Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2023, Blaðsíða 25
5. júlí 2023 | | 25
arateyminu. Við vorum að koma
frá Níkaragva þar sem við vorum í
viku keppnisferð. Komumst áfram
í CONGACAF keppninni og
framundan eru leikir í Dóminíska
lýðveldinu, “ segir Íris.
„Þarna eru næg verkefni en
þetta er eins og að vera með
ómótaðan leir í höndunum. Það
er ofboðslega gaman að kenna
stelpunum en grunninn vantar.
Hafa greinilega ekki fengið mikla
styrktarþjálfun en eru mjög fljótar
að læra. Áhugasamar og gaman
að vinna með þeim. Þetta er í
genunum, þær eru svo snöggar og
sterkar,“ segir Íris og talið berst að
þeim fjölda íþróttafólks í fremstu
röð sem kemur frá löndum í Kar-
abískahafinu.
Ólympíumeistarar og
heimsmeistarar
„Það á sérstaklega við hlaupara,“
segir Heimir. „Fyrir skömmu voru
haldnir skólaleikar þar sem þau
bestu úr hverjum árgangi kepptu.
Hver skóli var með sitt lið. Mótið
stóð í fjóra daga og þjóðleik-
vangurinn var nánast fullur alla
dagana. Síðustu tvo dagana var
uppselt á úrtökumóti í hlaupum og
öðrum íþróttum þar sem krakkar á
skólaaldri, upp í nítján ára voru að
keppa. Þetta er stærsta samkoma
á Jamaíka á hverju ári. Landsmót
þar sem menn eru að tala um sek-
úndubrot til eða frá. Bera saman
gamlar hetjur og nýjar.
Þegar við komum var verið að
útnefna íþróttamann Jamaíka
þar sem tvær hlaupadrottningar
urðu fyrir valinu. Það var ólíku
saman að jafna og hjá okkur því
þetta eru konur sem hafa slegið
heimsmet, unnið til gullverðlauna
á Demantamótaröðinni og eru
Ólympíumeistarar og heimsmeist-
arar. Þetta er í genunum og
aðstæður bjóða líka upp á þetta.
Mikið um brekkur og enginn til
að skutla krökkum til og frá. Og
þetta eru ekki hátækniæfingar, allt
mjög einfalt á æfingarsvæðum,
enginn íburður og nota enn sömu
aðferðir og fyrir áratugum.“
„Maður sér þetta í skólunum,“
segir Íris. „Krakkarnir eru látnir
hlaupa í hringi, hring eftir hring.
Það er ekki flóknara en það og
þau hafa gaman af.“
Allir svo afslappaðir og glaðir
Miðað við veður síðustu daga
á Íslandi er notalegt að ylja sér
við lýsingar þeirra á veðrinu á
Jamaíka. „Við höfum bara kynnst
veðrinu fyrstu fimm mánuði
ársins og það er dásamlegt, nánast
alltaf eins, frá 27 gráðum upp í
rúmar 30. Það koma líka rign-
ingartímabil og þá er eins og hellt
sé úr fötu.
„Alltaf hlý gola,“ skýtur Íris inn
í. „Við vorum heima í snjónum
um jólin og eftir þá reynslu var
fínt að koma til Jamaíka.“
Jamaíka skartar ekki bara
íþróttafólki á heimsmælikvarða.
Reggítónlistin með Bob Marley
í fararbroddi hefur náð hylli um
allan heim. Heimir og Íris eru
ekki ósnortin af tónlistinni sem á
sér djúpar rætur í menningu Jama-
íka. „Hún er alveg yndisleg. Það
er reggí og allskonar tónlist sem
heyrist um allt. Alltaf einhverjir
viðburðir, margir tónleikar í hverri
viku og tónlistin berst til okkar
á kvöldin. Allir svo afslappaðir
og glaðir og maður fer í sama
gírinn,“ segir Íris.
„Hún virðist svo inngróin,
takturinn eins og meðfæddur og
allir svo ófeimnir og gaman að
sjá fullorðna karlmenn dansa og
syngja,“ segir Heimir.
Hverfið þeirra er mjög rólegt og
þar er þjónusta eins og sundlaug
og líkamsræktarsalur sem allir
hafa aðgang að. Þau eru mál-
kunnug nokkrum nágrannanna
sem margir nota húsin sín sem
sumarbústaði. „Sá sem tók á móti
mér og hefur verið okkur mest
innan handar er prestur á svæðinu.
Heldur úti fótbolta hlaðvarpi sem
er svolítið sérstakt. Hann hefur
hjálpað okkur og leiðbeint,“ segir
Heimir.
Umskiptin mikil
„Kristófer fékk meira að segja að
spila einn leik með liðinu hans og
æfa með sterkasta liðinu,“ segir
Íris en Kristófer er yngri sonur
þeirra og hefur verið með þeim
úti. Hallgrímur sá eldri er einnig
að þjálfa knattspyrnu, starfar hjá
Val og stundar nám við Háskóla
Íslands. „Kristófer, sem í sumar
spilar með KFS var hjá okkur í
vetur og kynntist fólki í gegnum
fótboltann. Það er mjög gaman
fyrir hann að kynnast Jamaíka
eftir að hafa verið með múslimum
í Katar. Á Jamaíka er t.d. farið
með bænir fyrir og eftir leik sem
við þekkjum ekki. Þannig að þetta
er góður skóli fyrir hann.“
Hver er helsti munurinn á Jama-
íka og Katar? „Við segjum stund-
um í gríni að allt sem er bannað í
Katar er velkomið á Jamaíka. Það
er einfalda svarið, hvort sem það
er áfengi, svínakjöt eða annað.
Þetta er sinn hvor endinn á litróf-
inu. Annars vegar allt í reglum og
lögum sem allir fara eftir í Katar í
fáar reglur á Jamaíka sem enginn
fer eftir,“ segir Heimir og hlær.
„Það er líka öryggið, engir
glæpir í Katar,“ segir Íris og þau
telja að Ísland gæti verið þarna
mitt á milli.
Er fólk farið að heilsa ykkur á
götu og kalla halló Heimir? „Já.
Við erum ljós og mjög auðþekkj-
anleg og þeir sem hafa áhuga á
fótbolta vita hver ég er. Við höfum
líka reynt að gefa af okkur. Tekið
þátt í góðgerðarleikjum, verið
með landsliðsæfingar fyrir þá sem
spila heima. Köllum saman þá
bestu,“ segir Heimir.
„Við hefðum ekki þurft að flytja
út en okkur fannst við verða að
gera það. Af virðingu við land og
þjóð,“ segir Íris og Heimir tekur
undir það.
„Bæði fyrir mig sem lands-
liðsþjálfara og Írisi sem er að
vinna fyrir landsliðið tilheyrir
það að læra, kynnast fólkinu og
menninguni. Kynnast fólkinu
sem stjórnar fótboltanum. Þegar
ég kom til Katar frá íslenska
landsliðinu hélt ég að ég væri
ofboðslega góður þjálfari, sá besti
í heimi og allt það. Þegar maður
kemur inn í annað umhverfi og
hugsun fattar maður að það er
maður ekki. Í Katar ætlaði ég
að breyta öllum í Íslendinga en
komst að því að allar breytingar
sneru að mér, að aðlagast staðnum
sem ég er á.
Þess vegna var það aldrei spurn-
ing ef ég ætlaði að taka að mér
þjálfarastarfið að við yrðum
að flytja. Eyða miklum tíma á
Jamaíka, sérstaklega í upphafi til
að kynnast því hvernig þeir hugsa
og vinna. Við fórum mjög rólega
með allar yfirlýsingar, reynslunni
ríkari frá Katar,“ sagði Heimir að
endingu.
Landslið Jamaíka gerði 1:1 jafntefli gegn Bandaríkjunum í fyrsta leik í Golden
Cup og vann 4:1 sigur á Trinidad og Tobago í öðrum leik. Liðið tryggði sér svo
sæti í átta liða úrslitum eftir 5:0 sigur á Sankti Kitts og Nevis í fyrrinótt. Landslið Jamaíka gerðu 1:1 jafntefli gegn Bandaríkjunum í fyrsta leik
í Golden Cup og unnu 4:1 sigur á Trinidad og Tobago í öðrum leik.
Kristófer með liði sínu.
Heimir stýrir sínum mönnum.