Golf á Íslandi - 01.05.2015, Blaðsíða 102
Golf á Ísland fékk þrjá vel valda golfsérfræðinga til þess að velta fyrir sér þeim áhrifum sem sigur Jordan Spieth
á Masters gæti haft á golfíþróttina. Spurningar voru tvær. Í fyrsta lagi: Er Jordan Spieth með hæfileika til þess að
verða næsti Tiger Woods eða Rory McIlroy golfsins? Í öðru lagi: Hversu mikilvægur er sigur hans fyrir „ímynd”
golfíþróttarinnar og þá sérstaklega í Bandaríkjunum?
„Ró og yfirvegun einkennir Spieth”
1. „Ég ætla ekki að ganga svo langt á þessum tímapunkti að spá
Spieth álíka velgengni og þeirri sem Tiger hefur notið. En ef miðað
er við hvar Spieth er staddur tæplega 22 ára þá virðast honum allir
vegir færir. Yfir Spieth virðist vera einhver ró sem menn þurfa að
hafa þegar mikið er undir. Forvitnilegt verður að sjá hvernig honum
tekst upp í framhaldinu því risamótin kalla á ólíka spilamennsku.
Opna bandaríska er hálfgert varnargolf og Opna breska er „links”
golf. Gaman verður að sjá hversu fjölhæfur Spieth er en ljóst er
að hann er alla vega mjög stöðugur á PGA-mótaröðinni. Eins er
augljóst að Augusta National virðist vera sniðinn fyrir hann og
Spieth mun vinna Masters oftar en einu sinni. Það er ég viss um.”
2. „Uppgangur Spieth gæti varla komið á betri tíma fyrir golf í
Bandaríkjunum í ljósi þess að Tiger Woods er farinn að gefa eftir
og Phil Mickelson að eldast. Bandaríkjamenn þurfa hetju sem getur
keppt við Rory McIlroy. Með afgerandi sigri á Masters er Jordan
Spieth strax kominn á sérstakan stall og væntingarnar til hans verða
ábyggilega gríðarlegar í framhaldinu.”
Kristján Jónsson, íþróttafréttamaður
á Morgunblaðinu
„Spieth er bandaríski draumurinn”
1. „Jordan Spieth er ekki næsti Tiger Woods, það verður enginn
eins og hann. Jordan Spieth er stórkostlegur kylfingur og á örugglega
eftir að vinna mörg risamót. Tiger Woods breytti íþróttinni þegar
hann kom fram á sjónarsviðið og setti ný viðmið. Það sem er líkt
með þeim tveimur er einna helst geislandi sjálfstraust og brennandi
ástríða fyrir leiknum.”
2. „Jordan Spieth (sem skírður var í höfuðið á Michael Jordan) er
frábær fyrirmynd og styrkir tvímælalaust ímynd golfsins enn frekar.
Það er magnað að fylgjast með hversu þroskaður hann er á velli og í
viðtölum. Hann er „bandaríski draumurinn“, kemur vel fyrir, á góða
að og hugsar vel um sína nánustu og sinnir góðgerðarmálum vel. Á
vellinum er hann gríðarlega harður keppnismaður.”
- Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari og
sexfaldur Íslandsmeistari í golfi
„Golfið gæti náð nýjum hæðum”
1. „Það er erfitt að bera saman kylfinga og þá sérstaklega að miða
þá við Tiger Woods sem hefur gert hvað mest fyrir golfíþróttina af
öllum kylfingum. Jordan Spieth hefur sýnt mikinn þroska miðað við
aldur, líkt og Tiger Woods og Rory McIlroy gerðu á sínum tíma. Það
einkennir þá alla og er hvað helst líkt með þeim. Spieth hefur sýnt
í þeim viðtölum sem hann hefur farið í að hann er jarðbundinn og
meðvitaður um hve heppinn hann er - og með gott fólk í kringum
sig. Að mínu mati á hann eftir að ná efsta sæti heimslistans
fljótlega.”
2. „Sigur hans er gríðarlega mikilvægur fyrir golfið í Bandaríkjunum.
Leitin að eftirmanni Tiger Woods og Phil Mickelson hefur staðið
lengi yfir. Ég vona að hann fái „vinnufrið” frá fjölmiðlum og geti
einbeitt sér að sínum markmiðum. Það er mín von að við fáum
„einvígi” á milli Jordan Spieth og Rory McIlroy til lengri tíma litið -
og það væri enn betra ef Tiger Woods næði góðum árum á næstunni
og gerði atlögu að risamótsmeti Jack Nicklaus. Þá myndi golfíþróttin
ná nýjum hæðum.”
- Birgir Leifur Hafþórsson,
sexfaldur Íslandsmeistari í golfi.
Lægstu heildarskorin á Masters frá upphafi:
Nafn Ár Heildarskor Högg undir pari
Jordan Spieth 2015 270 -18
Tiger Woods 1997 270 -18
Raymond Floyd 1976 271 -17
Jack Nicklaus 1965 271 -17
Phil Mickelson 2010 272 -16
Tiger Woods 2001 272 -16
Hvaða þýðingu hefur sigur
Spieth fyrir golfið?
102 GOLF.IS - Golf á Íslandi
Spieth sýndi styrk sinn