Morgunblaðið - 28.07.1982, Page 22

Morgunblaðið - 28.07.1982, Page 22
22 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 28. JÚLÍ1982 Hér situr unglingsgrey Bókmenntlr Jóhann Hjálmarsson Timarit Máls og menningar. 3. hefti, 43. árg. KiLstjórar: horleifur Hauksson og Silja Aóalsteinsdóttir. Útgefandi: Bókmenntafélagið Mál og menning Tímarit Máls og menningar er að verulegu leyti helgað ungling- um að þessu sinni. Ég + unglingaheimilið nefnist löng frásogn eftir Védísi 17 ára. Védís lýsir því hvernig hún leidd- ist út í óreglu, brennivín og hass, glataði sambandinu við foreldrana og hafnaði á unglingaheimili í Kópavogi. í lok frásagnarinnar he'fur henni tekist að yfirstíga erf- iðleika æskunnar og henni þykir unglingaheimilið hafa verið hluti af þroskaferli sínum: »Fyrir mér núna er unglingaheimilið eitt- hvað, sem er búið og gert, hlutur sem ég lærði mikið af um lífið, reglur, innilokun, frelsissviptingu, og sérstaklega kynntist ég mann- eskjunni og einstaklingnum mér.“ Frásögn Védisar er ágætlega orðuð og inn á milli er skotið við- felldnum Ijóðum eftir hana sjálfa. En það er eins og skýring á því hvers vegna henni var svo nauð- synlegt að drekka of mikið og reykja of mikið hass, sé ekki fyrir hendi. Gerði hún þetta allt saman af hreinni lífsgleði? Að vísu er drepið á ósamlyndi hennar og for- eldranna, en aðeins lauslega. Að unglingar fjarlægist foreldra sína og foreldrarnir þá, er ekki nema hluti af lífslögmáiinu. Slíkt þarf varla að hafa í för með sér, að unglingurinn kappkosti að tor- tíma sjálfum sér. Mjög skemmtileg ljóðasýnis- horn eru birt eftir krakka í 8. og 9. bekk Hlíðaskóla, en ljóðin ortu þau eftir tveggja vikna kynningu á Ijóðum samtímaskálda. Ingveldur Yr yrkir: „Hér situr unglingsgrey/ sem rembist við að vera frumlegt skáld./ Stundum fer þetta ungl- ingsgrey/ niðrá plan, partí, seint heim.“ Pétur lýsir kunnu viðhorfi unglinga til skóla: „Ég sit við gult borð í bláum stól í stofu 21./ Ég sit í rauðum stól við ljótt borð í ensku./ Edda Edda gedda segir/ „do you think I’m sexy“/ í Hlíða- skóla er leiðinlegt." Sögurnar Þrjú andlit á glugga eftir Önnu Þorbjörgu Ingólfsdótt- ur og Nafnlaus æskuminning eftir Kristínu Jónsdóttur tengjast heimi unglinganna, einkum er saga Önnu Þorbjargar næm lýsing á hugarheimi stúlku, sem er að breyast i konu. Skorinorð ljóð Lindu Vilhjálmsdóttur, hafa líka sitt að segja um unglinginn, kon- una og samfélagið. Guðjón Sveinsson er meðal þeirra barna- og unglingabókahöf: unda, sem vakið hafa eftirtekt. I Tímariti Máls og menningar, er birt verðlaunasaga eftir hann sem kom fyrst í norsku smásagnasafni. Sagan lýsir unglingi í sveit, sem ætlar að verða skáld og er neyddur til að kynnast óhrjálegum heimi vinnunnar, sendur í beitningu með ruddalegum körlum. Þetta er gamalkunnugt efni og er ekki tek- ið nýjum tökum að mínu mati, en er engu að síður hugnæmur lestur. Guðjón Sveinsson er greinilega enginn byrjandi, samt hættir hon- um til að láta eigin skoðanir bitna á framvindu sögunnar. Best er að frásögnin sjálf spegli meininguna, boðskapinn. Ljúflingar og fleira fólk, nefnist ritgerð eftir Guðrúnu Bjartmars- dóttur, undirtitill Um formgerð, hugmyndafræði og hlutverk ís- lenskra huldufólkssagna. Þetta er óneitanlega fróðlegur lestur, ekki síst bollaleggingar Guðrúnar um kynferðisleg efni sem áleitin eru í huldufólkssögum. Fræðimennska af öðru tagi er upprifjun Sveins Skorra Hðsk- uldssonar um Moskvuför Davíðs Stefánssonar og fleiri. Ljóst er, að Davíð hafði nokkra samúð með byltingunni, þótt hann snerist öndverður gegn henni síðar. Jóhann Hjálmarsson Sýning í tilefiii af ári aldraÖra Myndlist Valtýr Pétursson' Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýning í tilefni af ári aldr- aðra, og kennir þar margra grasa. Þarna eru málverk, tré- skurður, skúlptúr, vefnaður og ýmislegt unnið í járn og tré og ull. Allt eru þetta merkilegir hlutir, sem settir hafa verið upp á Kjarvalsstöðum, en satt að segja er ekki gott að þreifa sig áfram eftir fyrirfram gerðri áætlun, er þessi sýning er skoð- uð. Það er að segja, erfitt er að henda reiður á samsetning þess- arar sýningar, og það er eins og vanti kjölfestu í heild sýningar- innar. Persneskt skáld sagði í eina tíð, í lauslegri þýðingu: Þeir sem maður elskar hafa engan aldur. Sama gildir um alla góða list. Sem sagt: það sem gildir eru gæði listar, en ekki aldur. Það er því ekki hægt að greina list í list aldraðra og list þeirra yngri, enda held ég, að það sé ekki ætl- unin með þessari sýningu. Hjálmar í Bólu er ungur að ár- um er hann gerir hinn merkilega kistil, sem er á þessari sýningu, og yfirleitt munu þau listaverk, sem þarna eru sýnd, vera gerð á öllum aldri. Sú leið hefur verið valin að sýna það, sem að mínum dómi er ranglega kallað alþýðu- list. „Prímitív" eða „Naiv“ list er allt annað en alþýðulist, þótt hún sé yfirleitt unnin af ómennt- uðu fólki í listum. örfáir eru þess umkomnir að skapa list í þeim dúr, og því er það langt frá því að vera réttnefni sem notað er. Þarna vantar okkur orð yfir fyrirbæri, sem er algengt með öllum þjóðum og hefur verið mjög áberandi á þessari öld. All- ir muna hina gömlu Grandmoth- er Moses vestur í Ameríku. Þessa listamenn má finna um víða veröld, en hvergi munu þeir hafa verið nefndir alþýðulista- menn nema hér. Ég fæ ekki betur séð, en þessi sýning á Kjarvalsstöðum sé nokkuð ofhlaðin, ef svo mætti til orða taka. Þarna eru merkilegar myndir eftir málara eins og Jón Hróbjartsson og altaristafla Samúels Jónssonar úr Selárdal, myndir Kristins Ástgeirssonar, sem ég man ekki eftir að hafa séð fyrr. Mjög ágætar. ísleifur Konráðsson á þarna flestar myndir á veggjum og er hann sjálfum sér líkur að vanda. Það er vafasamt, hvort hann þolir svo margar myndir á sama vegg, því að sannast sagna syngja þær furðulega oft sama lagið. Sölvi Helgason á þarna nokkrar teikn- ingar, sem mest eru mynstur- gerðir um sjálfsmyndir hans. Gríma, Eggert Magnússon og Stefán Jónsson frá Möðrudal eiga öll persónuleg verk, sem ekki gætu verið ættuð frá öðrum en höfundum þeirra. Jón heitinn í Möðrudal á þarna frummynd að altaristöflu, sem er að mínum dómi eitt mesta listaverk á þess- ari sýningu. Annað verk verður að nefna hér í þessum línum: Það eru tréskurðarmyndir Sæ- mundar Valdimarssonar sem eru í sérflokki. Vefnaður Óskars Magnússonar er einnig persónu- legur, og sama má segja um teppi konu hans Blómeyjar Stef- ánsdóttur. Einnig eru þarna myndir eftir Halldór Jónsson frá Akureyri og auðvitað málverk eftir Gísla Jónsson. Altaristafla eftir Ámunda smið úr Þjóð- minjasafni er þarna ásamt guðspjallamönnum eftir óþekkt- an höfund. Eins og sjá má af ofangreindu, er hér mikið um að vera, og ætti fólk að finna ýmislegt við sitt hæfi. Það er skemmtilegt að kynnast þessum verkum, en eins og áður er vikið að, er þröngt á þingi og ekki auðvelt að gera sér grein fyrir hverjir séu aðal- drættir þessa samsafns. Dæmið gengur enn verr upp þegar Sig- urjón Ólafsson og Ásmundur Sveinsson ganga á sviðið. Að mínu viti hefði átt að fara betur með þessa hluti og ekki sýna það magn, sem raun ber vitni. En fólk ætti að skoða sýn- inguna vel og vandlega, því að þar má finna verulega góð verk. Því er þessi sýning þörf og fróð- leg og gefur hugmynd um list- ræn vinnubrögð, sem eru til sóma þeim, er hlut eiga að máli. Valtýr Pétursson Poppaður Þrumuvagn Finnbogi Marinósson Van Halen Diver Down Warner Bros. Record K 57003 í gegnum árin hafa komið fram ótal rokkhljómsveitir. Sumum þeirra hefur tekist að skapa sér nafn á meðan aðrar týnast í fjöldanum. Ein af þeim fyrrnefndu er Van Halen og er hún án efa ein merkilegasta rokkhljómsveit seinni ára. Tón- list Van Halen hefur haft geysi- leg áhrif á þungarokkið og mun- ar þar mest um gítarleikarann Edward Van Halen. Hann og hinn sérstæði gítarstíll hans hafa mótað mjög gítarleik seinni ára. Eins og fyrr segir er tónlist- in þungt og kraftmikið rokk sem stundum hefur verið í meira lagi brjálæðislegt. Fyrir skömmu sendi Van Halen frá sér nýja plötu og á henni sýnir hljóm- sveitin á sér nýja áður óþekkta hlið. „Diver Down“ kalla piltarn- ir plötuna og á henni er að finna 11 lög. Athygli vekur að einungis fimm þessara laga eru eftir þá félaga. Það fyrsta sem gerir plötuna merkilega er hversu mörg gömul lög hljómsveitin tekur upp og út- setur. Á hlið eitt er að finna tvö gömul lög. Kinksrokkarinn „Where Have all the Good Times Gone“ er það fyrra og fær það vægast sagt frábæra meðhöndl- un. Kröftugur rokkari sem fær næstum lamaðan til að dansa. Hitt gamla lagið er „(Oh) Pretty Wornan" og kemur það mjög skemmtilega út. Hinsvegar stingur það nokkuð hvað lagið er í léttri útsetningu. Samkvæmt venjunni hefði lagið átt að vera í grimmri rokkútfærslu en svo er ekki. Og þá er komið að merki- legasta punkti plötunnar. Platan er þræl poppuð. Það er ekki bara „(Öh) Pretty Woman" sem er poppað. Nei, lög eins og „Secrets", „Dancing in the Street", „Litlle Guitars" og „Full Bug“ eru allt fyrsta flokks rokk- uð popplög. En það er fleira en þessi popplög sem eru áhugaverð á plötunni. Þriðja lagið á hlið 1 heitir „Cathedral" og eina hljóð- færið í „laginu" er gítar og er hann spilaður í gegnum eitt af þeim tækjum sem Eddy Van Halen hefur fundið upp og hann- að. Vel gert og allt það en verður leiðigjarnt og ætti betur heima á hljómleikum en stúdíóplötu. Ekki vissi ég hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég spilaði „Big Bad Bill (Is Sweet William Now)“. Lagið og útsetning er allt öðruvísi en allt það sem komið hefur frá Van Halen. í laginu fá þeir til liös við sig þriðja Van Halen-bróðurinn og spilar hann á klarinett. Ef líkja á laginu við eitthvað til að gefa einhverja mynd af því þá er best að segja það vera nákvæmlega eins og eitt af þeim lögum sem Hljóm- sveit Ingimars Eydal spilaði af svo mikilli snilld hér á árum áð- ur. Ótrúlegt en satt. Að síðustu kóróna piltarnir léttleika plöt- unnar með samsöng í síðasta laginu, „Happy Trails". Það er ekki gott að segja hvað þeir piltar eru að hugsa þegar þeir hljóðrita hluti eins og eru á „Diver Down“. Allir fara þeir á kostum. Engu skiptir hvort það er í lagi eins og „Where Have all the Good Times Gone“ eða „Big Bad Bill“, alltaf eru þeir frábær- ir. Ekki ber eins mikið á gítar- leik Eddys eins og á gömlu plöt- unum en þar sem hann er, sýnir stráksi það að hann er án efa einn besti gítarleikari rokksins ef ekki sá besti. Van Halen hefur verið gagn- rýnd fyrir að vera að stíga skref afturábak með þessari plötu og er þá átt við öll gömlu lögin og hversu poppuð platan er í heild- ina. En þó svo að hljómsveit sé á einhverri ákveðinni tónlistarlínu þá þarf hún ekki að ríghalda í hana ef hún getur gert eitthvað fleira (og jafn frábærlega) og til dæmis Van Halen gerir á „Diver Down“.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.