Ný menntamál - 01.06.1994, Page 12
3
v____________________J
Vilborg
Dagbjartsdóttir
Hlutdeild
<35
02
d>
'CÖ
Cvi
.Q
C\i
-<
<
>
að koma stundum upp mál sem erfitt er að
ræða í skólastofunni en má samt ekki ýta frá
sér inn í þögn og afskiptaleysi. Börnin eiga
rétt á því að talað sé við þau um það sem
brennur heitast á þeim. Kennarinn verður að leitast við
að finna svör við stóru spurningunum, þótt kannski sé
fátt til svara. Þá er gott að leita til bókmenntanna.
Ljóð, sögur og frásagnir geta orðið umræðugrundvöll-
ur, þar sem hægt er að tala um sára persónulega
reynslu á ópersónulegan hátt.
Fyrir um það bil tveimur áratugum kom í bekk til
mín drengur á ellefta ári. Hann hafði búið einn hjá
móður sinni, sem var ekkja, og langyngstur barna
hennar. Nú var hún komin á sjúkrahús og átti þaðan
ekki afturkvæmt þar sem hún var langt leidd af krabba-
meini. Drengurinn fór daglega að heimsækja móður
sína og sá hvernig henni hrakaði stöðugt og smám
saman gerði hann sér ljóst að hún var að deyja.
Ekki gat ég leitt hjá mér ótta og hljóðláta sorg þessa
litla drengs sem mér var trúað fyrir. Hann hafði mikla
þörf fyrir að tala um móður sína og hin börnin í bekkn-
um vissu hvað var að gerast, en hvernig gat ég nálgast
svo viðkvæmt mál?
Um þetta leyti hafði mér áskotnast ný, sænsk ljóða-
bók, Gröngölingen ar pá vág — Dikter för barn og
andra (1974) eftir Barbro Lindgren (fædd 1937). Ég var
mjög hrifin af bókinni. Nú valdi ég úr henni nokkur
ljóð sem fjölluðu um dauðann á einn eða annan hátt.
Ljóðin þýddi ég og fjölritaði til nota í bekknum. Þetta
varð dálítið hefti sem ég kallaði Fimm ljóð um dauð-
ann. Við lásum ljóðin saman og töluðum um þau og
börnin skreyttu þau með teikningum sínum. Þau teikn-
uðu líka stærri myndir til að hengja upp á korktöfluna.
Það er langt um liðið og ég á enga af myndunum
þeirra en samt man ég ljóslega eftir þeim sumum.
Þarna voru kistur skreyttar krönsum og blómum, leiði
með krossum og legsteinum og tré — lauflaus tré.
Myndirnar sögðu svo ótal margt sem við gátum ekki
komið orðum að.
Undir vorið dó móðir drengsins. Hann kom til mín
upp að kennaraborðinu og sagði: „Ætlar þú ekki að
koma við jarðarförina hennar mömmu?“
Vissulega gerði ég það. Ég hafði eignast hlutdeild í
sorg hans.
12
Vilborg Dagbjartsdóttir er
kennari í Austurbæjarskóla.