Morgunblaðið - 12.04.1981, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 12.04.1981, Blaðsíða 20
68 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 12. APRÍL 1981 Boðið til páskaveizlu II Pottarím Umsjón: SIGRÚN DAVÍÐSDÓTTIR Og áfram neldur veizlan ... Nautakjöt íyllt með kjúklinKalifrarkæfu (Frh.) / (Handa sex) Uppskriftin af kjúklingalifr- arkæfunni var í síðasta blaði, svo ég sný mér alfarið að kjötinu. 6 sneiðar úr nautafilé, G cm þykkar og 150—180 gr hver sneið kjúklingalifrarkæfa um 3 msk smjör 1. Kjötið á að vera laust við allar himnur og sinar, svo að þið byrjið á að skera þær utan af, ef með þarf. Snúið sneiðunum þannig að hliðin vísi upp. Skerið lítinn skurð í hliðina, og víkkið út svo að þið komið um 1 msk af kjúklingalifrarkæfu í hverja sneið. Lokið með því að stinga tannstöngli fyrir. Þegar þið eruð búin að útbúa sneiðarnar og fylla, geta þær beðið í nokkrar klst. í kæliskáp. 2. Þegar sezt er að borðum, hitið þá pönnu með þykkum botni, gjarna smiðajárnspönnu, með því að setja hana á 2—3 (á sex stiga plötu). Þar á hún að hitna í gegn án smjörs. 3. Steikið kjötið rétt áður en það er borið fram. Setjið smjörið á pönnuna og hækkið hitann. Þegar smjörið er bráðið og brúsandi, þá steikið þið kjötið, um 6—8 mín. hvora hlið. Það er viðkvæmt mál hversu mikið kjötið á að vera steikt, svo það er skynsamlegt að spyrjast fyrir um óskir hvers og eins. En það er staðreynd að þegar kjötið er rautt og safamikið að innan, en ekki endilega blæðandi, nýtur það sín sérstaklega vel. Þegar kjötið er hæfilega steikt er það borið fram. Ef þið viljið búa til sósu er það einfalt mál. Þið takið þá kjötið af pönnunni og haldið því heitu. Hellið um 3% dl af rjóma á pönnuna. Látið rjómann sjóða hressilega stutta stund og hrær- ið í á meðan, svo þið náið kjötsafanum vel af pönnunni. Rjóminn þykknar við suðuna og verður fyrirtaks sósa. Ofurlítið af nýmöluðum pipar og lxk— 2 msk sojasósa er hæfilegt krydd. Ef þið viljið hafa enn meira við, byrjið þið á því að hella 2—3 msk af koníaki, eða öðru ámóta áfengi á pönnuna, látið sjóða augnablik og skafið safann af henni, áður en þið hellið rjóman- um á pönnuna. Og enn er hægt að halda lengra eftir breiðum brautum sósugerðarinnar. í stað koníaks, eða gjarnan ásamt koníaki, hell- ið þið allt að 1 'k dl af rauðvíni á pönnuna og látið sjóða þar til aðeins um helmingur er eftir. Ef þið drekkið rauðvín, hafið þá gjarnan sama vín i sósuna. Það tekur enga stund á pönnu við mikinn hita. Hellið síðan rjóma í, en nú aðeins um 2'k dl. Ykkur finnst þetta kannski ekki mikil sósa, en hún á aðeins að vera meðlæti, en ekki að kaffæra kjötið. Hrærið vel í henni meðan hún sýður og berið hana síðan fram. Með kjötinu berið þið gjarnan fram grænar, litlar baunir. Og notið endilega frystar baunir, því þær eru mjög áþekkar nýjum baunum. Það sama er ekki hægt að segja um niðursoðnar baunir. Ef þið náið ekki í frystar baunir, mæli ég með að þið sleppið baununum, en notið nýjar gul- rætur í staðinn. Skerið þær í þunnar sneiðar, eða eldspýtna- laga stöngla, og farið með þær eins og sagt er um baunirnar hér á eftir. 500 gr. frystar haunir 30 gr. smjör, eða um það bil 1 fínsaxað hvitlauksrif 1. Hitið smjörið í potti, og látið hvítlaukinn malla þar í svo hann mýkist en brúnist ekki. Hellið frystum baununum (óþíddum) í pottinn og látið þær þiðna og hitna í gegn, en ekki sjóða. Haldið þeim heitum ef þær þurfa að bíða. Ef ykkur finnst þetta ekki nógu matarmikið meðlæti, getið þið bætt bökuðum kartöflum við. Ef ykkur finnst of lítið að gera ráð fyrir einni sneið af kjöti á mann, getið þið haft 1—2 auka- sneiðar með. En mér finnst ósköp hæfilegt að gera ráð fyrir sneið á mann, þegar um marg- réttaða máltíð er að ræða. Jöklasalat meÖ vín- berjum og sesamfræjum (Handa sex) Þið getið notað hvort sem er jöklasalat (ísbergssalat), kína- kál eða blaðsalat. Aðalatriðið er að salatið sé stinnt og fínt, en ekki lint og ellilegt. Bezt er að nota græn, sæt vínber, en blá koma einnig til greina og taka sig vel út. Mér finnst þau bláu ekki eins bragðgóð, en það er smekksatriði. Sesamfræ fást víða, bæði í kryddstaukum og í pökkum og pokum innan um svokallaðar heilsuvörur. Þau eru bragðmild og af þeim er svolítið hnetubragð. í stað sesamfræja eru grófsaxaðar valhnetur sízt lakari. Það virðist e.t.v. mikil vinna að plokka steinana úr vínberjunum, en það er alls ekki seinlegt. Á salatið er haft ofurlítið af sósu, rétt til bragðbætis. í hana er bezt að nota sólblómaolíu eða enn frekar olíu úr vínberjastein- um, sem fæst víða í stórum grænum flöskum frá danska fyrirtækinu Castus. Gott vínedik er ómissandi, gjarnan hvítvíns- edik. Slíkt fæst t.d. í Náttúru- lækningabúöinni, Jurtinni við Lækjartorg, Víði og sumum Sláturfélagsbúðum. Og svo sinn- ep. En sinnep og sinnep er ekki það sama. Ég ætla ekki að sökkva mér djúpt í sinnepsfræð- in núna, en ég mæli með góðu, ósætu, frönsku sinnepi. Það fæst t.d. í Jurtinni og Kirkjufelli. í Sláturfélagsbúðunum í Glæsibæ og á Háaleitisbrautinni er nú boðið upp á glæsilegt úrval sinneps. Ef þið komið þangað mæli ég með ávaxtasinnepi í þetta salat (Moutarde au vin- aigre rouge aux 3 fruits), búnu til úr sinnepsfræjum, rauðvíns- ediki, tómötum, hindberjum og sólberjum. Þetta er milt sinnep og ævintýralega bragðgott. Ein krukka af góðu sinnepi í staðinn fyrir páskablómin ... 3 msk sesamfræ 1 jöklasalathöfuð, þó ekki risa- stórt 300 — 400 gr vínber Sósa: 1 msk edik 3 msk olia 1 tsk sinnep 1. Ristið fræin á þurri pönnu, þar til þau fara að hoppa og taka lit. Þau verða bragðmeiri, ef þau eru ristuð. 2. Hreinsið salatið og þvoið, en þerrið það vel, áður en það er blandað sósunni. Það má gera daginn áður, og geyma í plast- poka í kæliskáp. Þvoið vínberin og þerrið. Skerið þau í tvennt að endilöngu og takið steinana úr. Undir plasti í kæliskáp geymast þau þannig í nokkrar klst. 3. Blandið sósuna og þeytið hana með gaffli. Sósuna má reyndar gjarnan laga daginn áður. Setjið salatið í skál, ásamt vínberjunum og fræjunum. Hellið sósunni yfir um leið og salatið er borið fram. Bezt er að salatið sé svalt, en ekki svo kalt að bragðið dofni. Súkkulaðikaka (Handa sex) Þessi kaka er sending af himnum fyrir sælgætis- og kökuunnendur. Hún er þung og höfug, bæði sælgæti og kaka, en þó hvorugt. Hún er bezt 2—3 daga gömul, geymist í 2 vikur í kæliskáp og nokkra mánuði í frysti. Pakkið henni í álpappír og geymið hana þannig. Það er smekksatriði hvort þið viljið hana kælda, en mér finnst hún njóta sín bezt ef hún er látin standa við stofuhita í um 20 mín. eftir að hún kemur úr kæliskáp. Sumir vilja eflaust léttþeyttan rjóma með, ískaldan. Og einhverjir kjósa líklega kaffibolla með henni. Ef ykkur sýnist svo getið þið notað nokkrar msk af víni í hana, e.t.v. gróft saxaðar val- hnetur eða heslihnetur. Ef hún er páskaterta er tilvalið að útbúa egg eða unga úr marsi- pani, sprauta rjómadoppum á og tylla góðgætinu þar ofan á. En það bezta við þessa köku er kannski hvað hún er drjúg ... 500 gr suðusúkkulaöi 20 gr (helzt) ósalt smjör 1 msk vatn 1 msk hveiti 4 egg 1. Setjið ofninn á 225°. Smyrj- ið botninn á hringlaga formi, um 22 cm í þvermál. 2. Bræðið súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði við væg- an hita. Súkkulaði bráðnar við um 40°, svo ekki þarf mikinn hita. Bætið hveiti og vatni í. Takið af hitanum og bætið rauðunum í, einni í einu og hrærið vel í. Blandan hleypur saman og verður býsna þykk. Stífþeytið hvíturnar og blandið þeim í súkkulaðiblönduna í 2 umferðum. Hrærið eins lítið í og hægt er. Hellið deiginu í formið og bakið í miðjum ofni í 15 mín., já aðeins í 15 mín. Hún er þá ennþá alveg mjúk í miðjunni, og það er það sem gerir hana svo sérstaka. Kælið og takið hana úr forminu. Lítið hana vera áfram á botninum, þar til hún er borin fram. Þetta er herleg máltíð, ekki satt. Ef þið viljið enn bæta við réttum, eru góðir ostar, t.d. á eftir salatinu, góð viðbót. Vænn biti af gömlum goudaosti, keypt- um í annarri hvorri búð Osta- og smjörsölunnar, er ekki ama- legur, t.d. með brauði og perum. Það er reyndar gamall siður að láta matseðilinn vera á borð- inu, þegar sezt er til borðs. Þetta er afburða skynsamlegt þegar um margréttaðan mat er að ræða, því þá geta matargestir farið hóflega að matnum, til að eiga magarúm fyrir allar kræs- ingarnar, og jafnvel aukapláss í lokin, fyrir velsældina. Það er nefnilega býsna gott að standa upp frá borðum hæfilega mett- ur, en ekki pakksaddur og út- belgdur. Þetta er gott að hafa í huga, ekki sízt um hátíðir ... Appelsínur Marokkó — Appelsínur Jaffa — Sítrónur — Greipaldin — Epli rauð — Epli gr»n — Epli • Granny Smith — Epli dönsk — Vínber blá — Perur — Plómur — Avocado — Mangó — Bananar. w KAUPMENN- VERSLUNARSTJÓRAR AVEXTIR IKUNHAR EGGERT KRISTJAIMSSOIM HF Sundagörðum 4, sími 85300 ÞÚ AUGLÝSIR UM ALLT LAND ÞEGAR ÞÚ AUGLÝSIR í MORGUNBLAÐINU

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.