Skógræktarritið - 15.10.2020, Side 43
SKÓGRÆKTARRITIÐ 2020 43
dögum. Með hugtakinu að tálga þá á ég
við að öll vinna fari fram með hnífum og
þá jafnvel einum hníf. Vasahnífar voru
og eru ekki óþekktir í vösum landans.
Hér áður fyrr og fram til þessa dags voru
Otter vasahnífar frá Solingen í Þýskalandi
vinsælir í vösum landans og seinna
komu fínlegir vasahnífar frá Viktorinox
á markaðinn. Einhvern veginn þróaðist
þessi „hnífamenning“ hér á landi þannig
að menn höfðu hnífana í vösunum en
ekki hangandi utan á sér eins og algengt
er í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Samar
hafa í gegnum tíðina haldið stíft um sitt
hnífsform bæði hvað stærð og lögun varðar
þar sem ákveðin svæði eða hlutar hnífsins
eru notaðir til hinna ýmsu hefðbundnu
verka, t.d. er bakkinn næst hnífsskeftinu
notaður í grófa vinnu eins og að brjóta
bein til „mergjar“ til að ná mergnum úr
þeim, andstætt bakkanum næst skeftinu
er hnífurinn notaður til að höggva grófar
greinar og kljúfa við. Aðrir hlutar hnífsins
eru notaðir í áföngum til mis fínlegra verka
þar sem bit hnífsins þarf að njóta sín t.d.
eins og við að tálga og skera í. Segja má
að „samahnífurinn“ sé táknrænn fyrir
Samana bæði við dagleg störf sem og við
þjóðbúning þeirra. Hnífar eru og hluti af
þjóðbúningum flestra norrænu þjóðanna
nema Íslendinga. Á tímum víkinganna voru
menn vel vopnum búnir og eru konuhnífar
frá þeim tíma vel þekktir. Tálgaðir og
ískornir nytjahlutir hafa verið unnir um
alla Evrópu frá örófi alda og eru enn
sjálfsagður þáttur í daglegu lífi t.d. eins og
í skógarhéruðum Rúmeníu. Ef við látum
hugann reika getum við séð fyrir okkur
viðarhús, jafnvel bjálkahús, á landlítilli jörð
þar sem allt er nýtt til hins ýtrasta til þess
að ábúendur geti komist af. Þar er flest allt
gert úr tré. Spænir, diskar, skálar, bakkar,
smjörmót og misstórar ausur eru hlutir
sem eru notaðir daglega við matreiðslu
og til að matast með. Svo til öll húsgögn,
hrífur, tréklossar, rokkar, prjónar, öskjur
og kistlar ýmiskonar voru og eru velþekktir
nytjahlutir úr trjám. Í skógarlöndunum
var það viðtekin venja á árum áður að
menn gengu til skógarhöggs eftir jólin þ.e.
á nýju ári í janúar og fram í mars. Á þeim
tíma var að öllu jöfnu talsverður snjór yfir
sem auðveldaði mönnum að draga trén
úr skóginum með aðstoð hesta og sleða.
Það er auðvelt að gera sér í hugarlund
að á kvöldin hafi skógarhöggsmennirnir
haft ofan af fyrir sér með hníf í hönd með
því að vinna nytjahluti til heimilisins og
jafnvel stöku leikfang eins og hest eða
tréálf til að gleðja börnin þegar þeir komu
aftur heim. Það má leiða líkum að því að
vasahnífurinn hafi fylgt landnemunum frá
Evrópu til N-Ameríku og hefðin að tálga
með vasahníf hafi borist þangað með þeim
á sínum tíma. Það er einmitt þessi litli
samanbrjótanlegi vasahnífur sem hefur nú
fengið uppreisn æru í N-Ameríku, ekki
bara sem ótrúlega vinsæll söfnunargripur
heldur sem eitt vinsælasta verkfærið við
tálgun og segja má að þar sé einskonar
lífstíll að tálga með vasahníf.
Gerð og viðhald hnífa
Hvað varðar efnið sem notað er í
hnífsblöðin þá er hægt að æra óstöðugan
að átta sig á öllum þeim málmblöndum
sem notaðar eru í hnífsblöð og allir
framleiðendur eru að gera það besta sem
völ er á að þeirra mati. Carbon stálið
(kolefnisstál) ber af öðrum málmblöndum
til smíða á hnífsblöðum vegna þess
að hægt er að ná miklu og langvinnu
biti í þau. Kostir carbon stáls eru ekki
auðútskýrðir í stuttu máli en líklega er
auðveldast fyrir almenning að átta sig á
því að ekki er um ryðfrítt stál að ræða. Í
því felst að nokkra vinnu þarf að leggja
á sig við umhirðu hnífsblaða úr carbon
stáli, sem svo skilar sér í margfalt betra og
endingarbetra biti. Talsverður munur er á
málmblöndum sem eru notaðar í hnífsblöð
t.d. hvort nota á hnífinn á heitum
svæðum jarðarinnar eða köldum. Carbon
stálið skiptist í fjóra megin flokka Low