Heima er bezt


Heima er bezt - 01.07.2001, Side 38

Heima er bezt - 01.07.2001, Side 38
þversum yfir hnakkinn, settist sjálfur fyrir aftan hann og reið heim. Það var ekki fyrr en tveimur dögum eftir bændahátíð að læknir var sóttur til að líta á Karl Karlsson yngri, sem hvorki hreyfði legg eða lið, né heldur sagði eitt einasta orð. Horfði aðeins sljóum augum út í loftið og að því að séð varð festi hann ekki augnatillit sitt við nokkurn ákveðinn punkt. Faðir hans hafði lagt hann á dívan í fremri stofunni þegar hann kom með hann heim og þar hafði hann legið síðan. Læknirinn var hressilegur ungur maður, búsettur í þorpinu, í læknishúsi ríkisins, bróðursonur bóndans í Kvalamararkoti. Hann snaraðist inn í fremri stofuna, slengdi töskunni sinni á stól. Karl Karlsson eldri kom í humátt á eftir honum, þar á eftir móðir drengsins, hún kom ekki lengra en í dyragætt- ina, hallaði sér upp að dyrastafnum, studdi annari hönd á mjöðm sér. Andlit hennar var sviplaust, hörkudrættir kringum munninn, varir hennar saman klemmdar; hún minnti á hermann sem stendur aleinn inni á vígvelli óvin- anna en ætlar samt að vinna stríðið. Læknirinn horfði fast á Karl Karlsson yngri - vék sér síðan að föður hans. „Hvar fannst hann?“ „Undir neðri hyrnunum.“ „Féll hann fram af?“ Það kom hik á Karl Karlsson eldri. „Ja... það hefur mér nú ekki dottið í hug... nei, ætli það...“ „Hvað hefur þá komið fyrir drenginn?“ „Hum... ég hélt kannski...“ „Ég datt fram af...,“ sagði Karl Karlsson yngri skyndi- lega. Aldrei á sinni íjórtán ára æfi hafði hann vakið slíka eft- irtekt. Læknirinn rykkti til höfðinu og sperrti brýrnar, föðurn- um svelgdist á, móðirinn gaf frá sér einkennilegt hljóð sem minnti á dýr, sem elt hefur verið lengi af stærra og sterkara dýri, hún hentist í einu stökki að rúmi sonar síns, kastaði sér á hnén og greip krampakenndu taki um hann miðjan. Drengurinn slengdi báðum örmum utan um móð- ur sína og tók til að gráta. Hljóðum, sársaukafullum gráti. „Nú, þú getur þá talað og hreyft þig,“ sagði læknirinn vingjarnlega. Hann gekk að rúminu, aðskildi móður og son, lyfti sænginni og tók að nudda fætur drengsins. „Sjáum hvort líf er komið í fæturna.“ „Ég get ekki hreyft fæturna.“ Karl Karlsson yngri var kominn í varnarstöðu gagnvart ástandi sínu. Læknirinn tók í annan fót hans, lyfti honum upp og sleppti takinu snöggt. Fóturinn féll niður á dýnuna eins og tuska. Læknirinn hélt rannsóknum sínum áfram, en allt kom fyrir ekki. Fætur drengsins voru máttlausir. „Það er ekki annað að gera en flytja hann á sjúkrahús.“ Faðirinn kinnkaði auðmjúkur kolli. Móðirin hikaði andartak, sté síðan eitt skref í átt til læknisins, rétti krepptan hnefa upp að andliti hans og sagði: „Drengurinn verður ekki fluttur neitt.“ „Hann verður að komast til sérfræðings.“ „Þá getur „sérfræðingurinn“ komið hingað.“ „Það verður nú ennþá dýrara,“ skaust út úr Karli Karls- syni eldri. Móðirin, sem ennþá hélt krepptum hnefa sínum á lofti, snerist í hálfhring í átt að bónda sínum og hvæsti út á milli samanbitinna tannanna: „Það má líklega klípa í kosningasjóðinn." Karl Karlsson eldri hrökk við. Það var ekki oft sem kona hans tók á sig þennan ham. En hann vissi af reynsl- unni að henni yrði ekki snúið. Jarðýta gæti ekki fengið hana til að skipta um skoðun. Hann strauk vandræðalega á sér hökuna, leit hjálparlaus til læknisins sem sat við sinn keip. Málalok urðu hins vegar þau að læknirinn fór í fússi. Með tímanum fékk Karl Karlsson yngri bæði hjólastól og örorkubætur, við seytján ára aldur bílpróf, þar á eftir bíl. Kosningasjóður flokksfélaganna gildnaði verulega, innleggið í Kaupfélaginu minnkaði að sama skapi. Lækn- irinn kærði málið til heilbrigðisyfirvalda en hafði ekkert upp úr krafsinu annað en niðurskurð á opinberu fé til rekstrar læknisþjónustu í sýslunni. Karl Karlsson eldri byggði skjólið sitt, dæturnar urðu stæðilegri með hverju ári sem leið, móðirin þögulli. Karl Karlsson yngri teygði sig í þriðju brauðsneiðina úr köflótta pokanum. Þvílíkt partí, þvílíkar skvísur. Þvílík sæla, þvílík kvöl. Hann hefði aldrei átt að asnast í þetta partí. Aldrei átt að fara niður í þorpið í gærkvöldi. En hvernig hefði hann átt að forða sér? Þau voru svo al- mennileg við hann þarna í sjoppunni. Þó voru þau öll blindfull. Tveir strákar, þrjár stelpur. Hann þekkti þau öll, ekki mikið en þó. Stelpurnar tóku herradóminn yfir hjólastólnum, keyrðu hann á fleygiferð eftir þorpsgötunni, að húsi með háum tröppum, strákarnir þrifu hann úr stólnum og báru hann alla leið inn í stofu, stelpurnar komu á eftir með stólinn. Fyrst hafði hann verið hálf utangátta og feiminn. Músíkin var ærandi há, ljósin eins og á diskóteki, stelpurnar hentu af sér hverri spjör og ærsluðust um borð og bekki. Þær komu allar með glas fyrir hann, það gerði samanlagt þrjú stór glös með lítið blönduðum Húlsara. Til að losna við mestu feimnina og vandræðaganginn hafði hann hvolft í sig hverju glasinu á fætur öðru, hóstað, svelgst á en niður fór innihaldið að lokum. Stelpurnar dönsuðu eins og vitlausar, allt í einu hvarf ein inn í herbergi ásamt öðrum stráknum, skömmu síðar fór önnur stelpa sömu leið í fylgd með hinum stráknum og Karl Karlsson yngri varð eftir einn í stofunni með Ástu. Ástu. Sem alltaf hafði heilsað honum brosandi, sem alltaf hafði spurt hvernig hann hefði það, sem alltaf hafði sagt eitthvað fallegt við hann. 278 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.