Goðasteinn - 01.12.1964, Blaðsíða 6
Skömmu fyrir síðustu aldamót rak mikið af plönkum á allar
fjörur hér í sýslunni, og þá notaði sr. Bjarni tækifærið og byggði
húsið. Öll grind þess er úr rekaviði. Sr. Bjarni kom nokkrum
sinnum í Höfðann og var aufúsugestur, stór og fríður og höfð-
inglegur.
Aldrei gleymi ég því, þegar Sverrir bóndi í Hraunbæ kom
einu sinni í Höfðann. Það var skömmu eftir sumarmál, í góðu
veðri. Hann var óvenjulega klæddur, svo langt að kominn, að-
eins í einum buxum úr hvítu vaðmáli en meira búinn um bol.
Sverrir sagðist hafa farið snemma að heiman um morguninn og
gengið fram á Mela til að gá að fénu sínu, sem hann hafði þá
sleppt af gjöf. Því var hann svo létt klæddur. Svo þegar hann
hafði gætt að, hvernig blessaðar kindurnar höfðu það þarna í
mellandinu, þá blasti við honum þverhníptur hamraveggur
Höfðans frá svonefndri Melöldu. Sverrir sagði, að sér hefði sýnzt
svo stutt þangað, að hann hefði afráðið að skreppa vestur yfir
sandinn til að hitta fólkið í Höfðanum. Hann var ekki að telja
eftir sér sporin karlinn sá; það var þó næstum tveggja tíma
gangur af Melöldunni heim að bæ í Höfðanum.
En fyrst ég nú minntist á Sverri, ætla ég líka að geta um
aðra enn minnilegri komu hans í Höfðann. Daginn fyrir skírdag
1901 var hart frost og norðan stormur. Sandurinn fauk, og sand-
móðan var svo mikil, að lítið sá til Mýrdalsfjallanna. Um miðjan
dag kom Sverrir, og þótti furðulegt, að nokkur skyldi vera á
ferð í svo slæmu veðri. Ég man vel eftir, að Sverrir var nálega
óþekkjanlegur, þegar hann kom í bæinn, svo var andlitið svart
af sandi. Sverrir sagðist hafa lagt af stað um morguninn frá
Vík með sveitungum sínum, Jóni bónda í Skálmarbæ og Þor-
steini bónda á Eystri-Herjólfsstöðum. Þeir áðu í Skiphelli, en
þar sagðist Sverrir hafa riðið frá þeim og strax tekið þá ákvörðun
að leggja ekki á sandinn heldur reyna að komast fram í Höfða,
sem og tókst. Hann sagðist alltaf öðru hverju hafa séð hæstu
hnúka Höfðans upp úr sandkófinu og því getað haldið réttri
stefnu. Enginn veit, hvers vegna Sverrir skildi við félaga sína.
En af tvíræðum orðum hans þóttist móðir mín skilja, að þeir
félagar hefðu orðið ósáttir þarna í hellinum um, hvort halda
4
Goðasteinn