Ferðir - 01.05.1988, Qupperneq 29
FERÐIR
29
eitt lítið, og fara vélsleðamenn þar oft um á leið sinni til eða
frá Trölla. Þar norður af er Bakdalur, og farið eftir honum og
siðan til austurs um Bakdalsskarð. Hægt er að fara alveg
austur úr skarðinu og austur yfir Kallárdal, dálítið dalverpi er
liggur suður frá Laxárdalsheiði, og þar niður á heiðina, en
oftast er farið norður upp úr skarðinu og norður Kolugafjall,
bunguvaxið og fyrirferðarmikið en fremur lágt fjall vestan
heiðarinnar og austan Skálarhnjúksdals. Vestur fjallið liggur
raflina, er áður var fyrst og fremst til að tengja Laxárvatns- og
Gönguskarðsárvirkjanir, en tengir nú orkuveitusvæði Húna-
þings og Skagafjarðar auk Byggðalínunnar svonefndu, sem
liggur um Stóra-Vatnsskarð. Fylgja vélsleðamenn linu þessari
oft fyrst i stað. Þegar komið er i svonefnt Reiðskarð, en áður en
halla fer vestur af, er beygt til suðurs og haldið ofan á Bak-
dalsskarð og síðan eins og fyrr er frá sagt, suður Bakdal, bak
við Skálarhnjúk. Fer þó eftir færi, hvaða leiðir eru valdar.
Norðan Tröllabotna er allmikill fjallshryggur, sem fer þó
lækkandi til norðurs og endar á svonefndum Ambáttardal,
sem liggur suðvestur frá Skálarhnjúksdal/Laxárdal. Norðan
hans er svonefnt Hvammshlíðarfjall, og vestan þess er
Hvammshlíðardalur. Suður af þar sem dalir þessir mætast
gengur mjór dalur sem auðvitað heitir Mjóidalur. Nokkru
austar gengur svo Balaskarð, sem nær ofan í ysta hluta Lax-
árdals fremri. Um síðasttöldu dalina og skörðin koma Hún-
vetningar gjarnan á vetrum á vélsleðum sínum.
Hér að framan hefur verið leitast við að lýsa umhverfi og
aðkomuleiðum að Trölla. Engum er þó ljósara en skrásetjara
að frásögn þessi er langt frá því að vera nógu góð og gagnleg
og þarf þar áreiðanlega að vinna betur að til kynningar og
leiðsagnar. Óvönduðum vinnubrögðum verður hvorki hér né
annars staðar mælt bót, en bjarta hliðin er e.t.v. sú, að skrif
sem þessi verða oft til þess að vekja áhuga fróðleiksfúsra les-
enda á sér áður ókunnum stöðum, og hvetja þá til að leita sér
annarra og betri heimilda. Fari svo að lestur þessarar frá-
sagnar veki áhuga einhvers til slíkra hluta og frekari kynna af
svæðinu, telur skrásetjari sig hafa nokkra afsökun.