúnir að gefa sig í það og fá ekkert fyrir það í peningalegum gildum. Þetta er samt mjög gef- andi. Það er yfirleitt skemmtilegur félagsskapur í kringum þetta. Ég hvet alla til að prófa þetta ef þeir hafa ekki prófað.“ Ingunn Guðjónsdóttir: Forvörn í starfi sjálfboðaliða „Ég hugsa að það séu yfir þrjátíu ár sem ég hef starfað sem sjálfboða- liði. Ég byrjaði þegar ég var í stjórn sunddeildarinnar á Selfossi. Þá var ég sjálf að æfa sund og prófaði hinar ýmsu íþróttir. Ég hef líka starfað mikið með fimleikadeildinni. Þetta gefur mér mjög mikið. Svo er starfið mjög skemmtilegt og maður kynnist fullt af fólki. Ég hvet alla til að taka þátt í svona starfi og hjálpa okkur í þessu. Sjálfboðaliðastarfið gerir svo mikið, bæði fyrir unga fólkið, sem sér að við mætum á völlinn og styðjum það, og okkur sem sjáum hvað þetta gefur mikið sem for- varnastarf. Þetta er náttúrulega gott fyrir samfélag.“ Mótin væru ekki haldin ef það væru ekki sjálfboðaliðar Nokkrir sjálfboðaliðar voru teknir tali á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi í sumar og spurðir hvenær þeir hefðu byrjað sem sjálfboðaliðar, hvað starfið gæfi þeim og hvers virði það væri fyrir samfélagið. 5. desember ár hvert er dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Sjálfboðaliðastörf hafa verið uppistaðan í öllu starfi UMFÍ í meira en eina öld, frá því að hreyfingin var stofnuð árið 1907. Innan UMFÍ og aðildarfélaga í íþrótta- og ungmennafélagshreyfing- unni eru þúsundir sjálfboðaliða. Fullyrða má að ekkert yrði af starfinu án þeirra hjálpar. Hjalti Jón Kjartansson: Starfið hefur gildi fyrir krakkana „Ég byrjaði að starfa sem sjálfboðaliði líklega í fyrrasumar hérna á Sel- fossvelli. Dætur mínar eru báðar að æfa frjálsar og það vantaði starfs- menn og ég gaf mig bara fram í það. Það hefur mikið gildi fyrir krakk- ana að svona starf sé í gangi. Mér þykir gaman að fylgja börnunum mínum í þessu. Það þarf heilmikið af starfsfólki á svona mót og maður vill leggja eitthvað af mörkum fyrst börnin eru í þessu. Það er mjög gaman að fylgjast með krökkunum. Þetta er mjög mikilvægt fyrir sam- félagið. Án svona sjálfboðaliðastarfs væri ekki hægt að halda mót eins og þetta til dæmis. Það er mikilvægt frjálsíþróttastarfinu og öllu þessu íþróttastarfi bara.“ Rósa Marinósdóttir: Starfið skapar svo mikið „Ég byrjaði að starfa sem sjálfboðaliði 1986 á innanfélagsmótum inn- an Ungmennasambands Borgfiringa (UMSB). Svo fór ég á fyrsta Ungl- ingalandsmótið þegar það var haldið á Dalvík 1992 og var meðal ann- ars í landsmótsnefnd þegar stóra Landsmótið var haldið í Borgarnesi 1997. Sjálfboðaliðastörfin hafa mest verið tengd frjálsum en að vísu var ég mjög mikið í körfuboltadeild Skallagríms á tímabili. Ég var líka aðeins í kringum sundið og svo bara ungmennafélaginu sem slíku, en ég er í Ungmennafélaginu Íslendingi sem er á Hvanneyri og í nágrenni. Þar hef ég starfað mjög mikið. Sjálfboðaliðastarfið gefur mér alveg ofboðslega mikið. Maður kynnist öllu samfélaginu, öllu fólkinu og krökkunum sem eru að vaxa upp. Núna er maður að fylgja þriðju kyn- slóðinni. Það er alveg ómetanlegt að gera þetta. Við gætum ekki hald- ið svona stór mót eins og Unglingalandsmótið nema vegna sjálfboða- liðanna. Bæði Unglingalandsmótið og 50 plús mótið væru ekki haldin ef það væru ekki sjálf- boðaliðar. Svo skapar þetta hagnað í samfélaginu innan héraðs þegar svona stórmót eru haldin.“ Ingunn Guðjónsdóttir.Bjarni Ingimarsson.Hjalti Jón Kjartansson. Rósa Marinósdóttir.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.