Helgarpósturinn - 06.02.1986, Blaðsíða 21

Helgarpósturinn - 06.02.1986, Blaðsíða 21
ÐLINU AÐ LflTfl TEMJA SIG ■■■■■■■^■■^^■■■■■^^^^■■■■■■■■^^■■■■■■■■■■■■■■■■■■^■^^^^■MBBi^^^MBBBllMBBMMiMBeftir Jóhönnu Sveinsdóttur mynd Jim Smart )BSDÓTTIR RITHÖFUNDUR í HP-VIÐTALI vegna fólk sem telur sig vera unnendur bók- mennta skuli vilja klæðast slíku gerfi umferðar- lögreglu. Það ræðst af tímanum, þeim margvís- legu þáttum sem hann er ofinn úr, þar á meðal bókmenntahefðinni og persónuleika skáldsins hvenær nýjungar koma fram. Sú krafa að rithöf- undar skipti um stíl á tíu ára fresti er út í hött. Barátta Jónasar Hallgrímssonar var gegn lág- menningu — það er allt annað mál. Nú eru menn að berjast gegn nýraunsæinu. En þessi hrái raunsæisstíll, þar sem höfundar komast upp með að smíða listaverk sín með færri tækjum en þeim standa til boða, var mikið til kominn vegna þeirra kvaða um að svona skyldi skrifa. Það er eins og bókmenntafræðing- ar séu með utanborðsmótor. En listamaðurinn sem kemur með nýjungarnar er það ekki. Ork- an er hann sjálfur. Það þýðir ekki að segja hon- um að fá sér utanborðsmótor!" Karlmenn taka konur alltaf í bútum — Nú geröir þú uppreisn gegn bókmennta- heföinni á sínum tíma, ekki síst raunsœishefð- innisvokölluöu. „Ég varð að snúa svo mörgu við til að koma hlutunum á framfæri eins og mér fannst ég vita að þeir væru. Einkum voru það kvenlýsingar karlmanna sem ég átti erfitt með að sætta mig við. Þeir eru alltaf að yfirfæra (prójektera) sínar hugmyndir á konur þannig að þær verða goð- sögulegar verur fremur en manneskjur með ein- staklingseðli. Algengast er að þeir upphefji þær eða fyrirlíti. Þeir taka konuna alltaf í bútum, allt eftir því á hvaða sálfræðistigi þeir eru: gyðjan, hóran, móðir jörð . . . Fegurðardrottningarmálið er gott dæmi um þetta. í hlutverki sínu er þessi stúlka í raun ,,ab- strakt" tákn, persónugervingur hugmyndarinn- ar um Meyjuna. Það eru reyndar ekki nema nokkur ár síðan slakað var á kröfunum um „virgo intacta" — hina ósnertu meyju í svona fegurðarsamkeppni — núna er fegurðardrottn- ingum leyft að vera giftum eða a.m.k. lofuðum. Tímarnir heimta þessa tilslökun en í raun er þessi erkitýpa enn svo sterk að það er hægt að græða peninga á henni. Þetta eru leifar af fornri meyjardýrkun. Kirkjufeður gáfu m.a.s. Maríu, margra barna móður viðurnefnið ,,mey“. Hversu langt frá veruleikanum getur hin karl- mannalega ,,rök“hugsun komist?" — Teluröu jafnréttisbaráttuna hérlendis á villigötum? „Ég held a.m.k. að það sé rangt að konur séu sér í flokki. Karlmenn hafa áður reynt slíka að- skilnaðarstefnu og hún hefur gefist illa. Slík stefna heftir þroska hins kynsins. Ég man þá tíð að selskapur skiptist eftir kynjum. Talið var að ekki væri hægt að finna neitt umræðuefni sem bæði kynin hefðu áhuga á. I þessu sambandi held ég að allir ættu að velta fyrir sér eftirfar- andi spurningu: Hvað er það í fari mínu sem kúgar aðra? Það vekur mér mikla furðu að illa skuli vera talað um kvennabókmenntir í bókmenntaheim- inum. Þarna vantar einhverja hvöt til að læra. í staðinn fyrir að stúdera með opnum hug hvað konur eru að gera, ber á ótta við breytingar —■ íhaldssemi — hræðslu við að sleppa gömlum hugmyndum og tileinka sér nýjar. Það er einmitt í listum sem einhver von er til þess að manni opnist skilningur í víðri merkingu — á því sem maður hefur ekki áður haft — ef vel er horft og lesið. Ef einhver finnur hjá sér hvöt til aðskilnaðar á hann að velta fyrir sér hvort eitthvað sé að hjá honum sjálfum. Ég er hrædd um að öll aðskiln- aðarstefna í kvennabaráttu ýti undir fordóma.” Þó að Svava hafi óskað þess að tala mest- megnis um síðastliðin ár í þessu viðtali er óhjá- kvæmilegt að spyrja hana ögn út í þingsetu hennar sem þingmanns Alþýðubandalagsins á árunum 71—79. „Þegar ég ákvað að fara í framboð með þing- sæti fyrir augum hafði ég enga hugmynd um að þetta væri starf sem krefðist allrar minnar orku árið um kring. Ég var varla heima hjá mér eitt einasta kvöld eða helgi. Fyrir utan þingstörfin þurfti svo að sinna almennu flokksstarfi. Það litla sem ég gat skrifað á þessum árum var gert á örskömmum tíma. Sú hugarorka sem fer í stjórnmálin er eins öndverð skáldskapnum og hugsast getur. Maður var ævinlega sundurtætt- ur á milli margra málaflokka í dagsins önn og til að skrifa skáldskap þarf hugarró. Því var þetta ósamræmanlegt." — Sérðu eftir þessari átta ára þingsetu? „Nei. Ég held ég muni aldrei sjá eftir henni. Ég hafði einlæga löngun til að vinna að þeim mál- um sem minn flokkur stóð fyrir. Hefði ég ekki farið á þing er svo sem ómögulegt að vita hvað ég hefði gert. Ég hef alltaf haft gaman af því að skipta um störf. En á þessum árum varð mér ljóst að minn grundvallareðlisþáttur eru skrift- irnar. Þær eru það eina sem ég gæti aldrei gefið upp á bátinn. Það er verst hvað þær eru illa borgaðar. Menn hrekjast alltaf út í annað." LÍN — stefna Sverris skap- gerðarbrestur — Voru karlmennirnir á þingi þyngri í skauti en þú hafðir átt von á? „Nei, ekki í heildina. En baráttan fyrir ýmsum stórmálum tók langan tíma. Það tók mig t.d. tvö ár að koma í gegn Jafnlaunaráði sem síðar varð Jafnréttisráð. Ég vildi þó hafa lögin afdráttar- lausari þannig að ráðið hefði dómsvöld til að skera úr ágreiningsmálum væru jafnlaunalögin brotin á konum. Á þessu tímabili fór minn flokkur í ríkisstjórn. Þá voru t.d. sett lög um að ríkið stæði að bygg- ingu og rekstri leikskóla og dagheimila sem stæðu öllum börnum til boða sem var mikil nýj- ung frá því sem verið hafði. I stjórnarsáttmálan- um var það gagngert tekið fram að unnið skyldi að jafnrétti kynjanna — áreiðanlega í fyrsta sinn í íslandssögunni. Það var ánægjulegt að hleypa af stokkunum Launasjóði rithöfunda. Um það leyti sem ég hætti þingmennsku var ég formað- ur menntamálanefndar. Barátta þessara ára los- aði um svo mörg höft. Þetta voru umbrotatímar sem gaman var að upplifa. En þar sem við vor- um fáar konur á þingi þá henti það lögregluþjón einu sinni að ætla að meina mér afnot af bíla- stæðum þingmanna .. — Hvernig finnst þér þá Sverrir Hermannsson standa sig sem menntamálaráðherra? Svava hugsar sig um og kveður svo upp dóm- inn: „Ýmislegt sem hann aðhefst finnst mér bera vott um skapgerðarbrest, einkanlega fyrirætl- anir hans varðandi Lánasjóð íslenskra náms- manna. Að fara fram á sömu vexti og á venjuleg- um bankalánum jafngildir því að leggja sjóðinn niður sem það menningarlega og félagslega tæki sem hann á að vera. Hvað verður þá um jafnrétti til náms? Námslánin í því horfi sem þau eru núna eiga t.d. ekki svo lítinn þátt í því að konur geta aflað sér menntunar. Áður fyrr vann konan fyrir manninum meðan hann var við nám. Ég held að fáir hafi verið ánægðir með það kerfi.“ En þar sem ófært er að spandera svo og svo miklu plássi á embættisstörf Sverris Hermanns- sonar í hverju opnuviðtalinu á eftir öðru söðla ég um og spyr Svövu um það sem leitar á flestar manneskjur fyrr eða síðar — eða stöðugt — frelsið og öryggið sem hún hefur fjallað svo mik- ið um í sögum sínum. — Einhvern tímann tókstu svo til orða að frelsi og öryggi vœru í raun andstceöur. „Fyllsta öryggið er í því fólgið að láta einhvern annan bægja frá sér öllum hættum, láta jafnvel loka sig inni svo að engin hætta sé á að maður verði undir bíl... En ég held að sem betur fer búi frelsiskennd í hverjum og einum. Það að vera ábyrgur fyrir sjálfum sér og sínu lífi — því að lifa lífinu — felur alltaf í sér áhættu. Maður getur orðið fyrir hnjaski. Sorg og þjáning eru alltaf á næsta leiti. Spurningin er hvort við temjum okkur það hug- arfar að líta á það sem hluta af lífinu eða hvort við hliðrum okkur hjá öllum átökum og afsölum okkur ábyrgð um leið. Ég tel að allt forræði, hvort sem er á milli stétta eða kynja, sé af hinu illa. Það jafngildir annars vegar undanbrögðum frá ábyrgð, og hins vegar valdafíkn, sem sagt þroskaheftingu beggja aðila.“ Nú horfir Svava hálffeimnisleg í gaupnir sér og bætir við: „En nú er ég farin að hljóma eins og predikari eða sálfræðingur — og það er nú síst ætlunin . ..“ íslensk vinnuþrælkun úti- lokar allt mennskt — Lumarðu á einhverjum heilrœðum til alls þess fólks sem tekst á hendur hjónabönd eða sambúð? „Svei mér þá,“ segir Svava brosandi. „Það er hættulegt að gefa ráð. Það er allt of mikið gert af því að gefa ráð sem gengið er út frá að henti öllum. En meðan það þykir sjálfsagt að líta á hjónaband eða sambúð sem einhverja höfn víðsfjarri úthafsöldum er ekki von að fólk geti bjargað sér í háska. Það verður að búa fólk undir að hver dagur getur verið ný þolraun og það sé þá leyfilegt að tala um það, að það sé ekki litið á erfiðleikana sem ósigur. Það er ekkert skamm- arlegt að ráða ekki við öll vandamál, það er ofur eðlilegt. Menn þurfa að gera sér grein fyrir hvaða vandamál fylgja lífinu óhjákvæmilega og hvaða vandamál við sköpum okkur sjálf. En vinnuþrælkunin hér heima kemur í veg fyrir allt sem kalla má mennskt. Það er illt til þess að vita að vinnufært fólk skuli varla geta keypt í matinn án þessa þrældóms. Mér finnst að við getum varla kallað okkur menningarþjóð þegar ég hugsa um vinnuþrælkunina og hvernig búið er að börnum og gamalmennum. í tóm- stundum sínum er fólk hér svo þreytt að það er til lítils annars megnugt en að hanga eins og kartöflupokar í stól.“ — Að hverju ertu svo að vinna um þessar mundir? „Prósa. En ég er haldin þeirri hjátrú að segja ekki frá verkum mínum opinberlega fyrr en þau eru fullfrágengin. En þetta er verk sem ég hef lagt æði mikla vinnu í undanfarin ár, í og með öðru.“ — Trufla heimilisstörfin þig mikið? „Ég hef ekkert yndi af þeim,“ segir Svava graf- alvarleg. „Það sem mér finnst minnst leiðinlegt er að elda mat og baka. Ég get eldað mat en ef mér væri boðinn frjáls tími færi ég aldrei í eld- húsið eða önnur húsverk. En maður gerir þetta svo sem. Ég mótmæli því samt að húsverkin séu það æðsta og göfugasta sem nokkur kona getur gert, þótt mér detti ekki í hug að fyrirlíta konur sem hafa gaman af slíku." — Hvað gerirðu fleira í frjálsa tímanum? „Ég les ...“ Og síðan lætur Svava greinilega hugann reika, sem kallað er, og svo sem ekki í fyrsta sinn í þessu viðtali. En þögnin er aldrei þrúgandi. Ég horfi á hýasintu sem virðist jafnlú- in og fingurnir á mér. Svo tekur Svava aftur til máls: „Og þegar maður er með lítið barn lætur mað- ur það ganga fyrir, og ekki með hangandi hendi. En það eru ekki störfin í kringum barnið sem gefa lífinu gildi heldur það að kynnast barninu sjálfu, vera samvistum við það. Það verður alltaf kraftaverk í mínum augum að ég skuli eiga barn og barnabarn, — ég tengi það ekki neinum störf- um.“ — Hvað kemur fyrst upp í hugann á þessari stundu þegar þú hugsar aftur til þinna eigin bernskuára? Þögn sem nægir til að virða fyrir sér síðbúinn jólasvein á borði. „Andstæður í landslagi,” segir Svava. „Ég man fyrst eftir mér á sléttunum í vesturríkjum Kanada — óendanlegri víðáttu — og svo fluttum við hingað í öll þessi fjöll. — Ég kann svo vel við mig á hafinu. Þá grípur mig sama tilfinning og sú sem ég varð að skilja eftir vestra: sléttur flöt- ur, allur himinninn yfir, ekkert sem rýfur sjónlín- una. Það er eins og að vera í kosmísku eggi. Kannski myndi einhver segja að bernskuþrá mín væri sú að hafa aldrei fæðst?“ segir hún hlæjandi. í framhaldi af þessu ber hamingjuna á góma. „Meðan maður er ekki heillum horfinn hlýtur einhver hamingja að fylgja manni. Svarið við þeirri spurningu hvort maður sé hamingjusamur hlýtur að vera komið undir við- horfum hvers og eins. Sumir hafa t.d. orðið fyrir miklum áföllum en telja sig samt hamingju- sama.“ „Svava er ekkert frek" Nú er textinn orðinn temmilega langur en ég naga pennann og spyr Svövu hvort ég eigi að dirfast að biðja hana að lýsa skapgerð sinni. „Æ, þetta var erfið spurning. Ég veit varla hvernig ég er skapi farin og það svar lýsir kannski skapgerðinni dálítið. Eg man að systir mín sagði eitt sinn mér til varnar þegar við vor- um ungar að Svava væri ekkert frek, hún reidd- ist ekki nema hún væri reitt til reiði. Þetta þýðir líklega að ég sé óáreitin, en þurfi að temja mér stillingu. Ég held að ég sé frekar róleg að eðlisfari. En svo gæti ég líka sagst vera haldin öllum þeim skapgerðargöllum sem allir aðrir eru haldnir, að ég sé ráðrík og allt það. Það er bara svo mikið erfiði að stjórna öllum alheiminum að ég er að reyna að losa mig við það,“ segir hún hlæjandi. — Trúirðu t.d. á stjörnuspeki?_ „Ég hef lítið kynnt mér hana. í henni felst viss fatalismi en ég tel aftur á móti að hver maður geti breytt sér ef hann leggur í það einhverja vinnu." — Fannst þér að þú þyrftir að breyta þér til að komast yfir svo og svo margar hindranir þegar þú ákvaðst að gerast rithöfundur? „Vitanlega. Það þarf visst sjálfstraust til. En í raun þarf maður það á hverjum degi við ritvél- ina, með hverju nýju blaði. Manni þarf að finnast að maður eigi að reyna, þó það sé mikið púl og erfiði. Þegar ég fæst við skriftir eru ákveðnir andleg- ir og líkamlegir kraftar í gangi. Og eins og aðrir rithöfundar verð ég að krefjast þess að mínir nánustu taki þetta alvarlega því heimilið er manns vinnustaður." — Vaknarðu stundum upp í svefni eöa vöku við það að undirmeðvitundin hefur leyst ein- hverja þrœöi sem ekki gengu upp? „Já, það gerist ekkert frekar á morgnana. Ég hef það fyrir reglu að setjast beint niður við skrifborðið eftir að ég hef drukkið morgunkaff- ið. Síðan kemur að því að ég þarf að fá mér göngutúr um húsið. Þá get ég búið um og unnið ýmis störf sjálfkrafa. En þá er það fremur til- breyting en verkkvöð, og hugurinn er á sínum stað. Ef ég aftur á móti þarf að byrja daginn á því að taka ákvörðun um eitthvað annað eða verð fyrir truflun get ég fengið eins konar lost, því að skriftirnar eru eins og organísk framvinda sem verður að fara hringrás um allan líkamann ...“ Mál að linni og vonandi hefur viðtalið ekki truflað um of framvindu prósans sem kemur fyr- ir almennings sjónir innan tíðar — og byltir. Án efa.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.