Golf á Íslandi - 01.07.2014, Blaðsíða 48
Sjálfstraustið eykst með hverjum sigri
Andlega hliðin hlýtur því að hafa styrkst með
titilinum í fyrra og fleiri sigrum í vor. Við
spyrjum Íslandsmeistarann að því.
„Ég fékk auðvitað aukið sjálfstraust við
sigurinn á Korpu í fyrra og sigrum í sumar.
Því fleiri mót sem þú vinnur þeim mun meira
sjálfstraust færðu. Andlegi þátturinn hefur
þó ekki verið vandamál hjá mér en auðvitað
er alltaf hægt að bæta hann. Ég fékk eldskírn
á Íslandsmótinu í fyrra þegar við enduðum
þrjár jafnar og þurftum að fara í umspil um
sigurinn.“
Hvað fór í gegnum hugann þá, þriggja holu
umspil og andstæðingarnir tvær af bestu
golfkonum landsins.
„Umspil og bráðabani eru auðvitað þannig
að það er í raun nýtt mót. Allt eða ekkert. Ég
setti upp plan áður en við fórum út í um-
spilið. Lagði bara upp með það að ná pörum
því mistök geta kostað titilinn. Tíunda er
erfið fuglahola, ellefta gefur möguleika á fugli
en tólfta erfið parhola. Það gekk eftir og það
var ljúft að fagna þessum titli. Það hjálpaði
mér eflaust að ég þekkti Korpuna mjög vel.
Spilaði hana nánast eingöngu fyrir mótið og
undirbjó mig þannig allt sumarið.“
Framför í stutta spili og púttum
Nú ertu í háskóla í Bandaríkjunum þar sem
þú getur leikið íþróttina allt árið. Hvernig
hefur þetta gengið hjá þér?
„Ég hef bætt mig mikið í stutta spilinu og
púttum. Ég hef alltaf verið slök í því að lesa
flatir en þjálfarinn minn ytra hefur aðstoðað
mig í þeim þætti sem og í stutta spilinu en
Brynjar Geirsson, þjálfarinn minn hér heima
hefur hjálpað mér með sveifluna. Það er ekki
svo flókið. Hann skoðar bara video og sendir
mér athugasemdir í tölvupósti. Fjarþjálfun frá
Reykjavík, Íslandi.“
Hvernig er tilfinningin að mæta ári síðar og
verja titilinn?
„Hún er fín. Þetta er nýtt mót á öðrum velli.
Ég tel mig ekki hafa mikið forskot þó ég hafi
unnið í fyrra en það er auðvitað kostur að
hafa unnið titilinn áður. Reynslan skiptir
máli og þá hef ég leikið vel það sem af er
sumri og landað tveimur sigrum. Ég reyni að
mæta afslöppuð til leiks með það hugarfar að
það er alltaf erfitt að verja titilinn sem þó er
auðvitað markmiðið. Það er engin spurning.
Fyrir mótið í fyrra setti ég of mikla pressu á
mig og þegar ég fjórpúttaði 3. flötina í fyrsta
hring lenti ég í vandræðum og skilaði mjög
slökum fyrsta hring. Ég náði þó að vinna mig
inn í mótið aftur. Það má ekki gleyma því
að það er 72 holur og þó maður geri slæm
mistök þá þarf það ekki að þýða að mótið sé
búið. Maður verður að halda áfram. Veðrið
spilar helling inn í líka. Ef það er ekki gott þá
eru meiri líkur á meiri sveiflum.“
Halda boltanum í leik
Hvaða tilfinningu hefurðu fyrir Leirdalsvelli?
„Hann leggst ágætlega í mig. Það skiptir
miklu máli að halda boltanum í leik, slá beint
af teig og eins að hitta flatir. Það er erfiðara
á þessum velli að bjarga pari með vippi eða
stuttu innáhöggi og einpútti. Flatirnar eru
flestar ekki stórar og svo eru þær kúptar og
ýta boltanum út af ef höggið er ónákvæmt. Ég
held að þetta muni skipta mestu máli í þessu
móti, nákvæmni en ekki mesta högglengd.“
Hvað með framtíðina. Ertu með atvinnu-
mennskudrauma?
„Ég á tvö ár eftir í háskólanámi í Elon Uni-
veristy í Norður-Karólínu en þar stunda ég
nám við fjármála- og tölfræði. Ég mun vinna
af krafti að bæta mig í golfi og að þessum
tveimur árum loknum ætla ég að meta hversu
raunhæfur kostur það verður að fara út í
atvinnumennsku. Ef vel gengur þá tel ég mig
eiga góða möguleika að fara þann veg“.
Ég kann vel við mig í Norður-Karólínu enda
ekki annað hægt. Ég hef verið með fast sæti í
liðinu en við keppum í fyrstu deild. Liðið er
alltaf að styrkjast en við erum að fá stelpu frá
Skotlandi í haust, auk þess sem Gunnhildur
Kristjánsdóttir úr GKG kemur inn í liðið svo
það verður gaman hjá okkur Íslendingunum,“
sagði Sunna Víðisdóttir.
„Ég mun vinna af krafti að bæta mig í golfi og að
þessum tveimur árum loknum ætla ég að meta
hversu raunhæfur kostur það verður að fara út í
atvinnumennsku.“
Sunna púttar í umspilinu á
Íslandsmótinu á Korpu í fyrra.
Sunna, Ólafía og
Guðrún við 10. teig
rétt fyrir umspilið.
Sunna í glompu á
Hamarsvelli þar sem
hún tryggði sér sigur
á Símamótinu á Eim-
skipsmótaröðinni í vor.
Saman finnum
við lausnir svo
þú skarir fram úr
Í rekstri skiptir miklu máli að hafa forgangsröðunina
í lagi og hugrekki til að fara nýjar leiðir er byggja á
þekkingu á aðstæðum hverju sinni.
Kynntu þér þjónustuframboð KPMG á vefsíðu
félagsins eða hafðu samband í síma 545 6000
og við verðum þér innan handar.
kpmg.is