Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2023, Page 5

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2023, Page 5
5 Maður þarf á öllu sínu að halda og sérstaklega húmornum! Eyrún Guðnadóttir er eiginkona Eiríks Höskuldssonar sem gekkst nýverið undir lungna- ígræðslu í Svíþjóð. Okkur lék forvitni á að heyra hennar sögu en hlutverk aðstandenda, sem er bæði mikilvægt og krefjandi, á það til að verða hálf ósýnilegt í allri spennunni og óvissunni sem fylgir alvarlegum veikindum. Eiríkur fór í aðgerðina í september síðastliðnum og gekk hún vel. Þau hjónin koma vikulega frá Grundarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer í eftirlit á Lungnadeild Landspítalans. Eyrún brást ljúflega við beiðni okkar um viðtal og í einni slíkri eftirlitsferð núna í októberlok kom hún í heimsókn á skrifstofu Lungnasamtakanna í Borgartúni. Engir dagar eins „Ég er frá Grundarfirði og fædd árið 1968. Við Eiríkur erum búin að búa saman í tuttugu og þrjú ár og erum svona teygjufjölskylda,“ segir þessi flotta kona með brosglampa í augum þegar við byrjum á hefðbundnum spurningum um fjölskylduhagi og annað því tengt. „Eiríkur á þrjú börn og ég tvö en við eigum ekki börn saman. Ég er aðstoðarvarðstjóri í fangelsinu á Kvíabryggju og er búin að vera í þessum geira frá því árið 2012.“ Spurð hvort starfið sé ekki krefjandi svarar hún snaggaralega: „Það er alla vega þannig að engir dagar eru eins.“ Þar er gott net Eiríkur var búinn að vinna sem trésmiður í fjöldamörg ár þegar hann fékk staðfestingu á því árið 2012 að hann væri með lungnateppu og lungnaþembu. Á þeim tíma bjuggu þau í Mosfellsbænum. Hann hélt áfram að vinna til ársins 2015 en varð þá að hætta út af sjúkdómnum. Þau ákváðu því að kúvenda lífinu, seldu húsnæði sitt í Mosfellsbænum og fluttust vestur á Grundarfjörð. “Ég fékk stöðu á Kvíabryggju sem reyndist mjög vel því að það er ómetanlegt að geta verið nálægt fjölskyldu sinni og hafa stuðning frá henni við þessar aðstæður.“ Öll fjölskylda Eyrúnar býr á Grundarfirði, foreldrar hennar, tvær systur og einn bróðir. „Þar er gott net,“ segir hún og brosir breitt. „Við systurnar stöndum mjög þétt saman. Manni veitir ekki af. Þær eru ótrúlegar.“ Þá kom COVID Ljóst er að þeim hjónum hefur ekki veitt af slíkum stuðningi. Eiríkur var orðinn óvinnufær með tilheyrandi almennu þrekleysi og vanmætti. „Þegar fólk hættir að vinna verður andlega heilsan ekki alveg upp á tíu. Það hafði áhrif líka,“ segir Eyrún af yfirvegun. „Hann fór svo að nota súrefni árið 2016 og ári seinna var hann kominn með heimasúrefni.“ Eftir það segir Eyrún að leiðin hafi smám saman legið niður á við en að árið 2019 hafi hann svo komist á lista yfir lungnaþega. „Við fengum viðtal við teymi í Svíþjóð þá um haustið og til stóð að hefja rannsóknarferli fyrir lungnaskipti. Þá kom COVID. Heppin við!“ Svo mörg voru þau orð. Var búin að taka upp úr töskunum Eyrún segir að engu að síður hafi siglingabréfið komið frá Sjúkratryggingum 23. ágúst árið 2020, þ.e. samþykkt um að komast í lungnaskiptaaðgerð. „Hins vegar stóð COVID faraldurinn ennþá yfir, þannig að Eiríkur komst ekki á listann fyrr en 12. október árið 2021. Við vorum því búin að bíða og bíða og bíða,“ segir hún og brosir út í annað. „Taskan var búin að bíða á stigapallinum í eitt og hálft ár. Dóttir mín var búin að komast að því að meðalbiðtíminn væri sex mánuðir. Við vorum búin að grufla svolítið og leita að upplýsingum. Ég fylgdist alltaf með upplýsingum á Scandiatransplant, sem er líffæraígræðslustofnun fyrir Norðurlandaþjóðirnar og Eistland, um það sem væri að gerast í þeim málum. Ég var búin að taka upp úr töskunni og henda tékklistanum. Þannig að það var ekkert tilbúið þegar við loksins fórum.“

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.