Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2023, Blaðsíða 6
6 | | 5. júlí 2023
Á 50 ára gosloka afmæli í Vest-
mannaeyjum er margs að minnast
og hægt að rifja upp ýmislegt
við þau tímamót. Íslendingar eru
öðruvísi en annað fólk í ver-
öldinni og við Eyjamenn aðeins
meira öðruvísi. Það sést ekki á út-
litinu en það er eitthvað sem hefur
mótað karakterinn sem einkennir
Eyjamanninn. Erfið lífsbarátta og
nálægðin við náttúruöflin hefur átt
stóran þátt í því að við erum öðru-
vísi þegar við berum okkur saman
við venjulegar mælistikur.
Eitt af okkar einkennum er
keppnisandi sem hefur oft verið á
mörkum þess að vera talinn eðli-
legur, jafnvel langt frá því. Hvað
skýrir það að Eyja með 4600 íbúa
er með 18 holu golfvöll, fjóra
grasvelli til knattspyrnuiðkunar,
knattspyrnuhús til vetrariðk-
unar, þrjá innanhús leikvelli til
handboltaiðkunar auk annara
íþróttagreina í þeim salarkynnum.
Þessu tengt er 25 metra sundlaug
með góðu útisvæði. Að baki
þessara mannvirkja liggur mikill
metnaður og einlæg trú fjölda
einstaklinga um mikilvægi þess
að grunnurinn að góðu samfélagi
er góð aðstaða til íþróttaiðkunar
og heilsueflingar.
Golfvöllurinn
Fyrir gos þá byrjaði ég að sækja
golfvöllinn á sumrin. Þá hafði
móðir mín fengið áhugann á golfi
og keypt hálft golfsett. Það varð
úr að settið var fengið að láni
þegar tækifæri var til þess og
skundað í dalinn. Þegar drengur-
inn skilaði sér ekki heim eftir átta
tímana á golfvellinum varð móð-
urtilfinningin sterk hjá mömmu og
hún smurði nesti í box og skutlaði
því inn á golfvöll svo við vinirnir
myndum ekki svelta.
Golfið hefur alla tíð síðan fylgt
mér með mismikilli ástundun.
Eftir gosið var golfvöllurinn í
Herjólfsdal illa farinn og ekki
leikhæfur. Félagar í golfklúbbnum
létu það ekki stöðva sig. Fljótlega
eftir að fólkið byrjaði að flytja
heim eftir gosið þá var fundið
svæði suður á Eyju sem hafði
verið notað fyrir kindur og hesta.
Græjaður 6 holu golfvöllur og fé-
lagsstarfið komið í gang að nýju.
Uppgjöf var ekki til í orðabókinni.
Á meðan golfarar spiluðu golf
sunnan við flugvöllinn var sam-
hliða því unnið í sjálfboðavinnu
við að hreinsa og gera golfvöll-
inn kláran að nýju í Herjólfsdal.
Eftir mikla vinnu var byrjað að
spila golf í Herjólfsdal 1977.
Byggður var nýr golfskáli sem
var svokallað A-hús á þeim stað
sem núverandi golfskáli er. Gamli
golfskálinn frá því fyrir gos var
þar sem ferðalangar hafa núna
aðstöðu í Herjólfsdal.
Ræktunarstarf og uppbygging
Í hönd fór margra ára ræktunar-
starf og uppbygging á þessum
níu holu golfvelli sem þótti
magnaður með fjallaveggina svo
til í brautarköntum. Ég á góða og
fallega minningu frá því þegar
unglinghópurinn í GV mætti
undir verkstjórn Ragga Rakara til
að búa til sandgryfju við Fjósa-
klettinn á 8. holu. Þetta var 11
manna hópur sem kláraði verkið
á nokkrum klukkutímum. Það
sem stendur upp úr er að Raggi
skutlaði okkur öllum heim í einni
ferð á litlum Fiat. Ég væri búin að
gleyma þessar sandgryfjugerð ef
ekki hefði verið bílferðin. Reikna
með að brotið sé fyrnt og valdi
vini mínum ekki vandræðum.
Fyrir einhverja þótti níu holu
golfvöllurinn alveg ágætis pakki
til að sjá um og láta ganga upp
fjárhagslega fyrir ekki fleiri borg-
andi félaga. En Eyjamaðurinn var
ekki á því að þetta væri endastöð-
in. Hafin var undirbúningur að
stækkun í 18 holu golfvöll sem
tekinn var í notkun 1993. Allt frá
þeim tíma hefur verið byggt upp
í smáum skrefum hvort sem það
snýr að iðkendum eða starf-
seminni. Í dag hefur golfvöllurinn
mikið aðdráttarafl fyrir golfara
frá fastalandinu og er sterk stoð
í ferðaþjónustunni í Eyjum yfir
sumartímann.
Samheldnin
Það sem ég var að hugsa þegar
ég settist við tölvuna og skrifaði
þessa stuttu grein á þessum tíma-
mótum sem goslokaafmælið er, þá
var ætlunin að draga á einhvern
hátt fram þá elju og vinnu sem
Eyjamenn hafa lagt á sig til að
byggja upp samfélagið eftir gosið.
Ég tók smá snúning á golfklúbbn-
um en sögur í þessum anda eru
fjölmargar hvort sem þær snúa að
Þór, Týr eða ÍBV.
Einnig hefur félagastarfsemi í
Eyjum verið öflug og skilað miklu
til samfélagsins. Ég heyrði einu
sinni mannlýsingu sem hljóðaði
svona með rödd Einars í Betel:
„Ekki fékk hann vitið í vöggugjöf
– og ekki heldur í fermingargjöf.”
Mér dettur þessi mannlýsing
stundum í hug þegar við Eyja-
menn eru að göslast áfram í bættri
aðstöðu til allrar íþróttaiðkunar
á síðustu áratugum. Ég þakka
Guði fyrir að við Eyjamenn erum
aðeins öðruvísi og fengum ekki
allt í fermingargjöf.
GV sveitin sigraði í sveitakeppni 50+ í Sandgerði 2017. Frá vinstri Eyþór Harðarson, Magnús Þórarinsson, Hlynur Stefánsson,
Stefán Sævar Guðjónsson, Sigurjón Pálsson, Sigurður Sveinsson , Ágúst Ómar Einarsson ásamt starfsmönnum mótsins.
Eyþór Harðarson Oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn:
Uppgjöf var ekki til í orðabókinni