Helgarpósturinn - 30.12.1986, Blaðsíða 32

Helgarpósturinn - 30.12.1986, Blaðsíða 32
ERLEND YFIRSÝN eftir Magnús Torfa Ólafsson 1986 lagði ráðgátur fyrir árid 1987 Að tíu mánuðum liðnum virðist Stokk- hólmslögreglan jafnnær um hver skaut Olof Palme forsætisráðherra á fjölfarinni götu í höfuðborg Svíþjóðar. Sú óráðna morðgáta má heita táknræn fyrir framvindu afdrifarík- ustu mála á árinu 1986. Stórviðburðir ársins eiga það margir sameiginlegt, að vekja frek- ar spurningar um óráðna framtíð en veita vitneskju um niðurstöður af því sem liðið er. A öndverðu ári urðu tvö tæknislys til að minna óþyrmilega á vandann sem fólginn er í umgengni við afsprengi hátækninnar, sem menn hafa tileinkað sér. Geislun frá sjálfs- íkveikju, sem hlaust af sleifarlagi og and- varaleysi hjá starfsmönnum í kjarnorku- knúnu raforkuveri í Ukraínu, dreifði ólyfjan um mikinn hluta Mið- og Norður-Evrópu. Bandaríska geimskutlan Challenger fórst með öllum innanborðs í augsýn sjónvarps- áhorfenda um allan hnöttinn. Rannsókn leiddi í ljós, að þar hlaust ófarnaður af ofur- kappi forustumanna að sýna árangur sam- fara trassaskap undirverktaka og eftirlitsað- ila. Afleiðingin er að Bandaríkin standa uppi svo misserum skiptir án geimflutningatækis, samtímis því að stjórn ríkisins hyggst ein- beita hátækniiðnaði þjóðarinnar að því að koma upp úti í geimnum varnarkerfi við risa- eldflaugum hins risaveldisins, Sovétríkjanna. í sameiningu hljóta þessir atburðir að setja spurningarmerki við öll slík hátækniáform. Eftir það sem fór úrskeiðis í Tsérnóbil og á Canaveralhöfða, verða áætlanir um sjálf- virkt og tölvustýrt kerfi geimvopna, til að mynda samsett af geislabyssum með vetnis- sprengjur fyrir orkugjafa, enn vafasamari en áður. Stærsta spurningarmerki ársins 1986 varð þó til í Reykjavík, þegar Reagan Bandaríkja- forseti og Gorbatsjoff flokksleiðtogi settust niður til funda í Höfða og tóku að ræða tak- mörkun kjarnorkuvopnabúnaðar og fækk- un kjarnorkuvopna á allt öðrum og stórtæk- ari nótum en áður eru dæmi í skiptum stór- veldanna. Timamótasamkomulag gekk þeim úr greipum, sér í lagi vegna ágreinings um takmarkanir á tilraunum með geimvopn- in, sem Reagan hefur augastað á. Enn segjast þó báðir skuldbundnir af tillögum sínum frá Reykjavíkurfundinum, þótt ekki beri í öllu saman um hverjar þær voru. Eins og nú er komið fyrir Bandaríkjafor- seta, hlýtur honum að vera meira í mun en nokkru sinni fyrr að kóróna valdaferil sinn með því að ná samkomulagi við sovétstjórn- ina um viðameira samkomulag en áður eru dæmi til um hömlur á kjarnorkuvígbúnaði. Það væri vísasta ráðið til að hefja hann og stjórn hans úr kviksyndi hneykslismálsins, sem spunnist hefur af því tiltæki hans, að vopna heri erkiklerkaveldisins í íran. En skilningsleysi Reagans á eðli þess sem hann aðhafðist í því efni, ófullnægjandi og röng viðbrögð við fordæmingu bandarísks almennings og umheimsins, geta ef fram er haldið á sömu braut gert þjóðhöfðingja mátt- ugasta rikis heims ófæran um að leiða til lykta nokkurt meiriháttar mál á alþjóðavett- vangi. Vitneskja um að Bandaríkjaforseti hefur sýnt tvöfeldni í svo alvarlegu máli sem viðureign við skipulagða hryðjuverkastarf- semi, hundsað aðvaranir ráðherra sinna og siðan farið á bak við þá í framkvæmd utan- ríkisstefnu með aðstoð óábyrgra ofstopa- manna í starfsliði forsetaskrifstofunnar, veld- ur ef ekki er að gert trúnaðarbresti, sem af getur hlotist athafnalömun hjá Bandaríkja- forseta. Reagan hittir nú sjálfan sig fyrir, eftir að hafa safnað hið næsta sér mönnum sem telja lítið mál að leysa vanda sem að Bandaríkjun- um steðjar, hafi þeir aðeins frjálsar hendur til að beita bandarísku peningavaldi og hernað- armætti nógu purkunarlaust. Gorbatsjoff á fyrir sitt leyti við þann vanda að kljást, að lina á viðjum miðstýrðs alræðiskerfis í Sovét- ríkjunum, án þess að ljá keppinautum í efstu þrepum valdastigans höggstað á sér. Fyrir- ætlanir um fyrstu verulegu kerfisbreytingar nýja valdahópsins í Sovétríkjunum voru sett- ar fram á árinu sem senn er á enda, en fram- kvæmd bíðurársins 1987. Þá fyrst ersvarsað vænta um gagnsemi þeirra. Fyrsta maí í vor fá þrjár milljónir sovét- manna heimild til að stofna og reka eigin smáfyrirtæki með samvinnusniði i verslun, veitingastarfsemi, smáiðnaði, viðgerðar- þjónustu og slíkum greinum. Með þessari ráðstöfun eru Gorbatsjoff og menn hans að gera löglega svarta atvinnustarfsemi, sem lengi hefur viðgengist í Sovétríkjunum og í raun gert landsmönnum daglegt líf bærilegt, þrátt fyrir vanhæfni, sviksemi og seinlæti hins opinbera þjónustukerfis. Um leið og áð- ur ólögleg einkaþjónusta fær að koma fram í dagsljósið, verður hún skattlögð. En það er ekki bara litli maðurinn í Sovét- rikjunum, sem fær aukið svigrúm á næsta ári. Valin fyrirtæki í helstu framleiðslugrein- um fá heimild til að kaupa og selja á alþjóð- legum markaði eins og þau telja ábatavæn- legast, án afskipta áætlunarskrifstofu og ráðuneyta. Þau fá að halda mestum hluta þess gjaldeyris sem þau afla með útflutningi og verja honum eins og stjórnendum býður við að horfa. Yfirlýst markmið með þessari ráðstöfun er að styrkja stöðu sovésks at- vinnulífs á heimsmarkaði. 1 báðum þessum tilvikum er sovétstjórnin að reyna að virkja markaðsstarfsemi og markaðslögmál til að bæta úr álappalegri og óskilvirkri starfsemi miðstýrðs hagkerfis. Gorbatsjoff er sjálfur lögfræðingur að menntun, og hann hefur sýnt að honum er ljóst að til þess að efnahagsstarfsemi margra, sjálfstæðra aðila fái þróast og dafnað þarf að efla réttaröryggi í samfélaginu. Því hefur ver- ið kunngert rækilega, að flokksforysta og ríkisstjórn hafi ákveðið að setja lög um rétt einstaklings gagnvart ríkisvaldinu í Sovétríkj- unum. Þar er heitið fyrirmælum um form- legar kröfur til birtingar tilskipana og reglu- gerða og um rétt einstaklinga sem opinberir aðilar brjóta á til réttingar mála og bóta fyrir tjón. Til að slík löggjöf verði virk þarf auðvitað óháða dómstóla, sem ekki lúta lengur fyrirmælum flokksskrifstofunnar á hverjum stað. Því eru blöð og aðrir frétta- miðlar óspart hvattir til að fletta ofan af mis- beitingu valds. Sovétstjórnin hefur uppgötvað gagnsemi markaðarins til að uppfylla þarfir almenn- ings og veita fyrirtækjum vaxtarskilyrði, eft- ir að Kommúnistaflokkur Kína reisti fjöl- mennasta ríki heims úr rústum menningar- byltingar elliærs leiðtoga og spilltrar klíku í kring um hann með því að gefa markaðs- starfsemi lausan tauminn. í stað landlægrar hungursneyðar á dögum Maós er kominn landbúnaður sem fullnægir þörfum þúsund milljónanna í Kínaveldi. Iðnaði er skipað að laga sig að arðsemiskröfum og fyrstu gjald- þrotum fagnað sem votti um aukna heil- brigði í atvinnulífi. Ofan á allt saman hafa svo forystumenn Kína ákveðið að fækka í hernum um milljón manns, og segjast búnir að brautskrá úr her- þjónustu 411.000. Það er ekki fjöldinn undir vopnum heldur gæði herþjálfunar og vopna- búnaðar sem veitir styrk, segja núverandi valdhafar í Peking, þvert ofan i kennisetning- ar Maó. Borgarstjórinn ( Reykjavík, Davið Oddsson, býður leiðtoga risaveldanna velkomna í Höfða, þar sem einhverjar mikilvægustu viðræður f alþjóðastjórnmálum fóru fram á árinu sem er að líða. (Mynd: Hvlta húsið.) 32 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.