Læknaneminn - 01.04.1967, Blaðsíða 13
LÆKNANEMINN
13
áhuga. Þegar vel tekst til, ætti þetta að leiða til umbóta á
rannsóknaaðferðum og meðferð.
3. Kennsla og þjálfun læknanema og almennra lækna. Ferlivist-
ardeildar eru að ýmsu leyti betur fallnar til kennslu en mjög
sérhæfðar spítaladeildir, sem að mestu fást við fágæta og
erfiða sjúkdóma. Læknanemar fá oft alrangar hugmyndir um
almennt læknisstarf á sérdeildum. Þar kynnast þeir sjúkdóm-
um aðeins á ákveðnu stigi, og læra fátt um tíðni sjúkdóma
og þjóðfélagslega þýðingu. Oft tekst svo til, að læknanemar
sjá aldrei á námsferli sínum þá sjúkdóma, sem valda almenn-
ingi mestum ama og þjóðfélaginu mestu vinnutjóni.
Á lyflæknisdeild Landspítalans hefir það lengi verið áhugamál
að koma á fót ferlivistardeild. Ekki hefir annað verið til fyrirstöðu
en skortur á húsrými. Að sjálfsögðu hefir deildin ekki frekar en aðrar
spítaladeildir getað skotið sér algerlega undan að sinna þessum verk-
efnum. Starfið hefir þó einatt verið unnið við hin erfiðustu skilyrði,
oft á spítalagöngum og í almennum vinnutíma lækna á deildinni. Þetta
hefir bakað bæði sjúklingum og læknum óviðunandi óþægindi, óþarfa
bið og vinnutap sjúklinga, en lélega nýtingu á dýrum starfskröftum
sérfræðinganna.
Nú er fastákveðið að hefja þessa starfsemi strax og húsnæði er
fyrir hendi. Vonir standa til, að það fáist til bráðabirgða í nýbyggingu
spítalans. Ætlunin er að taka til eftirmeðferðar ákveðna sjúklinga-
flokka, sem ekki er á valdi almennra lækna að annast svo vel sé.
Ákveðið er, fyrst um sinn, að taka þarna að sér eingöngu þá sjúklinga,
sem vistaðir hafa verið á deildinni. Ekki fæ ég þó séð, að neitt sé því
til fyrirstöðu að taka þarna einnig til athugunar þá sjúklinga, sem eru
á biðlistum deildarinnar á hverjum tíma. Mætti þá skipuleggja og
hefja rannsóknir til flýtisauka. Með þessum hætti mætti örugglega
stytta verulega spítalavist flestra sjúklinga, en leysa vanda annarra,
án þess að til spítalavistar þurfi að koma. Þetta væri ómetanlegt, því
það erfiðasta af öllu í starfi okkar spítalalækna nú, er að verða sí og
æ að neita þurfandi sjúklingum um hjálp, vegna skorts á sjúkrarými.
Að lokum vil ég endurtaka, að það er sannfæring mín, að með
þeim aðgerðum, sem ég hefi nefnt, þ. e. stofnun hjúkrunarheimila,
þjálfunarstöðva og ferlivistardeilda, mætti auka svo afköst hinna
bezt búnu sjúkrahúsa, að ekki yrði þar um skort á sjúkrarúmum að
ræða um næstu framtíð.