Morgunblaðið - 18.04.1982, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 18.04.1982, Blaðsíða 10
58 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 18. APRÍL 1982 Dagný Krístjánsdóttir bókmenntafræðingur. MorgunblaÖid/Emilía Magnaðar heimildir um hugsunarhátt kvenna Rætt við Dagnýju Krístjánsdóttur bókmennta- fræðing um rannsóknir hennar á fullorðinsbókum Ragnheiðar Jónsdóttur Þegar nafn Ragnheiðar Jónsdóttur rithöfundar ber á góma, skjóta nöfnin á Kötlu- og Dórubókunum víst upp kollinum í hugskoti flestra. Enda ekki að ósekju, því að barna- og unglingabækur Ragnheiðar eru með því vandaðasta sem ritað hefur verið á því sviði hérlendis. Færri munu vita, að auk tuttugu skáldsagna fyrir börn og unglinga, allmargra barnaleikrita og smásagnasafns skrifaði Ragnheiður skáldsögur fyrir fullorðna, átta talsins. Um þessar bækur hefur verið hljótt, en það eru þær sem Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur fékk á síðastliðnum vetri styrk úr Vísindasjóði til að rannsaka. Niðurstöður Dagnýjar eru nú væntanlegar í bókarformi. Verður bókin sú sjötta í ritröðinni Fræði- rit, sem Rannsóknastofnun í bókmenntum við Háskóla íslands og Hið íslenzka bókmenntafélag gefa út. Dagný Kristjánsdóttir býr á Ggilsstöðum og kennir við menntaskólann þar. Hún hefur áður fjallað um fjórar bókanna í cand. mag. ritgerð sinni árið 1979. Eru það Þóru-bækurnar, bækurn- ar um Þóru frá Hvammi, sem komu út á árunum 1954—1964, jafnhliða mörgum af ástsælustu barnabókum höfundar. Ég hitti Dagnýju að máli einn sólríkan vetrardag, er hún var stödd í Reykjavík á heimili móður sinnar og kom af þeim fundi margs fróðari um rithöfundinn Ragnheiði Jónsdóttur og „gleymdu verkin" hennar. Fannst ég hafa fundið eitthvað mjög merkilegt „Þetta byrjaði allt saman með því, að Silja Aðalsteinsdóttir fór að reyna að urga mér til að taka fullorðinsbækur Ragnheiðar Jónsdóttur og skrifa um þær kandídatsritgerð í íslenzkum bókmenntum við Háskólann," seg- ir Dagný. „Mér fannst hugmyndin alveg fráleit, þó að ég segði það nú ekki við Silju. Mig rétt rámaði í að hafa lesið einhverja Kötlubók þeg- ar ég var smástelpa, annað minnt- ist ég ekki að hafa lesið eftir þenn- an höfund. Ég hafði ekki haft hugmynd um, að Ragnheiður hefði skrifað fullorðinsbækur og þar sem þeim hafði ekkert verið haldið fram datt mér ekki í hug að þær gætu verið sérlega merkilegar. Ég fletti upp á Ragnheiði Jóns- dóttur í þeim bókmenntasögum 4 sem ég hafði handbærar. Hana er ekki að finna í bókmenntasögu Kristins E. Andressonar. í bók- menntasögu Stefáns Einarssonar segir svo: „... Af öðrum höfundum má nefna hina mikilvirku Ragn- heiði Jónsdóttur (1895 — ) er ritað hefur tuttugu og tvær bækur fyrir ungar stúlkur ... og Svanhildi Þorsteinsdóttur, skálds, Erlings- sonar, (1904 — ) sem gefið hefur út smásagnabók góða.“ Ragnheið- ar og Svanhildar er þarna getið í sömu setningunni, Ragnheiðar fyrir mikilvirkni, Svanhildar fyrir föður sinn! Loksins lét ég þó af verða að fá tvær af skáldsögum Ragnheiðar lánaðar á safni og svo lágu þær ósnertar á náttborðinu mínu í rúman mánuð. Það verður því ekki sagt að áhuginn hafi verið að drepa mig. Loksins byrjaði ég að lesa bók- ina Mín Liljan fríd og eftir hana gat ég hreinlega ekki hætt. Ég las bók eftir bók, vakti við lestur fram á rauða morgun, nótt eftir nótt og bókstaflega drakk þessar sögur í mig. Ég var fullkomlega hugfang- in. Mér fannst eins og ég hefði fundið eitthvað mjög merkilegt... Þagað í hel Ég ætlaði upphaflega að taka allar skáldsögurnar átta fyrir í cand. mag. ritgerðinni en Þóru- bækurnar reyndust yfrið nóg þeg- ar til kom. Styrkinn frá því í vetur hef ég þvi notað til þess að bæta hinum fjórum við.“ Hvaða ástæður telur þú vera fyrir því að þessum bókum Ragn- heiðar hefur jafn lítið verið haldið á lofti og raun ber vitni? „Flestir þekkja bækur Ragnheiðar um Dóru o.s.frv. en ástæðan fyrir því að fæstir vita að hún skrifaði líka metnaðargjarnar bækur fyrir full- orðna er einfaldlega sú að þær voru þagaðar í hel. Ragnheiður skrifaði tæpitungu- laust um lífsbaráttu kvenna og ástina. Heimsáhyggjur karlmanna hafa ætíð skipt miklu máli í bókmenntum, en hinn „litli" heim- ur kvenna hefur alla tíð þótt mjög ómerkilegur og bækur Ragnheiðar Jónsdóttur hafa goldið þess,“ segir Dagný. Ragnheiður og Freud „Þegar ég hóf að fást við Þóru- bækurnar byrjaði ég á að greina þær út frá þeirri bókmenntafræði sem ég hafði lært. En ég hafði á tilfinningunni að ég væri bara að sullast á yfirborðinu og fór þess- vegna í auknum mæli að styðjast við sálarfræði Freuds til að skilja mótun Þóru, ná bæði félagslega og sálfræðilega þættinum. Ekki til að sálgreina Þóru sérstaklega heldur vegna þess að hún er um margt dæmigerð fyrir heila kynslóð kvenna, sem eru mótaðar af einu samféiagi og flytjast í annað. Þetta er kynslóð mæðra okkar,“ segir Dagný og leggur áherzlu á hvert orð. „Janine Chassaguet-Smirgel og fleiri hafa gagnrýnt Freud og sér- staklega kenningar hans um sál- fræðilega mótun kvenna, en þær falia mjög vel að Þóru. Þó að Ragnheiður hafi kannski ekki les- ið staf í Freud er sálgreiningin mjög notadrjúg við að greina verk hennar. I bókunum um Þóru frá Hvammi er sögð þroskasaga konu frá því að hún er sjö ára gömul, lítil stúlka sem elst upp við kröpp kjör í íslenzkri sveit, og lesendur skilja við hana fertuga, ráðsetta skipstjórafrú í Reykjavík. Bæk- urnar lýsa uppeldi hennar, mótun og þroska. Þóra er mjög óvenjuleg stúlka, hörð á því að ganga menntaveginn. Henni tekst fyrir mikið harðfylgi að komast suður í menntaskólann en hún verður að leggja gífurlega hart að sér því hún er bæði öreigi og kona. í Reykjavík hittir Þóra strák, sem hún þekkir úr sveitinni. Hann „dregur hana á tálar", hún verður ólétt og þar með er draumurinn búinn. Hún kemst í gegnum nám- ið, giftist síðan barnsföður sínum og hjónabandið verður óham- ingjusamt. Þóra gerir sér vonir um að allir brostnu draumarnir rætist í dótturinni Lóu, sem er velheppnuð, þó að ekki sé hægt að þakka Þóru það, sína eigin ham- ingju er hún löngu búin að af- skrifa. Bækurnar fjalla því um þessa konu, baráttu hennar og það hvernig henni er hnoðað inn í hlutverk sem hún hefur aldrei ætlað sér að takast á hendur. Eitt viötal á þrjátíu árum Ég hef hugsað mikið um Ragn- heiði, finnst ég þekkja hana vel,“ segir Dagný. „Þessi fíngerða, heilsulitla kona skrifaði af ein- hverri sterkri innri þörf og því betur sem ég kynnist henni í gegn- um verk hennar, því meira langar mig til að vita um hana og hvernig hún hugsaði. Ragnheiður fæddist árið 1895 og dó árið 1967. Hún átti við heilsuleysi að stríða mestan hluta ævinnar. Hún var gift Guð- jóni Guðjónssyni, skólastjóra, og áttu þau tvö börn. Eins og flestar konur byrjaði Ragnheiður seint að skrifa. Þegar fyrsta bókin, Ævin- týraleikir, kemur út er hún komin undir fertugt og börnin uppkomin. En síðan skrifar hún þrjátíu bæk- ur á jafnmörgum árurn." Hvernig gekk þér að leita fanga? „Það dugir greinilega ekki til að skrifa þrjátíu bækur á þrjátíu ár- um ef maður er kvenrithöfundur á íslandi. Mér tókst að hafa upp á einu viðtali við Ragnheiði Jóns- dóttur, sem Steinunn Briem tók árið 1965, að mig minnir. Föng mín hafa því verið bæk- urnar sjálfar, þetta eina viðtal og svo hefur dóttir Ragnheiðar, Sig- rún Guðjónsdóttir, reynst mér af- ar vel hvað varðar ýmsar upplýs- ingar. Ég sagði þér áðan hver skil bókmenntasögurnar gera Ragn- heiði. Um margra áratuga skeið skrif- aðist Ragnheiður á við vinkonu sína, Guðlaugu Sigurðardóttur á Utnyrðingsstöðum. Ég vissi af þessu og þóttist hafa himinn höndum tekið þegar Guðlaug veitti mér leyfi sitt til að líta á bréfin, sem hún hefur haldið til haga, öllum með tölu, í þessi mörgu ár sem liðin eru frá því að þær vinkonur hófu að skrifast á. Þarna gat verið komin ómetan- leg heimild um rithöfundinn og verk hans. Ég ætla ekki að segja þér hvað ég var spennt... En Ragnheiður minnist ekki orði á ritstörf sín í þessum bréf- um. Hún skrifar um daglegt líf sitt og segir fréttir af fjölskyld- unni. Hún virðist draga þykkt tjald fyrir, þar sem bækurnar eru annars vegar og hún greinir þær fullkomlega frá öðrum þáttum til- veru sinnar, að því er best verður séð. Ég veit ekki af hverju skilin þarna á milli eru svona skörp, en þetta er dæmigert fyrir það að fjölskyldan og einkalífið koma oftast fyrst hjá konum, sama hvaða störfum þær annars gegna." Átakatímar Hvernig tekur þú á sögum Ragnheiðar í bókinni? „Ég geri fyrst grein fyrir að- ferðafræðinni sem ég nota, en skipa síðan bókunum í þrjá flokka. Þær komu út á tímabilinu 1941 til 1967 og fjalla um tímabilið frá aldamótum til 1960. Á þessum tíma er íslenzkt þjóðfélag að taka gagngerum breytingum. Fyrir utan það hvað flestar bækurnar eru vel skrifaðar eru þær einstök heimild þegar að því kemur að lýsa þessum átakatímum eins og þeir endurspeglast í lífi kvenn- anna. í fyrsta hlutanum; „Úr sveit í borg“, tek ég fyrir Þóru-bækurnar og „í skugga Glæsibæjar". Sú bók kom út ’46, önnur bók Ragnheiðar af þessum átta og gjörólík hinum. Afskaplega vond bók, yfirdrama- tískur ástarþríhyrningur og ung- mennafélagsrómantík. Ég veit ekki hvað kom yfir hana. Annar hlutinn heitir „Úr þorpi í borg“. Þar fjalla ég um bók, sem heitir „Mín Liljan fríð“ og kom út 1956. Bezta bók Ragnheiðar að mínu mati; falleg og átakanleg saga um litla stúlku, sem elst upp í sjávar- þorpi. Fjölskyldan er á hreppnum og samfélagið í kringum hana er hart og skilningsvana. Lilja hefur listræna hæfileika og þegar hún kynnist Óla, berklaveikum syni kaupfélagsstjórans, kynnist hún einnig heimi myndlistarinnar. En Óla batnar og þá er hurðinni skellt á Lilju. Eftir að hafa kynnst fegurðinni getur hún ekki lifað við Ijótleikann í umhverfi sínu. Hún kýs dauðann, aðeins fjórtán ára gömul og lýsingin á því hvernig líf hennar fjarar út er afar harmræn. Ég grét svo yfir þessari bók að það var ekki þurr þráður á mér. Allar leiðir liggja til borgarinnar Næsta bók; „Rósin rjóð“, var skilin eftir í handriti og hefur aldrei komið út. Þar segir af yngri systur Lilju, Rósu, sem er allt annarrar gerðar, hörð og ákveðin og Sæunni, móður þeirra systra, en lýsingin á henni er einhver magnaðasta kvenlýsing sem ég hef lesið fyrr og síðar. Rósa og Sæunn flytja til borgarinnar, þangað sem allar leiðir liggja að lokum, enda heitir þriðji og síðasti hlutinn „í borginni". Þar tek ég fyrir fyrstu og síð- ustu bækur Ragnheiðar; „Arf“,

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.