Helgarpósturinn - 30.12.1986, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 30.12.1986, Blaðsíða 2
ÚRJÓNSBÓK .. það gjörvallt er runnið á eilífðarbraut...“ eftir Jón Örn JÖN ÓSKAR Á þanskriði daganna ert þú, sjálf nýárs- nótt, áning í tímanum. Ég ætla að drekka minni lífsins, þess sem er að baki og ég hef sólundað og hins sem bíður mín að morgni þegar ég birtist upp úr skálinni eins og þang- blaut steinkurta á útfiri. Hafkona, helltu í glasið fullt! Afglöpin eru svo stór og lífið svo dýrkeypt framundan. Ég ætla að lyfta bikarnum og láta ísinn slá tóna úr glerinu. Spyr þú aldrei hverjum klakinn glymur; hann glymur þér. Skál! þú sem veitir og veldur mér klökkva! Skál! liðnu dagar. Skál! rafmagn og örbylgja. Skál! frelsi og fjötur. Skál! lýðræði. Skál! poppæði. Skál fyrir upplýsing og miðlunar- blindu. En slökkvið á tækjunum samt; látið þögn- ina bregða birtu á myrkrið svo að ég sjái mína nýársnótt eins og glitrandi hjarn. Lofið mér að hlusta á fjöllin, fjöllin í þráðlausri sendingu um eilífð, og drekkum svo skál fjall- anna. Þau þurfa einungis himin til að hljóma á móti nöfum sínum. Ykkar skál! Og þína skál, kona! Og svo fáum við okkur meira. Helltu aftur í glasið barmafullt. Hér æjum við með tíman- um, á nýársnótt, og höldum svo áfram í slag- togi með honum síðdegis á morgun. Þetta var gott ár fyrir okurkarla. Hæstirétt- ur svipti þá glæpnum. Hvernig ætli líði þeim mönnum, sem hafa gengið með afbrot og fætt með þjáningum afbrot í heiminn og standa svo allt í einu frammi fyrir samvisku sinni eftir að hafa misst þetta afbrot yfir til seðlabankans? Sjálfum líður mér illa innvort- is. Ég spyr dómsyfirvöld: hafði ég þessa menn fyrir rangri sök? Sagt er að hinum megin við götuna á móti hæstarétti sé leik- hús sem liggi undir skemmdum og þær verði okkur dýrar. Jóhannes Nordal, qui tollis peccata mundi, drekkum minni réttlætis- gyðjunnar, bókstafsins sem blívur og hæstu lögleyfðra vaxta. Þetta var gott ár fyrir hina lægst launuðu'. Þeir eru nú með hærri lægstu laun en áður hafa þekkst. Heilagur Franz frá Assisí gekk út á meðal smáfuglanna og boðaði mikilvægi þess að menn yrðu ekki háðir veraldlegum gæðum frá vinnuveitendasambandinu, held- uTsettu þeir allt sitt traust á ríkisstjórnina og náðarmeðul hennar. Hann mælti: „Minn taxti er ekki af þessum heimi." Drekkum minni hinnar útdauðu vísitölufjölskyldu. Þetta var gott ár fyrir stórhuga athafna- menn, hvort sem þeir fóru á hausinn eða ekki, en tíðindalítið kannski fyrir þá sem urðu að verja einhverju af dýrmætum tíma sínum í fangaklefum. Hinir alheppnustu kjöguðu í keng undir ávöxtum iðju sinnar, keyptu flugfélög og olíufélög og stórverslanir og sýndu fram á hversu athafnir annarra eru tiltölulega lítils virði. Ég var einnig stórhuga á minn alþýðlega mælikvarða: ég keypti nýtt seðlaveski. Og ég svaraði spurningum konu minnar eins og sannur athafnamaður. Ég sagði: „Ég hef trú á þessu fyrirtæki." Síðan hef ég öðlast skilning á aðstæðum athafna- manna á nauðþurftalaunum. Ég lagði aleigu mína undir eins og þeir, þegar ég keypti seðlaveskið, og ég hef svör á reiðum höndum ef skattyfirvöld krefjast skýringar á slíkri fjárfestingu. Drekkum minni athafnamanna og skattskýrslunnar sem bíður okkar allra. Þetta var gott ár fyrir Alexander mikla. Honum tókst að sýna fram á hversu örlaga- ríkt það getur verið að miðla upplýsingum til þeirra sem málið varðar, einkanlega ef það eru réttar upplýsingar. Aðrir stjórnmála- menn unnu einnig stóra sigra, ekki einvörð- ungu á embættismönnum heldur einnig og sér í lagi hver á öðrum, og þeir báru gæfu til að standa vörð um sjálfa sig þegar harðast var að þeim sótt. Ég var farinn að efast um seiglu íslenskra stjórnmálamanna og leist sannast sagna ekki á blikuna þegar þeir skipuðu nefnd til þess að fletta ofan af stjórn- málamönnum í bönkum. Til allrar guðs lukku lögðu allir trúnað á skýrslu nefndar- innar nema þeir, sem ætluðu að komast að hinu sanna með hjálp hennar. Það jók mér bjartsýni á nýjan leik að verða vitni að hversu fimlega stjórnmálamönnum tókst að smeygja sér til hliðar við niðurstöður nefnd- arinnar. Drekkum minni stjórnmálamanna. Þetta var gott ár fyrir vin litla mannsins. Hann situr enn þar sem hann sat í ársbyrjun þrátt fyrir „heiðarlegar" tilraunir sessunauta til að stjaka honum út af bekknum. Kann svo að fara að stórir menn verði að gjörast litlir og sætta sig við fleira en fjárlagahalla. Drekkum minni vinar litla mannsins; hann mun aldrei bregðast þeim sem vantar hundraðkall. Þetta var gott ár fyrir Jón Baldvin. Flestir þeir, sem fram til þessa hafa borið lítið skyn- bragð á stjórnmál, eru orðnir sannfærðir um að hann sé góður stjórnmálamaður, og sagt er að hann sé sjálfur að komast á þessa skoð- un. Þeir sem hafa litla trú á stjórnmálakenn- ingum og umbótaloforðum stjórnmála- manna, hafa mikla trú á Jóni Baldvini enda hefur hann aldrei verið kenningum trúr og ber það ekki við í ræðum að lofa umbótum. Drekkum minni Jóns Baldvins; hann mun aldrei bregðast þeim sem vantar stjórnmála- flokk, ekki einu sinni þeim hugsjónamönn- um sem vantar kjördæmi líka. Þetta var gott ár fyrir Svavar Gestsson að því leyti að flokkur hans er ennþá til, þegar þessi minni eru drukkin. En játa verður að á árinu, sem brátt mun heyra til hinni sögulegu þróunarfortíð, hljóp svo mikil díalektík í flokk formannsins að ímynd hans varð áþekk formannsskeggi á vöngum. Drekkum þó minni formannsins og biðjum að Þjóðvilj- inn fari að hugsa eftir réttum línum. Og þetta var einnig gott ár fyrir endur, sér- staklega þær sem komu að sunnan með sól- skin í hjarta og settust að með lögvernd nátt- úruverndarráðs í námunda við flugvöll á Sauðárkróki og heyra þar með beint undir menntamálaráðherra. Því er nú spáð að þær muni raska valdajafnvægi á Norður-Atiants- hafi nema menntamálaráðherra haldi fast við þá fullyrðingu að þær séu ekkert merki- legri en aðrar endur og léleg íslenska atarna: „bra-bra“. Skagfirðingum mislíkaði þessi um- mæli menntamálaráðherra. Drekkum minni menntamálaráðherra og andanna sem hon- um fylgja og lúta hans forsjá og tala stundum í gegnum hann. Þetta var gott ár fyrir forsætisráðherra. Slíkt orð fór af honum eftir því sem á leið að Kínverjar buðu Honum til sín svo að þeir mættu berja augum þennan kjörgrip í fullri líkamsstærð. Hið eina, sem skyggir á góða framgöngu forsætisráðherra, er að hann tók strax þá ákvörðun að skipta sér ekki af leið- togaviðræðum Reagans og Gorbasjoffs enda fóru þær út um þúfur líkt og tilraunir til þess að koma veruleikanum heim og saman við úrslit í prófkjörsbaráttu framsóknarmanna. Drekkum samt minni forsætisráðherra. Og hugleiðum jafnframt í lokin ummæli forsætisráðherra, þegar hann var beðinn að segja eitthvað við þjóð sína að upplýstum skemmdarverkum á hvalbátum í Reykjavík- urhöfn. Þá mælti hann: „Guði sé lof að það voru ekki íslendingar enda hefði ég aldrei getað trúað því.“ I þessum orðum endur- speglast sú afstaða, sem skiptir mestu á við- sjálum tímum: að hafa trú á íslendingum. Þeir sem hafa ekki ennþá tekið þessa trú, ættu að strengja þess heit að öðlast hana á næsta ári og vera jafn staðfastir í henni og forsætisráðherra. Smáþjóð eins og íslending- um er lífsnauðsyn að hafa trú á sjálfri sér og ætlunarverki sínu, hvort sem það er fólgið í tilraun til þess að bæta samskipti stórveld- anna eða í hvalkjötsáti. Trúin flytur fjöll og hver veit nema hún geti sætt okkur við þá staðreynd sem við fáum ekki umflúið: að við erum íslendingar. Drekkum því minni ís- lendinga og óskum þeim alls velfarnaðar á komandi ári um leið og við þökkum þeim samfylgdina á liðinni tíð og lærdómana sem við höfum dregið af kynnum okkar við þá. Ykkar skál, lesendur góðir. HAUKUR Í HORNI 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.