Ferðir - 01.05.1988, Blaðsíða 24
24
F E RÐIR
lengi blundað. Varð úr, að þeir gengu til samstarfs við
félagsdeildina, og lögðu nokkurt fé í byggingarsjóðinn.
Var tekið til óspilltra málanna um efnisöflun, og snemma
árs 1983 voru staurar í undirstöður fluttir með vélsleðum á
byggingarstað, ásamt ýmsu fleiru er til þess þurfti. Snemma í
ágúst um sumarið, tók Sigurþór Hjörleifsson í Messuholti
fyrstu skóflustunguna, og var síðan grafið fyrir undirstöðum
og gengið frá þeim þannig, að festa mætti skálann á þær án
teljandi fyrirhafnar.
Um haustið tóku menn svo til við skálabygginguna sjálfa,
en strax í upphafi hafði félagsfólk ákveðið, að skálann væri
hentugast að byggja heima við og flytja í heilu lagi á sinn
fyrirhugaða stað. Tókst að fá aðstöðu í gömlum „bragga“ sem
Vegagerðin hafði áður átt, en hafði komist í eigu bæjaryfir-
valda á Sauðárkróki þegar Vegagerðin fluttist á nýjan stað
þar í bænum. Jón E. ísdal, sem hefur verið aðalhöfundur
nýjustu skála F.Í., var svo vinsamlegur að lána deildinni
teikningar að skála, sem bæði F.í. og Jöklarannsóknarfélagið
höfðu byggt eftir. Þeir Jón og Sigurþór Hjörleifsson aðlöguðu
teikninguna aðstæðum á byggingarstað, og gerðu á henni
nokkrar breytingar. Baldur Ingólfsson, húasmíðameistari á
Sauðárkróki lagði til fagþekkingu við smíðina, en Friðrik A.
Jónsson, þá og enn gjaldkeri deildarinnar, vann manna mest
að smíðinni. Fleiri lögðu þar þó að sjálfsögðu hönd á plóginn,
þótt hér sé ekki vettvangur til að rekja það nánar. Með tals-
verðu harðfylgi tókst að ljúka skálasmíðinni og koma honum
á sinn stað áður en vetur var úr bæ, en það var nánst skilyrði
fyrir því ferðalagi, að snjór væri nægur, svo draga mætti
skálann á sleða á áfangastað.
Ekki er ástæða til að rekja flutningssöguna á þessum vett-
vangi, en þar tókst vel til, enda vaskir menn að verki. Hefur
skáli þessi síðan verið mikið notaður á öllum árstímum. Strax
á fyrsta vetri var haldin þar þrettándavaka á vegum FFS, og
var hún fjölsótt. Hefur sú athöfn verið endurtekin árlega
síðan, og verður vonandi framhald á, enda láta þátttakendur
vel af þessari skammdegisskemmtun.