Tíminn - 23.12.1945, Blaðsíða 13

Tíminn - 23.12.1945, Blaðsíða 13
T í M I N N 13 skapi, eða dregið dár að honum. Svipuðu máli gegnir um aðra. Það er ekki einsdæmi, að gesti, sem að garði ber, sé veittur hinn bezti beini og það eitt við hann mælt, er honum má vel hlýða, en síðan hljóti hann hnjóðsyrði af hálfu gestgjafanna, þegar hann er farinn á brott. Gaman vort er að jafnaði grátt og beinist mest að misfell- um í fari annarra, enda njótum vér þess ekki til fullnustu nema nöfn séu nefnd, þeirra er á hefir orðið. Þetta virðist mér lenzka, þó að vitanlega eigi ýmsir óskilið mál. Vér erum einstaklingshyggjumenn, íslendingar, enda afkomendur víkinga, sem með vopnum vógust og virtu það til lítil- mennsku, er sumir þeirra vildu ekki henda börn á spjótsoddum. Harðhent náttúra landsins hefir typtað oss til auðmýktar og miskunnsemi, þegar hörmungar og dauða að höndum ber. Þrátt fyrir það blótum vér miskunnarleysið á laun í daglegum hátt- um og hendum hver annan á spjótaoddum spotts og illkvittni, — bregðum hinu verra, þó að vér vitum hið betra. Af hverjum manni, sem -vér kynnumst, mótast mynd í huga vorum. Orð hans og æði, uppruni hans og atvinna vekja með oss úðir, andúð eða samúð, sem eru af- kvæmi vor, en ekki hans, og gætir mis- jafnt eftir geðsmunum og menningu sjálfra vor. í ungdæmi mínu voru allvíða til veður- hús svo nefnd. Það voru trékassar með húslögun, og tvennar dyr á. Lítil skot lágu innar frá dyrunum, og bjuggu þar karl og kerling, karlinn ygldur, en kerlingin hýr. Þegar veður var gott kom kerlingin út í dyrnar, en karlinn, er miður lét. — Ekki ólíkt þessu er úðum vorum farið. Ef vel viðrar í huga vorum, kemur samúðin til dyranna og verpur mildum blæ á menn og málefni. En þegar skapið þrútnar, verður andúðin úti, og vill þá illkvittnin oft fylgja með. Þá „fýsir eyra illt að heyra“, jafnvel af eigin munni, ef ekki verða aðrir til. Geðsmunum manna er harla misjafnt farið, og sést það ekki sízt á afstöðu þeirra til annarra. Sumir láta sér títt um þá, sem þeir þekkjla ekki eða lítið, aðrir hafa ósjálf- ráðan ímugust á þeim. Flestir drögum vér sundur í dilka þá menn, er vér náum til í hinum mikla almenningi samtíðarinnar. Dilkarnir eru tíðast tveir. í annan setjum vér þá, sem oss geðjast ekki að, og látum andúðina standa í dyrunum. Eftir það vill þeim veita þungt í skiptum vorum, því að sjaldan litum vér þá á málavöxtu frá þeirra sjónarmiði heldur sjálfra vor og miklum fyrir oss misgjörðir þeirra eða ávirðingar, sjáum flísina, en finnum ekki bjálkann. Oss sést yfir hitt, að þessir menn eiga sér vmnendur, sem vafalaust finna miklar málsbætur þeim til handa. í hinn dilkinn drögum vér þá, sem oss er vel við, veitum þeim samúð vora og höldum hlut þeirra upp, nema þeim sé hrósað um of, eða hætt sé við, að þeir vaxi oss yfir höfuð, því þá kynnu þeir að hrökkva yfir í hinn dilkinn. — Á þennan hátt yrkjum vér ævi vora líkt og reyfarasögu þar sem menn eru annað tveggja alls kostar illir eða góðir. f opinberum umræðum er skiptum vor- um við menn og málefni stórlega áfátt, og játa það flestir í orði, en afneita í verki. Góðgirni og samúðar gætir þar sjaldan. Hitt er miklu tíðara að kveðja upp andúð manna til fulltingis sér og sínum málstað, enda þykir sá ræðumaður snjallastur, sem snúið getur fimlegast út úr fyrir andstæð- ingi sínum og varið verst mál með mestri óskammfeilni. Um rétt rök og drengilegan málflutning þykir minna vert. Ef andstæð- ingur á í hlut, má aldrei líta á málsbætur, slíkt væri metið til vesalmennsku, heldur þarf að gera hann sem tortryggilegastan og auvirðilegastan, því að orka verður til hins ýtrasta á andúð manna, auka hana, ef hún er til, vekja hana upp að öðrum kosti. Og oftast virðist þetta undariega auðsótt. Aldrei má ætla andstæðingi ann- að en illar hvatir til hvers, sem hann gerir, aldrei unna honum sannmælis eða viður- kenna hann að neinu, svo að uppvist verði, nema þvi aðeins, að hann vorkennist nóg af öðrum ástæðum, geri yfirbót, eins og það er kallað, eða gangi úr leiknum með öllu. „Ég skal fyrirgefa þér, þegar þú ert dauð- ur,“ sagði Gissur Þorva.dsson við Þórð Andrésson, og þótti kaldranalega mælt, jafnvel á Sturlungaöld. En hversu er okkur þá farið, sem nú erum uppi? Fyrirgefum vér andstæðingum vorum áður eða veitum vér öðrum mönnum fulla samúð, fyrr en þeir eru allir, þó að þeir hafi, ef til vill, ekki gert neitt á hluta vorn annað en það að vera til? — Eftirmæli stinga oft harla mjög í stúf við hitt, sem sagt er eða ritað um menn í lifanda lífi, og virðist raunar þar, sem viðar, æði skammt öfganna á milli. En þá kennir, er kemur að hjartanu, og hér i fásinninu markar dauðinn dýpri spor en úti í hinum fjölbyggðu löndum. í návist hans kennir oss til yfir hverfulleika lifsins og hörmum þau örlög, sem öllum eru ráðin, ekki sízt sjálfum oss. Vér gefum þá góðfýsi og samúð lausari tauminn en ella, svo að vér finnum þau sifjabönd, er saman tengja. Og þá erum vér næst því að láta oss skiljast, að ævi allra manna er harmleikur, sem endar ætíð á einn veg: með dauða söguhetjunnar, hvort sem leik- urinn er langur eða skammur, hvort sem hetjan hefir hlotið mikið eða lítið af höf- undi sinum. Erlend blöð láta mæla eftir þá menn, sem mest þykir að kveða, meðan þeir eru enn á lífi, því að oft þarf skjótt til að taka. Allmikill vandi mundi vera að rita slík eft- irmæli, enda óhugsandi, nema góðvild og réttsýni séu með í verki, ef meta á með sanngirni ævi og störf þeirra, sem um er ritað. Hér á landi tíðkast þetta ekki, svo að ég viti. Hitt er augljóst, að það væri tor- veldara hér en annars staðar, þvi að mála- fylgja öll er hér harðari, óþolið og andúð- in meiri gegn öllum þeim, sem framarlega standa í þjóðfélaginu. En þó hygg ég, að oss væri hollt að hugleiða, þegar hæst stendur gnýrinn um einstaka menn, hvern- ig vér vildum eftir þá mæla. En um deilu- mál skyldi hitt haft að marki, hversu vér vildum flytja þau fyrir erlendum mönnum á ókunnum stað, þvi að þá finnum vér gerst hvað tengir oss, samlenda menn. Það er sagt, að fáir kunni um vini sína að dæma, og þó mundu allir.kjósa slíkan dóm sér til handa. En mundu menn þá réttdæmari um óvini sína? Ég hygg það ekki vera. Mér hefir jafnan reynzt það réttast, sem af góðgirni og samúð er sagt um menn og málefni. Hitt er víst, að eng- inn getur gefið réttan úrskurð, nema hann hafi sett sig i spor þess, sem um er dæmt og litið á málavöxtu frá hans bæjardyrum. Það gerir vinveittur maður miklu fremur en sá, sem öndvert rís. Oft er um það rætt nú á dögum, að oss íslendingum sé það mikil nauðsyn að stilla deilunum í hóf, og sumir kveða svo fast á um þetta, að þjóðin sjálf sé í veði, ef það takist ekki. Efalaust er slíkt af góðum huga mælt og góðum vilja. En til hins virðist þó fremur stefna, að sundur dragi og deil- urnar vaxi. Hverju sætir þetta? Það sætir því, að menn mikla fyrir sér ágreinings- efnin, en gleyma hipu, sem sameiginlegt er: að vér erum af einni þjóð, eigum sama land, sömu tungu, sögu og örlög. Það sætir því, að menn rækta andúð sina, hafa hið verra, ef tvennt er til. Þess vegna stendur hér flokkur gegn flokki og stétt gegn stétt, ekki þess sinnis að þreyta rökræður með hófsemd, svo sem ætlandi værí hernuminni þjóð á háskatimum, heldur í þeim ham, að hagnýta til hins ýtrasta andúð, tor- tryggni og illfýsi, þær höfuðskepnur ófrið- ar og óskapa, sem eitt sinn hafa farið frelsi landsins og valda nú ófarnaði ver- aldarinnar umhverfis oss. Samt er áfram haldið, þó að augljóst sé, að sigla verð: Milli skersins og bárunnar á næstu árum og gjalda varhuga við hvoru tveggja. Vonandi fleytumst vér enn um sinn, en söm er okkar gerðin. Og það er trúa mín, að fyrr eða síðar reki oss í strand, ef vér stillum ekki nokkuð til. Enginn skilji orð mín svo, að ég vilji drepa með öllu á dreif deilumálum flokka eða stétta. Slíku fer víðs fjarri. En deila má, þó að meiri hófsemdar sé gætt i mál- flutningi en hér tíðkast. Og hitc vildi ég sagt hafa, að það getur ekki verið til góðs, er menn og flokkar bera hvorir öðrum á brýn hinar þyngstu sakir, jafnvel land- ráð, eða trúnaðarmönnum bjóðarinnar er brugðið um ómennsku, heimsku <g illgirni. Með því smækkum vér sjálfa oss um cfni fram, óvirðum þjóðina og allt, sem hennar er og verið hefir. Margir halda því fram, að allar illdeilur stafi frá stjórnmálamönnunum sjálíum, enda séu þeir með því marki brenndir að geta aldrei setið á sárshöfði. Vitanlega er þetta rangt og stafar af því, að vér viijum heldur trúa lasti andstæðinganna en hrósi samherjanna. Ef vér lítum nokkra áratugi aftur í tímann, virðist oss, að þá hafi for- ystumenn þjóðarinnar verið hver öðrum snjallari og sumir skörungar. Enginn skyldi þó ætla, að samtíð þeirra hafi litið þann veg á, heldur dró hún að þeim dár og ill- , mæli. Síðar kom svo hlutur þeirra upp, þegar þeir voru liðnir og hin breiðu spjót náðu þeim ekki lengur. Þetta sýnir, að illfýsin dæmir rangt. Stjómmálamenn vor- ir nú eru börn sömu þjóðar sem vér hinir, líkum kostum og löstum búnir, en yfirleitt mikilhæfir menn, enda hefði oss stórlega skjöplast um fulltrúaval, ef svo væri ekki. Hitt er annað mál, að þeir verða að hafa þann hátt, sem tíðkast í landinu, og þjóðin vill hafa hávaða og æsingu um stjórnmál. Það er hennar veiki. Hún vill láta deila illdeilum á opinberum mannfundum. Að öðrum kosti þykja þeir daufir. Stjórnmála- erjur eru almannaskemmtun hér á landi, nokkurs konar þjóðaríþrótt, sem allir verða að stunda, annað hvort sem keppendur eða áhorfendur, ef þeir vilja teljast menn með mönnum. Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherj armót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkemp- urnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allur þorrinn kemur til mótsins, hver einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar 1 síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlf- úðar, tortryggni og getsaka. Þetta er hættulegur leikur, því að hatrið er ekki leikfang. Það er háskalegt afl, sem dregið getur þungar kvarnir, en malar hvorki malt né salt heldur óheill og auðn, að minnsta kosti um síðir, enda væri það ekki illt, ef það yrði til gagns. Og hversu fór þeim Fást og Galdra-Lofti? — Þeir Framhald & bls. 24

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.