Helgarpósturinn - 06.11.1986, Blaðsíða 20

Helgarpósturinn - 06.11.1986, Blaðsíða 20
Sigrún Eldjárn myndlistarmaður og barnabókahöfundur í HP-viðtali UNDIR ÁHRIFUM FRÁ GÖMLUM LJÓSMYNDUM Sigrún Eldjárn myndlistarmaöur á heima við Laufásveginn í Reykjavík, en heldur gekk mér illa að finna húsið. Ég hafði bitið það í mig að Sigrún hlyti að búa í timburhúsi og datt ekki einu sinni í hug að líta á númerið á gráa steinhúsinu, sem síðan reyndist vera staðurinn sem ég leitaði að. Það var bara einhvern veginn ekkert „Sigrúnarlegt", svona dökkt og líflaust. Þetta var hins vegar rétta húsið, hvort sem mér fannst það hæfa íbúunum eður ei, og fyrr en varði hafði Sigrún Eldjárn lokið upp útidyra- hurðinni og vísað mér til stofu með þeim orðum að allt væri á öðrum endanum. Það átti að fara að leggja gólf, eins og hún komst að orði. Við komum okkur fyrir í stofunni, þar sem hlutirnir voru vissulega á rúi og stúi; staflar af parkettflísum í einu horninu, búið að tæma litla garðstofu vegna steinflísalagningar og annað eftir því. Á veggjunum héngu grafíkmyndir, hver annarri fallegri. Ein var eftir Sigrúnu sjálfa, ein eftir annan íslenskan listamann, en hinar eft- ir útlendinga. Þegar ég hafði virt myndirnar fyr- ir mér um stund, ákvað ég að byrja á því að tala um listina, atvinnu Sigrúnar. Mig grunaði að hún væri feimin og ætti auðveldara með að tjá sig um myndlist en margt annað. Var hún að undir- búa sýningu þessa stundina? „Grafíklistamönnum gefst oft tækifæri til að taka þátt í sýningum bæði alþjóðlegum og inn- lendum og oftast á ég myndir einhvers staðar á sýningu." — Fylgir þvt ekki töluverð fjárhagsleg áhœtta ad ráðast í það að halda myndlistarsýningu? „Jú, það getur verið svolítið dýrt. Maður þarf að borga fyrir salinn, fyrir prentun og útsend- ingu á boðskortum og fyrir innrömmun á mynd- um, án þess að vita nokkuð um hvort eitthvað selst." — Kemur fólk einhvern tímann heim til þín til þess að fá að líta á myndir? „Já, það kemur fyrir, en ég er líka með myndir í umboðssölu hjá Gallerí Borg og fólki finnst nú oftast þægilegra að fara bara þangað. Það getur verið miklu betra að hafa einhvern hlutlausan stað sem millilið — bæði fyrir listamanninn og kaupendurna. Annars finnst mér sjálfsagt að fólk komi og líti á myndirnar mínar, þó það kaupi ekki neitt. Þeim sem í hlut eiga, finnst það þó ef til vill eitthvað pínlegt." — Nú ert þú aðallega í grafík, Sigrún. Hvað þrykkirðu myndirnar í mörgum eintökum? „Ég geri oftast 25—30 myndir." — Eyðileggurðu síðan plöturnar? „Maður á víst að gera það, já, en ég hef ekki enn fengið mig til þess. Koparplöturnar, sem ég vinn mezzotintumyndirnar á, eru líka sjálfar svo fallegar. Ég tími eiginlega ekki að eyðileggja þær.“ FLÍNK í „PLAYMO" — Nú vinnur þú sem myndlistarmaður og átt jafnframt tvö börn. Hvernig nœði hefurðu til aö vinna? „Stelpan mín, hún Eyrún, er 11 ára og er auð- vitað í skóla, eins og lög gera ráð fyrir. Strákur- inn, Grímur, er 4 ára og er á leikskóla á morgn- ana, en þar sem við hjónin höfum bæði vinnu- aðstöðu hérna í kjallaranum gengur þetta nokk- uð vel upp. Ég er orðin ansi flínk í því að vera í „playmo" eða legoleik á meðan ég vinn. Þetta er hægt með því að ég tala fyrir ákveðna karla í leiknum, en Grímur sér um að hreyfa þá til. Hann annast sem sagt mannganginn og þannig get ég tekið þátt í leiknum með honum og unnið á meðan." — Þú sagðir að maðurinn þinn hefði einnig vinnustofu hér heima. Er hann líka i myndlist? „Nei, hann heitir Hjörleifur Stefánsson og er arkitekt." — Sigrún, ég er ein þeirra sem heilluðust gjör- samlega af honum Kuggi, myndasögupersón- unni sem þú skapaðir fyrir barnatíma sjón- varpsins ísumar. Fœr maður að sjá hann á bók? Það bar ekki á öðru en listakonan færi hjá sér við hrósið og yrði örlítið vandræðaleg. Ég hafði það sterklega á tilfinningunni að ef spurning- arnar yrðu of persónulegar, myndi hún hrein- lega gufa upp, eða standa á fætur og segjast hætt við allt saman. „Það er ekki ákveðið hvort sögurnar um Kugg og þau hin verða nokkurn tímann gefnar út á bók. Utgefendur hugsa sig fimm sinnum um áð- ur en þeir gefa út litprentaðar barnabækur. Það er dýrt að litgreina og upplagið lítið, þannig að hvert eintak verður miklu dýrara í framleiðslu en þýddar, innfluttar bækur." — Hvaö urðu myndirnar margar við sögurnar um Kugg? „Þættirnir voru tíu og það voru 30—40 mynd- ir í hverjum þeirra. Ég vann mér þetta hins veg- ar eins Iétt og mögulegt var, til þess að vinnan borgaði sig fjárhagslega, og gerði myndirnar í nokkurs konar færibandavinnu. Fyrst teiknaði ég allar myndir í hvern þátt, síðan setti ég gula litinn í þær allar, síðan þann bláa og þannig koll af kolli. Þá varð þetta tiltölulega fljótunnið." SÖGUPERSÓNURNAR TAKA VÖLDIN — Nú samdir þú einnig söguna. Var hún full- gerð, þegar þú hófst að teikna? „Ég var nokkurn veginn búin að ákveða sögu- þráðinn. Ég byrja alltaf á því að skapa persón- urnar og sé síðan á þeim hvað þær vilja taka sér fyrir hendur. Það er svolítið merkilegt, að það kemur mjög gjarnan fyrir gamalt fólk í barnasögunum mín- um, sérstaklega gamlar konur. Ég hef gefið út fjórar sögur og það er gamalt fólk í þeim öllum." — Hver er ástæðan? „Þetta er mér næstum ósjálfrátt. Mér finnst gaman að tefla saman krökkum og gömlu fólki, en ég er kannski líka að þessu til að vekja athygli barna á gamla fólkinu og því, sem það getur haft fram að færa." — Er von á nýrri barnabók frá þér á nœst- unni? „Já, reyndar. Það er nýútkomin bók eftir mig hjá Forlaginu um alveg splunkunýja söguhetju. Hún heitir Bétveir. Þetta er eitthvert kvikindi frá ónafngreindri stjörnu. Ætli það gæti þarna ekki áhrifa frá syni mínum?" — Á Grímur kannski þessi alrœmdu HE-MAN leikföng? leftir Jónínu Leósdóttur mynd Jim Smart „Nei, þau hefur hann ekki fengið og það finnst mér ógeðsleg leikföng. Bétveir er af öðru sauða- húsi." — Ertu í mjög mismunandi stellingum, eftir því hvort þú ert að gera myndir fyrir börn eða fullorðna? „Allar mínar myndir eru bæði fyrir börn og fullorðna, en það er tvennt ólíkt að gera mynd- skreytingar í bók eða myndlist, sem ætluð er til að hanga á vegg eða að hennar sé notið á sam- bærilegan hátt. Myndlist er atvinna mín og hana tek ég mun alvarlegar. Ég er myndlistar- maður og vil fyrst og fremst vinna að grafík og teikningu, en myndskreytingar geri ég frekar til þess að vinna fyrir saltinu í grautinn. Þetta er þó ágætt svona í bland og mér finnst mjög gaman að teikna í góðar bækur, að ég nú ekki tali um ef ég hef skrifað þær sjálf." MEZZOTINTUR — Þú gerir aðallega svokallaðar mezzotintur. Geturðu útskýrt þá grafíkaðferð fyrir leik- manni? „Það er nú svolítið flókið að útskýra það með orðum, en í sem stystu máli þá gerist þetta þann- ig að ég ýfi upp koparplötu með sérstöku smá- tenntu verkfæri. Þegar því er lokið, er myndin unnin með því að slípa niður það sem ég áður ýfði upp, mest þar sem á að vera ljósast, minna í gráum tónum og ekkert þar sem á að vera svart. Síðan er sverta borin á og þurrkuð af. Hún situr eftir í því sem er enn hrjúft, en þurrkast mismikið burt þar sem slípað var. Svo er pappír lagður yfir plötuna, öllu rúllað gegnum grafík- pressu og bing: Myndin tilbúin. Ósköp einfalt. Ég kynntist þessari aðferð úti í Póllandi árið 1978, þegar ég dvaldist þar í tvo mánuði eftir að hafa fengið styrk úr Menningarsjóði. Ég var ekk- ert farin að huga að skólum, þegar menn í pólska sendiráðinu höfðu samband við mig að fyrra bragði. Þeir höfðu séð tilkynningu um styrkveitinguna í blöðunum og voru mjög áhugasamir um að aðstoða mig, svo ég jét þá ráða því að mestu hvert ég fór í Póllandi. Ég var í einn mánuð í Varsjá og einn mánuð í Kraká. Hugsanlega hefði ég verið lengur, ef stelpan mín hefði ekki verið það lítil að ég vildi ekki vera lengi burtu. En fyrir vikið var tíminn mér óskap- lega dýrmætur og ég nýtti hann eins vel og mér var unnt. Þarna lærði ég sem sagt mezzotintuaðferð- ina, en hún hefur ekki verið kennd hér á íslandi að ráði. Ég hef kennt hana eina önn í Myndlista- og handíðaskólanum og nú í ár kom hingað pólskur gestakennari í þessari grein. Ég vinn grafík nær eingöngu með þessari aðferð og hún er orðin mér svo töm að tæknin er hætt að skipta mig máli. Myndin sjálf skiptir öllu máli." Nú fannst mér reynandi að fara út í persónu- legri sálma og spurði Sigrúnu hvort haft hefði verið samráð við þau systkinin, þegar Kristján faðir þeirra ákvað að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. „Ég man nú ekki til þess að hafa verið spurð," sagði hún og hörfaði eitt skref inn í skelina. VERST AÐ FLYTJA ÚR BÆNUM — Hvernig var aö verða forsetadóttir á einni nóttu? „Mér fannst þetta auðvitað svolítið skrítið, en það var sameiginleg stefna fjölskyldunnar að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir þessa breytingu. Ég, sem var þá unglingur, átti verst með að sætta mig við að flytja úr Reykjavík; var alls ekkert hrifin af því. Það var mesta breyting- in held ég. Eins má vel vera að viðhorf fólks til manns hafi breyst eitthvað við þetta. En eins og ég sagði; það var reynt að láta þetta hafa sem minnst áhrif á fjölskyldulífið." — Nú voruð þið María Thoroddsen bekkjar- systur þegar feðurykkar börðust um forsetastól- inn. Var þaö erfitt? „Nei, við létum það ekkert trufla okkur." — Varstu fegin þegar pabbi þinn hœtti sem forseti? „Já, ég var fegin vegna þess að nú vissi ég að hann myndi fá tíma til að skrifa og vinna að öllu því, sem hann átti eftir að gera. Því miður varð sá tími allt of stuttur." Uppi í bókahillu sé ég bækur eftir Deu Trier Mörk, sem Ólöf, systir Sigrúnar, hefur þýtt úr dönsku. Þær verða tilefni frekari umræðna um myndskreytingar á bókum, þegar ég inni Sig- rúnu eftir því hvort hún hafi ef til vill teiknað myndirnar í þessar bækur. „Nei, Dea Trier Mörk gerir sjálf myndir í sínar bækur. Ég myndskreytti hins vegar bók í fyrsta sinn, þegar Þórarinn, bróðir minn, gaf út sína fyrstu ljóðabók. Mér finnst alltof lítið um það að bækur fyrir fullorðna séu myndskreyttar. Það mætti gera meira af því." — Ég hef líka séð myndskreytingu eftir þig á plötuumslagi. „Já, það var á rauðsokkutímabilinu. Þá mynd- skreytti ég umslagið utan um plötuna Afram stelpur, sem gefin var út í kringum kvennafrí- daginn 1975." ÁHRIF FRÁ GÖMLUM LJÓSMYNDUM — Starfaðir þú mikið í rauðsokkufélagsskapn- um?r „Ég var lítillega viðloðandi í Sokkholti á Skólavörðustígnum, en það var ekki mikið. Ég er mjög lítil félagskona, svo ekki sé meira sagt.“ — Þú stofnaðir samt Langbrók með nokkrum öðrum ágœtum konum á stnum tíma — ekki satt? „Það er mikið rétt. Þetta hófst með því að nokkrar textílkonur rottuðu sig saman, vegna þess að þær vantaði stað til að sýna á. Við Kol- brún Björgólfs, leirlistakona, slógumst í hópinn og þannig byrjaði þetta árið 1978. Við urðum hins vegar að hætta í fyrra. Leigan átti að verða hærri en við gátum ráðið við." — Unnuð þið mikið sjálfar í Gallerí Langbrók? „Húsnæðið á Bernhöftstorfu var nú eins og brunarúst, þegar við tókum við því, og við þurft- um að byrja á því að moka þar út. Við lögðum ýmislegt á okkur, borguðum t.d. sem svaraði fimm ára leigu á fyrsta hálfa árinu og það fé var notað til að setja húsnæðið í stand. Síðan skiptumst við Langbrækurnar á um að vera á vakt í galleríinu. Þetta var gott tímabil og kom þar að auki á mjög heppilegum tíma fyrir mig, veturinn eftir að ég útskrifaðist úr myndlistarnámi. Þarna fékk ég ágæta aðstöðu til að koma myndunum mín-

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.