Bændablaðið - 17.04.2007, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 17.04.2007, Blaðsíða 10
Bændablaðið | Þriðjudagur 17. apríl 200710 Gróðurhúsaáhrif Á bensínskammti mín bifreið ók og brenndi örlitlum sopa og við það af alheimsorkunni tók einungis fáeina dropa. En brennslan er þannig úr garði gerð, hvað gufuútstreymi varðar, að ökutækjanna mikla mergð mengar andrúmsloft jarðar. Þá auka við reyk þau iðjuver, sem eimyrju frá sér buna, svo öskumökk yfir bláloft ber og berst inn í heiðríkjuna. Og svo verður þessi mengun megn að mökk fyrir sólu dregur, úr loftinu úðast eldsúrt regn. Sá endir er skelfilegur. Því megnið af vatnafiskum ferst og felldur er skógarviður, því mengunin inn í blöðin berst og brýtur þann lífheim niður. En gufurnar liggja um loftsins hvel og líkjast því hitageymi. Þær geislun frá jörðu vernda vel og verja orkunnar streymi. En upphitun jarðar á jöklum sést því jakar bráðna í hafi, þá hækkar lögur og löndin flest lenda á bólakafi. Á öllum tækjum ég óðar slekk, sem olíuforða brenna, því ef að lokum í sjó ég sekk, er sjálfum mér um að kenna. Sturla Friðriksson Búnaðarsamband Skagafjarðar gekkst fyrir opnum kynning- arfundi um Þjóðlendumál í síð- ustu viku. Frummælendur á fundinum voru Ólafur Björns- son lögfræðingur, Guðný Sverr- isdóttir sveitarstjóri og formað- ur Landssamtaka landeigenda og Gunnnar Sæmundsson ritari samtakanna. Á fundinum fór Ólafur yfir hvern- ig kröfugerð ríkisins hefur verið háttað hingað til og einnig sjónarmið bænda og annarra landeigenda gagn- vart kröfum hins opinbera. Guðný fjallaði einkum um starfsemi félagsins sem er aðeins um þriggja mánaða gamalt. Hún greindi m.a. frá því að stjórn félagsins hefði átt fundi með öllum þingflokkum og eftir þær viðræður hefði þeim orðið ljóst að ekki væri meirihluti fyrir að breyta lögum um Þjóðlendur fyrir þinglok. Hinsvegar teldi hún möguleika á að verklag við kröfugerð ríkisins mundi breyt- ast og vitnaði þar til orða fjármála- ráðherra. Gunnar fór aðallega yfir aðkomu Bændasamtaka Íslands að þjóðlendumálinu og greindi frá fundum sem hann hefur sótt um þessi mál. Hann lagði ríka áherslu á að Skagfirðingar færu að undirbúa sínar varnir í málinu því það stytt- ist í að lýst yrði kröfum á hendur þeim. Í því sambandi hvatt hann fólk til að reyna að ná og halda til haga sem mestu af gömlum heim- ildum um landmerki og eignarhald á jörðum. Allt slíkt gæti nýst þegar til kæmi að verjast kröfugerð því hingað til hefði sönnunarbyrði á hendur landeigendum verið mjög ströng. Í lok fundarins var meðfylgj- andi ályktun samþykkt. ÖÞ Ályktun Löngumýrarfundarins Almennur fundur á vegum Búnaðarsambands Skagfirðinga, haldinn á Löngumýri 10. apríl 2007, mótmælir harðlega túlkun og framkvæmd þjóðlendulaganna af hálfu ríkisvaldsins, enda er þar gengið gegn þeim skilningi og þeim markmiðum sem lögð voru í tilgang laganna. Fundurinn minnir á að eignarrétturinn er stjórnarskrárbundinn og friðhelgur. Fundurinn skorar á landeigendur að halda fram rétti sínum og krefja ríkisstjórn og Alþingi um bætt vinnubrögð og að lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 verði breytt á þann veg að það land sem afmarkað er sam- kvæmt þinglýstu landamerkjabréfi og/eða heimildaskjali skuli teljast eignarland. Fundað um þjóðlendumálin í Skagafirði Frá fundi um þjóðlendumálin á Löngumýri í Skagafirði. Á mynd- inni til vinstri er Ólafur Björnsson lögfræðingur að flytja erindi sitt en hjá honum situr Guðný Sverr- isdóttir formaður Landssamtaka landeigenda. Til hægri er Gunnar Sæmundsson að hvetja Skagfirð- inga til að verjast kröfum ríkisins í þjóðlendumálinu. Myndir: ÖÞ Matís á Akureyri hefur tekið við mælingum á mengunarefnum í matvælum. Um er að ræða nýtt svið sem mun stórefla starfsemi Matís á Akureyri. Það mun sinna rannsóknum og mælingum á mengunarefnum í matvælum, svo sem magni skordýraeiturs, plöntueiturs og annarra lífrænna mengunarefna sem safnast upp í umhverfinu. Á hinu nýja sviði fara fram mælingar á magni mengunarefna í innfluttu grænmeti, ávöxtum, fiski, kjöti og öðrum matvælum. Matís á Akureyri mun því gegna lykilhlutverki í neytendavernd hér á landi. Auk þess er sviðnu ætlað að safna gögnum sem sýna fram á hreinleika íslenskra matvæla. Þessi gögn eru ætluð í gagnagrunn sem mun nýtast framleiðendum og útflytjendum íslenskra matvæla auk kaupendum og neytendum erlendis. Krafa um heilnæmi matvæla hefur stóraukist og því munu rannsóknir Matís á Akureyri styðja við íslensk- an matvælaiðnað og tryggja öryggi framleiðslunnar. Starfsmenn hjá Matís á Akureyri eru fimm en fyrirtækið sinnir mat- vælarannsóknum í samstarfi við Háskólann á Akureyri, aðrar stofn- anir og fyrirtæki á Norðurlandi. Auk þess eru fjórir nemendur á vegum Matís í meistaraverkefnum á Akureyri. Matís hefur lagt mikla áherslu á að styrkja rannsóknarstarf sitt á Akureyri og myndgreinibúnaðurinn er einn liður í því. Takist að fullnýta búnaðinn í samvinnu við framleið- endur og fyrirtæki í matvælaiðnaði má búast við að fjölga þurfi um tvö til þrjú stöðugildi til viðbótar, en þegar hefur verið aukið við hálfu starfi hjá félaginu norðan heiða og í kjölfar aukinna rannsókna er búist við að starfsfólki muni fjölga enn frekar. Í tilefni af uppbyggingu Matís á Akureyri og formlegri opnun á aðstöðu fyrir slíkar rannsóknir kynnti Sigrún Björk Jakbosdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sér starfsemi Matís nú fyrir skömmu. Matís á Akureyri sér um mælingar á mengunarefnum í matvælum Nýtt svið sem stóreflir starfsemina Mynd: Ásta Ásmundsdóttir, efnafræðingur hjá Matís, Sigrún Jakobsdóttir bæjarstjóri, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, og Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri Matís á Akureyri. Háskólasetur Snæfellsness (HS) í Stykkishólmi vinnur nú að rannsóknum á stofnvistfræði æðarfugls. Verkefnið er styrkt af RANNÍS og er unnið í sam- starfi við Arnþór Garðarsson á Líffræðistofnun Háskólans, Ævar Petersen á Náttúrufræðistofnun Íslands og Jennifer A. Gill við Tyndall Centre for Climate Change Research í Bretlandi. Markmið rannsóknanna er að svara hagnýtum spurningum um stofnstærðarbreytingar, búsvæðaval og framtíðarhorfur í æðarrækt með því að nýta einstæð langtímagögn. Hér er átt við tölur sem æðarbænd- ur hafa safnað um fjölda hreiðra í æðarvörpum sínum, stundum í ára- tugi. Verkefnið veltur því á góðri samvinnu við æðarbændur. Upplýsingar um fjölda hreiðra í æðarvörpum verða notaðar til að skilja betur hvað stjórnar fjölda og dreifingu æðarfugla á Íslandi. Skoðað verður hvernig fjöldabreytingar í vörpum tengjast útbreiðslu og breytingum á henni og hvort einkenni varpsvæða teng- jast stöðugleika í fjölda hreiðra milli ára. Þá verða áhrif veðurfars á fjölda hreiðra könnuð sem gefur kost á að spá fyrir um áhrif lofts- lagsbreytinga á æðarstofninn. Vonlegt er að rannsóknirnar geti bætt þekkingu á vistfræði æðarfugls og á líklegum áhrifum yfirvofandi loftslagsbreytinga á æðarfugl og hliðstæða stofna. Þá ættu rannsóknirnar að nýtast til að þróa vöktunar- og vernd- arkerfi fyrir æðarfuglinn. Ýmsir nærtækir þættir ráða einnig miklu um viðgang æðarvarpa, t.d. afrán og ástand loðnustofnsins að vori. Nálgun á rannsóknum nú mið- ast fyrst og fremst að því að geta með ódýrum hætti (með því að nota viðamikil gögn sem þegar eru til) svarað lykilspurningum um stjórnun æðarstofnsins. Ef vel gengur munu frekari rannsóknir á æðarfugli fylgja í kjölfarið og eru raunar þegar í undirbúningi. Vonandi sjá sem flestir æðar- bændur sér fært að leggja rann- sóknunum lið. Heimasíða verk- efnisins er www.hs.hi.is/page/aed- arfugl en þar verða sagðar fréttir af rannsóknunum. Jón Einar Jónsson (joneinar@ hi.is) og Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is), s: 525 4183 og 525 4158 Rannsóknir á vistfræði æðarfugls við Háskólasetur Snæfellsness

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.