Goðasteinn - 01.12.1964, Síða 19
Gitðrún Auðunsdóttir frá Dalseli:
Hefurðu gleymt
Hcfurðu gleymt, hve gata okkar var bein,
glófextir jóar reistu makka sína,
og stæltir hófar hæfðu gráan stein,
en hönd þín lukti granna fingur mína?
Við þeystum yfir grund og grýttan veg
og gráan sand, er lá að elfarflaumi.
Þá æskugleði áttir þú og ég,
sem aðeins finnst í vorsins bjarta draumi.
Og manstu, er sólin kyssti klettabrún,
og kátir lækir þutu niður hlíðar,
og dalalæðan læddist yfir tún,
og lagðist yfir móaþembur víðar
og nóttin ljósa léttum armi brá,
og ljúfur blærinn klappaði á vangann,
en vorið signdi okkar ungu þrá,
ósnortinn hug og bernskudraumalangan?
Ég man þig ætíð, ef að sólin skín,
og eins ef fer um ljós og hlýju að sneyðast.
Æ, fljúgðu yfir firnindin til mín,
er fönnin dvín og þokur sundur greiðast.
Ó, viltu ei framar fundi mínum ná,
er fellur húm og ljósin deyja á gluggum?
Þú finnur mig við fjöllin himinblá,
í faðmi nætur, inn í klettaskuggum.
Goðasteinn
i7