Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.05.1989, Blaðsíða 29

Læknablaðið - 15.05.1989, Blaðsíða 29
LÆKNABLAÐIÐ 171 UMRÆÐA Oft er talað fyrir daufum eyrum þegar fræðsla til handa almenningi um heilbrigðismál er á borð borin. Nægir að minna á kyrrsetur, mataræði o.s.frv. í þessu efni. Fræðsla um alnæmi hefur verið alláberandi í íslensku þjóðfélagi sem og í öðrum á undanförnum misserum en lítið er vitað um áhrif hennar á hegðun og viðhorf almennings. Áhrif tilvistar sjúkdómsins á svonefnda áhættuhópa eru betur kunn en þar hefur skipst nokkuð í tvö horn. Sem dæmi má nefna að í San Francisco fækkaði þeim samkynhneigðu körlum, sem kynmök höfðu í endaþarm, úr 34*% í 8% frá 1985 til 1987. Á hinn bóginn höfðu 65% samkynhneigðra í Pittsburgh enn kynmök í endaþarm og aðeins 2/3 þeirra notuðu verjur enda þótt 91% teldu kynmök í endaþarm einna virkasta smitleið alnæmisveirusýkingar og að verjur veittu þar nokkra vörn. Árangur fræðslu í San Francisco er að nokkru þakkaður umfangsmiklum »markaðsrannsóknum« er fram fóru í því skyni að finna bestu leiðir til að nálgast þá er fræðslunni var beint að (2). Önnur og nærtæk skýring á árangri fræðslunnar þar kann einnig að vera sú að óvíða eru afleiðingar alnæmis jafn áþreifanlegar og þar. Samkynhneigðir læknar og háskólastúdentar í Los Angeles breyttu kynhegðun sinni einnig marktækt (5) og höfðu læknar þar vinninginn yfir stúdentana. Þótt þekking geti við bestu aðstæður stuðlað að verulegri breytingu á lífsstil fólks, sem sérstakra hagsmuna hefur að gæta, er ekki enn ljóst hvort allur þorri almennings lætur sér segjast í jafnviðkvæmum efnum og kynhegðun. Nýlegar athuganir frá Sviss benda þó til að með bættri þekkingu á alnæmi hafi sala smokka aukist um 60% á milli áranna 1986 og 1987, auk þess sem notkun þeirra hafði við skyndikynni aukist úr 33% í 62% á 10 mánaða tímabili (6, 7). Við skoðanakannanir almennings í Noregi frá 1988 kom fram að 70% aðspurðra höfðu orðið vör við smokkaherferð heilbrigðisyfirvalda þar í landi og 60% höfðu sætt sig við innihald hennar (8). Áhrif á hegðun og viðhorf voru ekki könnuð og reyndar hefur reynst örðugt að finna niðurstöður slíkra kannana á prenti. Á íslandi ætti almenningsfræðsla um heilbrigðismál að vera tiltölulega auðveldari en víða annars staðar, landið er mjög fámennt, lífsgæði mikil, ólæsi ekkert og fjölmiðlar ná til þorra þjóðarinnar. Fræðsluherferðin sem hér er fjallað um var allumfangsmikil. Bar þar hæst umfjöllun í fjölmiðlum, bæklinga sem sendir voru á hvert heimili Iandsins, fræðslu í skólum og vinnustöðum. Hluta fræðslunnar var sérstaklega beint til ungs fólks. Var einkanlega rætt um orsök sjúkdómsins, smitleiðir (sérstaklega var fjallað um smit milli karls og konu), kringumstæður sem sjúkdómurinn smitast ekki við, varnir (sérstaklega smokka og fækkun rekkjunauta) og að lokum félagsleg áhrif sjúkdómsins. Niðurstöður þessara tveggja skoðanakannana benda til mjög góðrar þekkingar á staðfestum smitleiðum sjúkdómsins (yfir 95%). Hins vegar töldu nærfellt 60% að smitleiðir væru fleiri en við samfarir, samnýtingu sprautunála og blóðgjafir og bar þar kossa hæst (Tafla II). Orsök þessa er óljós en stafar vafalítið af allmikilli umfjöllun fjölmiðla um tilvist veirunnar í munnvatni og mögulegs smits með því. Óljóst er að hve miklu leyti má rekja þekkingu aðspurðra til fræðsluherferðarinnar sem slíkrar. Engar upplýsingar eru til um þekkingu manna áður en skipulögð fræðsla hófst. Langflestir (um 70%) töldu sig hafa fengið áreiðanlegustu upplýsingarnar úr fjölmiðlum og var sjónvarp þar helst nefnt. Umfjöllun í fjölmiðlum var aðeins að nokkru leyti runnin frá heilbrigðisyfirvöldum og kann máttur fjölmiðla að skýra hve margir töldu aðrar smitleiðir en kynmök og blóðblöndun mögulega virkar. Tæpur helmingur svarenda (42,6%, upplýsingar ekki sýndar) (9) hafði fengið upplýsingar úr fræðslubæklingum, þar af um 80% fólks á aldrinum 18-24 ára, enda var einum bæklinganna beint sérstaklega að yngri aldurshópum. Eigi að síður telja innan við 30% þeirra (þ.e. fólk 24 ára og yngra) sig hafa fengið áreiðanlegastar upplýsingar þaðan. í sama aldurshópi töldu rúmlega 40% sig hafa fengið áreiðanlegastar upplýsingar úr fjölmiðlum. Samkvæmt þessum skoðanakönnunum töldu nær 20% ógiftra sig hafa breytt hegðun sinni og þar af töldu nærfellt 70% sig hafa breytt kynhegðun sinni. Spurningar um hegðunarbreytingar voru hins vegar ómarkvissar og var fólk t.d. aldrei innt eftir því að hve miklu leyti smokkanotkun hefði aukist né heldur hvers konar aðgát var beitt í vali rekkjunauta. Er því örðugt að draga raunhæfar ályktanir um breytingar kynhegðunar af þessum könnunum. Hins vegar kom í ljós í nýlegri bandarískri rannsókn á kynhegðun hjóna þar sem eiginmenn voru smitaðir dreyrasjúklingar að notkun smokka við kynmök var sjaldgæf enda þótt smithætta væri þeim ljós (10). Breytingar á viðhorfum til einstaklinga sýktra af alnæmisveiru virðast eiga alllangt í land.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.